Brugga bjórinn Heima í garði Frakklands

Lára og Yann með bjórinn Heima sem þau brugga í …
Lára og Yann með bjórinn Heima sem þau brugga í gömlu hesthúsi sem fylgdi húsinu þeirra í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend

Íslenski mannfræðingurinn Lára Samira Benjnouh kynntist Frakkanum Yann Le Pollotec í Ósló eftir að hún kláraði nám þar í borg. Þau bjuggu í Noregi í 16 ár en ákváðu að breyta um umhverfi og flytja til Frakklands fyrir nokkrum árum. Þau tóku algjöra u-beygju og fluttu úr borg í sveit þar sem þau brugga  bjórinn Heima.  

„Ætlunin var að búa í Ósló tímabundið en svo ílengdumst við og eignuðumst barn númer tvö og númer þrjú. Ég var í fastri vinnu hjá Útlendingastofnun Norðmanna og fannst vinnan mín svo spennandi að ég tímdi ekki alveg að gefa hana upp á bátinn,“ segir Lára um flutningana.  

Yann, sem er menntaður kokkur og vínþjónn, gældi við þá hugmynd að verða vínbóndi og framleiða eigið vín. Hann fékk vinnu hjá vini sínum sem er vínbóndi og Lára fór í ársleyfi og réð sig í vinnu hjá grænmetisbónda.  

Búa í garði Frakklands

Fjölskyldan ákvað að vera um kyrrt í Frakklandi. Krökkunum leist ekkert sérstaklega vel á þá hugmynd að flytja til Íslands eftir aðeins eitt ár í Frakklandi. Þau ákváðu því að kaupa fallegt hús í Pouillé sem þau gerðu upp. „Yann fann hins vegar út að þrátt fyrir mikinn vínháhuga þá var vínframleiðsla ekki fyrir hann,“ segir Lára. Áður en Yann bjó í Noregi bjó hann í Bandaríkjunum þar sem hann kynntist smábrugghúsamenningunni fyrst. Nú brugga þau bjór í gömlu hesthúsi sem fylgdi húsinu þeirra í Pouillé. 

Pouillé er fallegt 800 manna þorp í Loir-et-Cher í Mið-Frakklandi en Loiredalurinn er oft kallaður garður Frakklands vegna gróðursins og mildu veðráttunnar. Lára segir að dalurinn sé þekktur fyrir vínframleiðslu, sögufræga bæi og konungshallir.  

„Konungar Frakklands dvöldu hér oft yfir sumarmánuðina og létu byggja sér „sumarbústað“. Það eru yfir 300 hallir í héraðinu. Mér finnst mjög gaman að heimsækja þessar stórbrotnu hallir og kynnast konungasögu Frakklands,“ segir Lára um dalinn sinn. 

Það var margt sem breyttist við flutningana og erfitt að venjast skriffinnskunni í Frakklandi. Skólakerfið er einnig ólíkt því sem þau áttu að venjast í Noregi. 

„Ég held samt að þegar allt kemur til alls höfum við lært mjög mikið á þessu ævintýri okkar og það styrkir á ákveðinn hátt krakkana líka. Þau hafa kynnst hinum mjúku gildum Norðmanna, jafnréttishugsun Íslendinga og þessum gömlu og oft hörðu menningargildum Frakka. Það gerir þau vonandi vel í stakk búin til að takast á við lífið sem þau sjálf eiga eftir að velja sér og geta vonandi ferðast á einfaldari hátt milli þessara ólíku menningarheima.“

Börn þeirra Yann og Láru eru þrjú en foreldrarnir vildu …
Börn þeirra Yann og Láru eru þrjú en foreldrarnir vildu að þau lærðu annað hvort íslensku eða frönsku vel. Þau enduðu á að flytja frá Noregi til Frakklands. Ljósmynd/Aðsend

Fleira breyttist við flutningana en Lára eignaðist sinn fyrsta bíl eftir að hún flutti í frönsku sveitina.

