Vilborg flutti til Parísar að lifa drauminn

Vilborg býr í París og er að læra tungumálið og …
Vilborg býr í París og er að læra tungumálið og að koma sér vel fyrir í borginni um þessar mundir.

Vilborg Víðisdóttir flutti til Parísar í sumar að upplifa langþráðan draum um að búa í fallegustu borg veraldar að hennar mati og læra tungumálið. Hún aðlagar sig ástandinu en er ánægð og þá sér í lagi eftir að fólki er nú frjálst að fara ferða sinna á ný í borginni. 

„Það er stutt síðan við Parísarbúar losnuðum úr „lockdown-i“ og það eru enn miklar takmarkanir á frelsi okkar. Ég er mjög dugleg að fara út og suður um alla borg og ég reyni eins og ég get að nýta allt sem hægt er til að njóta þess sem París hefur upp á að bjóða.“

Vilborg er mikil aðventu- og jólakona. 

„Mér finnst þessi tími æðislegur. Jólaljósin og tónlistin heilla. Skreytingarnar eru fallegar og spennan hjá börnunum áþreifanleg. Eins eru allir svo glaðir hér. Það er eitthvað skemmtilegt við það. Allt þetta prjál gleður mig.“

Vilborg hefur komið sér vel fyrir í fallegri íbúð í …
Vilborg hefur komið sér vel fyrir í fallegri íbúð í 13. hverfi Parísar borgar.

Áramótin hjá Vilborgu verða mjög róleg að þessu sinni en hún ætlar að passa upp á að vera með góðan mat og gleði í hjarta. 

„Það er ekki í boði hér núna í París að vera úti á áramótunum. Þannig að heimahúsagleði verður málið þetta árið. Á áramótunum ætla ég að horfa til baka og gleðjast yfir eigin sigrum á árinu sem er að líða. Þetta var ár mikilla og góðra breytinga hjá mér persónulega og ég ætla að halda áfram á þeirri braut á nýja árinu. Hugrökk og bjartsýn.“

Jólaskraut í anda Parísarbúa.
Jólaskraut í anda Parísarbúa.

Hvers vegna fluttir þú til Parísar á árinu?

„Það var búið vera draumur minn í mörg ár að flytja til Parísar, læra tungumálið og kynnast franskri menningu. Ég tók svo ákvörðum um að reyna að láta þann draum rætast og í sumar tókst mér það. Ég ákvað þá að flytja til Parísar og setjast hér að, þannig að hér er heimilið mitt núna. Það er dásamlegt að upplifa drauminn sinn þrátt fyrir að ástandið sé undarlegt og ég hef trú á því að það geti bara orðið betra þegar hlutirnir komast í betra horf.“

Vilborg er ennþá að komast inn í jól Parísarbúa. 

„Ég á vonandi eftir að kynnast þeirra jólahaldi á komandi árum. Ég veit að fólk kemur saman og borðar góðan mat og sumir skreyta en meira veit ég bara ekki.“

Hún segir að hvert sem litið er í París sé eitthvað fallegt að sjá.

„Mitt uppáhaldshverfi er Le Marais, þar er gaman að ganga um og þar er mikið líf. Mér finnst einnig æðislegt að sitja á bökkum Signu og njóta augnabliksins. Það fyllir mig mikilli gleði.“

Vilborg tók þessa fallegu mynd á göngu um París nýverið.
Vilborg tók þessa fallegu mynd á göngu um París nýverið.

Hvað óskarðu þér að árið 2021 beri í skauti sér?

„Ég vona að heimurinn verði betri og fyrir mig persónulega þá vona ég að góð heilsa og almenn hamingja verði það sem árið 2021 færir mér.“

Í hverju ætlarðu að vera á áramótunum og hvað ætlarðu að gera?

„Ég er mikil buxnakona. Á áramótunum er ég oftast í fallegum buxum og einhverju sparilegu við sem mjög gjarnan er glimmer- eða pallíettuskreytt. Mér finnst áramótin kalla á smá glamúr og svo eru háir hælar alveg ómissandi við.

Ef allt hefði verið eðlilegt í veröldinni hefði ég fagnað áramótunum með flugeldum og fjöri á götum Parísar. En það er ekki hægt núna þannig að ég kem til með að fagna nýja árinu yfir góðum mat, með gott vín í glasi, og stödd í minni uppáhaldsborg og læt mig hlakka til næstu áramóta hér í tjúlluðu stuði. „La vie est belle!“

Á hverju götuhorni eru fallegar blómabúðir.
Á hverju götuhorni eru fallegar blómabúðir.

Bestu hátíðisdagarnir eru þegar maður finnur fyrir þakklæti og hamingju með það sem maður hefur. Góð tónlist, góður matur, súkkulaði og góð bók er klassískt og svo er auðvitað best ef hægt er að vera með þeim sem maður elskar mest.“

Vilborg er ánægð með árið sem er að líða enda …
Vilborg er ánægð með árið sem er að líða enda var það ár breytinga og drauma sem rættust.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert