Ætlar í bakpokaferð um Tröllaskaga um helgina

Valgerður á Fimmvörðuhálsi.
Valgerður á Fimmvörðuhálsi. Ljósmynd/Aðsend

Valgerður Húnbogadóttir lögfræðingur veit fátt betra en að fara í fjallgöngu. Þegar hún neyddist til að vinna heima í samkomubanninu skipti hún vinnudeginum í tvennt og gekk á tvö fjöll á dag. Á tveimur vikum var hún búin að ganga sem jafngildir hæð Everest-fjalls. 

Um verslunarmannahelgina ætlar Valgerður að fara í nokkurra daga göngu um Tröllaskaga með bakpoka.

Valgerður er einn þriggja stofnenda kvennasamfélagsins Fjallastelpur sem var stofnað í þeim tilgangi að skiptast á góðum ráðum og hvetja konur til að ganga á fjöll. 

Hvert ertu búin að ferðast í sumar?

„Ég er búin að fara margar ferðir á Suðurlandið og Suðausturland. Sem barn ferðaðist ég nær eingöngu um Norðurlandið, Vestfirði og Noreg þar sem ég ólst upp að hluta. Suðurlandið var mér því hulin ráðgáta þar til ég kom þangað í fyrsta sinn fyrir tveimur árum. Skaftafellið er komið í mikið uppáhald og fór ég meðal annars þrisvar þangað á einum mánuði í byrjun sumars. Í fyrra fór ég upp á Hvannadalshnjúk og frá toppi hans horfði ég löngunaraugum á Hrútfjallstinda. Ég setti mér þar og þá markmið um að komast þangað líka sem ég náði í byrjun sumars. Viku seinna varð ég svo heppin að fá sæti á námskeiði í jöklaleiðsögn í Skaftafelli og „neyddist“ því til að fara aftur og dvelja þar í fjóra daga. Þá eyddi ég um 10 klukkustundum á dag á jökli en dagarnir voru allt of fljótir að líða. Ég var eini Íslendingurinn á námskeiðinu en á því voru fjórir Pólverjar og einn ítalskur kennari. Ég lærði því þó nokkrar nýjar setningar í pólsku sem var einstaklega ánægjulegt.“

Valgerður á Jebel Burda í Wadi Rum-þjóðgarðinum í Jórdaníu.
Valgerður á Jebel Burda í Wadi Rum-þjóðgarðinum í Jórdaníu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig ferðalögum hefur þú gaman af?

„Ég eyði átta klukkustundum á dag fyrir framan tölvu í vinnunni og þess vegna þykir mér afar mikilvægt að fá hreyfingu út úr mínum ferðalögum. Helst vil ég komast á milli staða með því að nýta eigin orku. Ég hef til dæmis hjólað í gegnum Loire-dalinn í Frakklandi með bakpoka bundinn við bögglaberann á nokkrum dögum. Í fyrrahaust fór ég til Jórdaníu í tvær vikur og lét setja saman fyrir mig gönguferðir og fjallgöngur í Wadi Rum-þjóðgarðinum á slóðum Arabíu-Lárens en sögur hans hafa lengi heillað mig. Í vetur bauð móðir mín mér með til Tenerife. Að fara í sólarlandarferðir er alls ekki minn tebolli en ég komst ég að því að á Tenerife er hæsta fjall Spánar og þar er einnig hægt að fara á brimbrettanámskeið þannig að ég ákvað að þiggja boðið og fara með henni. Ég kom endurhlaðin til baka. Ég lenti reyndar í tveggja vikna sóttkví þegar ég kom heim en ég nýtti þær vikur mjög vel í að ganga á mannlaus fjöll í nágrenni Reykjavíkur. Ég skipti vinnudeginum einfaldlega í tvennt. Ég vann í fjóra klukkutíma að heiman og gekk svo á eitt fjall, vann síðan í fjóra tíma í viðbót og gekk svo á annað fjall. Tveimur vikum síðar var ég búin að ganga sem jafngildir hæð Mount Everest.“

Valgerður fór daglega í fjallgöngu í samkomubanninu.
Valgerður fór daglega í fjallgöngu í samkomubanninu. Ljósmynd/Aðsend

Hvað ætlarðu að gera um verslunarmannahelgina?

„Ég ætlaði að fara í nokkurra daga ferð með allt á bakinu um Tröllaskaga með góðum vinum. Okkur langaði að fara annaðhvort Laugaveginn eða á Hornstrandir. Mér finnst hins vegar mikilvægt að dreifa álaginu á náttúruna og reyni því iðulega að fara á fáfarnari slóðir eða á fjölfarnar slóðir á meðan þær eru fámennar.

Í ljósi aðstæðna gæti þó farið svo að við förum bara í dagsferðir á fjöll frá Siglufirði. Á Siglufirði eru óteljandi útivistarvalmöguleikar þar sem allir geta fundið fjallgöngu við hæfi. Á Tröllaskaga er líka að finna sjö tinda á listanum yfir 100 hæstu fjöll Islands.“

Hvað hefur staðið upp úr í sumar?

„Verkefnið Fjallastelpur hefur klárlega staðið upp úr. Þessi frábæra hreyfing sem yfir 7.000 útivistarkonur eru að taka þátt í. Verkefnið gengur út á að hvetja konur áfram til dáða við að ná sínum útivistarmarkmiðum og láta sína útivistardrauma rætast. Skiptir þá engu hvort sá draumur sé að komast upp á Úlfarsfell eða Mount Blanc. Allar erum við í þessum hópi á eigin forsendum.“

Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér einhverja uppáhaldsgönguleið á Íslandi?

„Nei það held ég ekki. Mér finnst nánast undantekningarlaust sú leið sem ég er að ganga hverju sinni fallegust.“

Hvaða gönguleið mælir þú með að allir gangi?

„Það er í raun engin sérstök gönguleið. Ég mæli hins vegar með því að allir gangi þá gönguleið sem þá dreymir um að ganga. Ég mæli einnig með að nota hugmyndaflugið þegar kemur að vali á gönguleið. Ég mæli sérstaklega með að reyna að velja fáfarnari gönguleiðir þetta sumarið. Mitt besta útivistarleyndarmál er september á Laugaveginum. Gönguleiðin er opin fram í september en þá eru nánast engir á ferli þar. Skálaverðirnir virðast þá vera í sérstaklega góðu skapi (sem þeir virðast reyndar alltaf vera) og geta sagt manni góðar sögur frá sumrinu einfaldlega því þeir hafa tíma til þess.“  

Ljósmynd/Aðsend
Valgerður segir að eldamennska á prímusi sé hennar uppáhaldsiðja.
Valgerður segir að eldamennska á prímusi sé hennar uppáhaldsiðja. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Valgerður á námskeiði í jöklaleiðsögn á Svínafellsjökli í Skaftafelli.
Valgerður á námskeiði í jöklaleiðsögn á Svínafellsjökli í Skaftafelli. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert