6,4 milljóna sekt fyrir að slá flugþjón

Karlmaðurinn þarf að greiða 6,4 milljónir króna í skaðabætur til …
Karlmaðurinn þarf að greiða 6,4 milljónir króna í skaðabætur til United Airlines. AFP

Karlmanni á sextugsaldri verður gert að greiða flugfélaginu United Airlines 6,4 milljónir króna í skaðabætur fyrir að slá flugþjón um borð í vél þeirra. Karlmaðurinn sló til flugþjónsins eftir að hún neitaði að afgreiða hann um áfengan drykk um borð. 

Atvikið átti sér stað í flugi á milli Los Angeles í Bandaríkjunum og Tókýó í Japan í febrúar á síðasta ári. Vélinni var nauðlent í Alaska vegna óláta í manninum.

Stuttu eftir flugtak stóð maðurinn upp og lét höggin dynja á salernishurð í vélinni. Þegar meðlimur áhafnarinnar benti honum á að reyna önnur salerni í vélinni brást hann ókvæða við og ýtti í flugþjóninn. 

Hann sneri aftur í sæti sitt og sofnaði. Þegar hann vaknaði vildi hann panta áfengan drykk. Flugþjónninn neitaði honum um það og þá hóf hann að blóta henni í sand og ösku. Því næst sló hann hana og reyndi að keyra hana niður í gólfið. Hann hótaði einnig öðru starfsliði og sagðist meðal annars ætla að drepa einn flugþjónanna. 

Flugstjórinn nauðlenti í Alaska í kjölfarið þar sem lögregla tók á móti vélinni og handtók hann. Maðurinn var ekki dæmdur í fangelsi, meðal annars vegna þess að hann er sykursjúkur og setur það hann í áhættuhóp fyrir kórónuveirunni.

Hann fékk eins árs skilorðsbundinn dóm og má ekki fljúga með United Airlines næsta árið. 

mbl.is