Daði er þrjóskur áhættufíkill sem elskar Ísland

Daði Erlingsson er nýorðinn faðir og nýtur þess að taka …
Daði Erlingsson er nýorðinn faðir og nýtur þess að taka litla kút með sér í ævintýri. Ljósmynd/Aðsend

Daði Erlingsson, flugvirki og bifreiðasmiður, stundar hjólasport af fullum krafti allan ársins hring. Hann leggur áherslu á þolakstur á svokölluðum endurohjólum en þá er lögð áhersla á lengri vegalengdir en í hefðbundnu mótorkrosssporti. Daði segist vera þrjóskur áhættufíkill. Hann elskar Ísland en vill gjarnan að kórónuveirufaraldurinn fari að klárast svo hann geti farið að vinna við flugvirkjun á ný. 

Hvernig útivist stundar þú?

„Fjallgöngur og fjallahjól og aðallega enduro-akstur, ég elska að vera úti náttúrunni og ganga á fjöll. Skemmtilegast er þó að fara á nýjar ókannaðar slóðir á hjólinu í góðum félagsskap í góðu veðri sem og slæmu veðri.“

Hvað færð þú út úr því að fljúga um á hjóli úti í náttúrunni?

„Fyrst og fremst frelsið og að geta kúplað sig úr öllu amstri dagsins og náð sér í smá adrenalín og ferskt loft.“

Góður félagsskapur er lykilatriði.
Góður félagsskapur er lykilatriði. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi til þess að stunda hjólasport?

„Já ég á alveg nokkra staði sem standa upp úr en finnst samt félagsskapurinn skipta meira máli. Það sem gerir góðan hjóladag eru hjólafélagarnir.“

Ertu í hjólasporti á veturna líka eða eru önnur tryllitæki sem þú ert á þá?

„Ég stunda hjólasportið allt árið með því að setja nagladekk undir hjólið og hjóla um á ísilögðum vötnum. Snjóhjólið fer nánast allt í snjó en það er mótorkrosshjól með belti að aftan og skíðum að framan. Það er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert á hjóli á veturna og býður upp á endalausa möguleika og frelsi á fjöllum.“

Daði á snjóhjóli.
Daði á snjóhjóli. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsstaðurinn þinn í heiminum?

„Ísland! Það er ekki til betri staður í heiminum. Þó svo að veðrið sé ekki alltaf það besta þá er það fallegasta land í heimi og forréttindi að fá að alast upp hér og njóta náttúrunnar.“

Ísakstur er skemmtielgur á veturna.
Ísakstur er skemmtielgur á veturna. Ljósmynd/Aðsend

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Það er klárlega hringferðin sem ég fór seinasta sumar um Ísland með konunni minni Christel, stráknum okkar Maroni Myrkva sem var átta mánaða þá og hundinum okkar Rambó. Við fórum á sendibílnum mínum sem ég innréttaði og kom barnarúminu fyrir þannig að við gátum gist þar sem okkur datt í hug. Svo var keyrt af stað næsta morgun og allir fallegu staðirnir á landinu skoðaðir en við fengum sól nánast alla daga á ferðalaginu.“

Daði innréttaði sendibíl og ferðaðist á honum í sumar með …
Daði innréttaði sendibíl og ferðaðist á honum í sumar með fjölskyldunni. Ljósmynd/Aðsend

Hvert dreymir þig um að fara þegar þú ert kominn með bóluefni?

„Það er komin smá ferðaþorsti í okkur fjölskylduna eftir þetta ár og við höfum vanalega farið til útlanda að minnsta kosti þrisvar á ári og bjuggum til dæmis á Tenerife í ár. En ég myndi bara segja bara eitthvað með stráknum okkar Maroni Myrkva. Ég hlakka til að sýna honum heiminn og það skiptir ekki máli hvert, þó svo að hitinn heilli alltaf,“ segir Daði að lokum og hlær.

Fjölskyldan fékk gott veður í sumar.
Fjölskyldan fékk gott veður í sumar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is