„Ég festi kaup á mínum fyrsta bíl þegar við fluttumst hingað. Hér eru engar almenningssamgöngur og frekar langt í skóla barnanna og verslanir þannig að það var ekkert annað í boði ef við ætlum að komast á milli staða hér í sveitinni.“

Mikil virðing borin fyrir mat

Lára bætir upp fyrir mengunina frá bílnum með því að rækta mikið af matnum sjálf. Það sem heillar Láru einna mest við Frakkland er matarmenningin. 

„Hér er litið á máltíðir sem afar mikilvægar og þá sérstaklega í félagslegu samhengi. Hér er borin mikil virðing fyrir mat og matmálstímum og mikið talað um mat. Fyrir konu sem finnst gaman að borða og elda er þetta alger draumur. Ég nýt þess einnig að geta farið á matarmarkaði og keypt góð hráefni beint af bændunum og ekki síst að geta keypt hráefni sem er ræktað eða búið til í nágrenni við okkur. Að varan hafi ekki verið flutt heimsálfa á milli að óþörfu. Það þýðir ekki að ég kaupi aldrei ananas eða banana, sem ekki er ræktað hér. Hins vegar erum við upptekin af því að borða árstíðabundnar vörur. Við kaupum til dæmis aldrei tómata eða jarðarber sem eru ræktuð í gróðurhúsi á Spáni eða Hollandi í desember. Það er bæði bragðlaust og lítið eftir af næringarefnum í þeim. Það er svo margt annað gott að borða yfir vetrartímann.“  

Lára og Yann rækta sitt eigið grænmeti og stefna að því að verða sjálfbær að því leyti. Í sumar ræktuðu þau meðal annars 86 tómatplöntur af 16 mismunandi tegundum. Í fyrravetur bættu þau hænum við og þurfa ekki að kaupa egg.

Aldrei í lífinu hefði borgarbarninu dottið í hug að hænsnahald gæti verið svona skemmtilegt. Eftir áramót stefni ég að því að læra um býflugnarækt og sjá hvort við gætum bætt við býflugum í búskapinn og framleitt eigið hunang. Það er ekki alveg sjálfgefið, en mig langar að reyna. Garðurinn er orðinn mitt helsta áhugamál og það er gaman að geta sinnt því. Það er líka svo gott fyrir líkama og sál.“ 

Lára er með hænur í garðinum.
Lára er með hænur í garðinum. Ljósmynd/Aðsend

Bjórframleiðsla vaxandi grein í Frakklandi

Lára segir Frakkland aðallega þekkt fyrir víngerð en á árum áður var algengt að brugga heima í sveitunum. Þá var bruggaður yfir veturinn bjór sem notaður var til að svala þorstanum á sumrin.  

„Svo datt þessi heimabruggun niður nema þá helst í norðurhéraðinu sem liggur við landamæri Belgíu og í Alsace-héraðinu sem liggur við landamæri Þýskalands. Þar hefur verið lífleg bjórframleiðsla svo áratugum skiptir. Frakkar utan þessara héraða tengja oft bjór við sumarið. Drykkur sem er drukkinn þegar það er heitt úti og skilja kannski ekki af hverju við í norðri drekkum bjór allan ársins hring. En þetta er að breytast og smábrugghúsamenningin hefur náð til Frakklands eins og við sjáum á Íslandi, Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu. Bara fyrir um tíu árum voru um 200 brugghús í Frakklandi og nú eru þau orðin yfir 2.000. Markaðurinn stækkar með hverju ári, sem er mjög spennandi. Árið 2019 voru opnuð yfir 350 ný smábrugghús. Fleiri barir og veitingahús eru einnig farin að brugga sinn eigin bjór. Það er líka mjög gaman að framleiða bjór í vínhéraði eins og hér.“

Stefnan er að hafa atvinnu af brugghúsinu Heima. Það tekur tíma  koma slíku fyrirtæki af stað. Upphaflega ætlaði Lára ekki að standa í brugghúsrekstri en vinkona þeirra átti helminginn á móti Yann og brugguðu þau þá bjórinn undir öðru nafni. Hún fór úr rekstrinum og Lára er nú eigandi ásamt manni sínum. Brugghúsið fékk þá nafnið Heima en systir Láru kom með þá hugmynd. 

