Viltu kaupa einkaeyju í Noregi?

Hvað með að kaupa einkaeyju í Noregi?
Hvað með að kaupa einkaeyju í Noregi? Ljósmynd/Jamesedition.com

Ef fólk vill eignast heila eyju í Noregi er tækifærið núna. Eyjan Ulvsnesøy í hinum fallega firði Sørfjorden nálægt Bergen er til sölu og kostar rúmlega 3,2 milljónir bandaríkjadala eða um 450 milljónir íslenskra króna. 

Á eyjunni er ein stór aðalbygging, fimm íbúðir, hlaða, vinnustofur, útihús og bátaskýli svo eitthvað sé nefnt. Búskapur hefur verið á eyjunni en Ulvsnesøy á sér langa og merkilega sögu. Árið 1881 var byggður heimavistarskóli á eyjunni fyrir óþekka drengi. Frá árinu 1982 til ársins 2019 var opið fangelsi á eyjunni. 

Það er ekki bara hægt að vera með dýrahald og rækta grænmeti á eyjunni þar sem hún er líka fullkomin til þess að njóta þess að horfa á stórfenglegt landslag fjarðarins. Einnig eru göngustígar, baðstaðir og fótboltavöllur til staðar. 

Seljendur telja mikla möguleika felast í eyjunni og er þá ekki endilega verið að horfa til fólks sem vill stunda hefðbundinn búskap. Mögulega verður eyjan sumardvalarstaður fólks sem á mikla peninga í framtíðinni eða jafnvel notalegt hótel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert