Sofðu í svítunni sem Díana prinsessa svaf í

Díana prinsessa dvaldi í svítunni árið 1996.
Díana prinsessa dvaldi í svítunni árið 1996. IAN WALDIE

Drake-hótelið í Chicago í Bandaríkjunum hefur sett saman sérstakan Díönu prinsessu-pakka sem felur meðal annars í sér dvöl í svítunni sem Díana prinsessa dvaldi í þegar hún heimsótti hótelið. Pakkinn var settur saman í tilefni 4. seríu The Crown sem kom á Netflix í gær.

Gestir hótelsins fá að upplifa hótelið nákvæmlega eins og það var þegar Díana heimsótti það árið 1996. Svítan sem um ræðir er forsetasvítan á hótelinu en hún fékk nafnið Díönu prinessu-svítan eftir að hún dvaldi þar. 

Þeir sem kaupa Crowning a Lady-pakkann fá svítuna útbúna eins og hún var útbúin fyrir prinsessuna með öllu því sem hún bað sérstaklega um. Þar á meðal er þrekhjól og sódavatn. Hún bað einnig um vönd af gleym-mér-ei-um, myndabók um Abba og flösku af Quelques Fleurs frá Houbigant Paris, hennar uppáhaldsilmvatn. 

Þar sem pakkinn var settur saman vegna fjórðu seríu The Crown er stórt og gott sjónvarp í svítunni sem hægt er að horfa á The Crown í. 

Hin konunglega upplifun endar ekki þar. Gestir sem taka þennan pakka fara í síðdegiste á Palm Court og geta fengið uppáhaldste Díönu, rósa-pouchong. Um kvöldið er svo þriggja rétta kvöldverður með laxi, salati og kanil-biscotti-soufflé, en það er einmitt það sem Díana fékk sér þegar hún dvaldi þar. 

Pakkinn kostar litla 32 þúsund bandaríkjadali eða um 4,2 milljónir íslenskra króna.

Díönu prinsessu svítan á Drake hótelinu í Chicago.
Díönu prinsessu svítan á Drake hótelinu í Chicago. Ljósmynd/The Drake Hotel
Ljósmynd/The Drake Hotel
Ljósmynd/The Drake Hotel
mbl.is