„Ég brugga ekki sjálf. Það er Yann sem sér um sjálfa framleiðsluna. Hins vegar aðstoða ég við allt annað; að tappa bjórnum á flöskur, setja á merkimiða, keyri út vörur, sé um sölu og markaðskynningu og svo framvegis. Allt er gert í höndunum á gamla mátann. Bjórinn er bruggaður yfir eldi, tappað á flöskur af okkur og ekki tækjum. Merkimiðarnir eru hannaðir af okkur og límdir á flöskurnar í höndunum. Þótt ég hafi ekki bruggað, nema bara svona sem aðstoðarmanneskja, þá er það á dagskrá að ég læri það.   

Heima er eitt af minnstu smábrugghúsum í Frakklandi, en við stefnum að því að stækka við okkur. Eins og er erum við með fáa kúnna, en önnum vart eftirspurn. Við erum að bíða eftir að komast í stærra húsnæði, sem verður ekki tilbúið fyrr en á næsta ári og þá munum við fjárfesta í stærri tekjum til að auka framleiðsluna. Við höfum ekki möguleika á að gera það í núverandi húsnæði, sem er of lítið.“  

Þar sem þau búa í vínhéraði framleiða þau líka vínbjór í takmörkuðu upplagi 

„Vínbjór er einungis hægt að framleiða einu sinni á ári þegar vínuppskeran er í gangi. Fyrsti vínbjórinn okkar er rauðvínsbjór sem við köllum La Pouillasonne, sem er nafnið á íbúum Pouillé. Þessi bjór er látinn gerjast á nýpressuðum vínberjum frá náttúruvínbændunum í þorpinu. Í ár framleiddum við í fyrsta sinn hvítvínsbjór sem við köllum Chardonnhazy. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta léttskýjaður bjór sem er gerjaður á pressuðum Chardonnay-þrúgum. Þrúgurnar koma frá náttúruvínbónda í Pouillé. Þessi bjór geymist lengur en venjulegur bjór vegna vínsins. Hann þroskast og breytist með aldrinum, enda „lifandi“ eins og vín.“ 

 

Frakkar drekka ekki alltaf í hófi

Þrátt fyrir  matarmenningin heilli Láru er áfengismenningin í Frakklandi ekki alltaf eins og fólk ímyndar sér. Hún segir Frakka ekki endilega láta það duga  drekka eitt léttvínsglas með matnum. Hún segir  í sveitinni  oft mikil drykkja. Það er líka til bindindisfólk í Frakklandi og fólk sem bragðar ekki áfengi nema á tyllidögum. Hún segir fjölbreytta drykkjumenningu endurspegla hversu stórt landið er og menningin fjölbreytt 

„Hins vegar finnst mér skemmtilegt að vera boðið í eða bjóða sjálf í það sem Frakkar kalla „apéro“ sem er eins konar fordrykkur. Þá er gjarnan boðið upp á áfenga drykki og léttar veitingar með, eins og pylsur, paté, ólífur og snakk. Apéro er mun óformlegra en matarboð. Sjálfri finnst mér þetta frábær leið fyrir vini að hittast í vikulok án þess að þurfa að standa sveitt við eldamennsku allan daginn. Svo er þetta ágæt leið til að kynnast nýju fólki eins og nágrönnum eða foreldrum vina barnanna. Mér finnst frönsk samræðumenning svo skemmtileg. Þeir kunna lagið á að deila sínum hugmyndum og lífssýn. Þeir eru ekkert feimnir við að ræða hlutina og skiptast á skoðunum.

Annars finnst mér aðallega heillandi við drykkjarmenningu, hvort sem hún er í Frakklandi eða annars staðar, að fólk geti drukkið í hófi og valið stund og stað. Það á bara engan veginn við alls staðar og alltaf að hafa áfengi um hönd.“

mbl.is