Ílengdist í New York í 16 ár

Ljósmyndarinn, kvikmyndagerðarmaðurinn, auglýsingamaðurinn og heimspekingurinn Snorri Sturluson flutti út til …
Ljósmyndarinn, kvikmyndagerðarmaðurinn, auglýsingamaðurinn og heimspekingurinn Snorri Sturluson flutti út til New York árið 2001. Ljósmynd/Snorri Sturluson

Ljósmyndarinn Snorri Sturluson hélt út til náms í New York-borg í Bandaríkjunum árið 2001. Námið var níu mánuðir en að lokum endaði Snorri á að búa í borginni í sextán ár. Hann flutti heim til Íslands árið 2017 ásamt fjölskyldu sinni og starfar nú á auglýsingastofunni Pipar/TBWA. 

Nú í febrúar setti hann upp ljósmyndasýninguna American Dreams í Gallerí Porti á Laugavegi. Þar má skyggnast inn í líf íbúa borgarinnar sem aldrei sefur. Myndirnar á sýningunni sýna kannski ekki það hefðbundna sem kemur upp í hugann þegar maður hugsar um New York, enda hugmynd okkar oft lituð af kvikmyndum og bíómyndum. Ferðavefurinn ræddi við Snorra um sýninguna og lífið í New York. 

Sýningin er opin í dag og á morgun í Gallerí Porti, frá klukkan 12 til 18 báða daga. 

Ljósmyndasýning Snorra er opin út laugardag.
Ljósmyndasýning Snorra er opin út laugardag. Ljósmynd/Snorri Sturluson

Af hverju fórstu upphaflega til New York-borgar?

„Ég fór upprunalega í nám í margmiðlun, níu mánaða nám, sem lengdist í 16 ár. Mig langaði bara ekkert heim, það var smá kreppa á Íslandi þarna árið 2002, ég fór að leita mér að vinnu, fékk fljótlega vinnu og eins og Kaninn segir: „The rest is history.““

Hvað var það sem heillaði þig fyrst við borgina?

„Fólksfjöldinn, nafnleysið í stórborginni, neðanjarðarlestirnar, menningin, tónlistin, götulífið, orkan. Það er ótrúleg lífsorka í New York, það er ekki hægt að lýsa henni með orðum. Það er orka sem gefur manni lífsorku einn daginn, en sogar hana úr manni daginn eftir, lífið í New York snýst um að stíga þessa öldu, að reyna að vera alltaf í jákvæðu orkunni, að maður sé alltaf með jákvæðan orkubúskap.“

Sýningin ber titilinn American Dreams.
Sýningin ber titilinn American Dreams. Ljósmynd/Snorri Sturluson

Hvernig var að upplifa árásina á tvíburaturnana 11. september árið 2001 þarna úti?

„Það var mjög tilfinningaþrungin og erfið reynsla. Að sama skapi var hún mannbætandi, hún kenndi mér samúð, kærleik, samkennd, tillitssemi og umburðarlyndi.“

Við hvað starfaðir þú þegar þú bjóst í New York?

„Ég starfaði við auglýsingagerð. Ég starfaði á ansi mörgum sviðum auglýsingagerðar, allt frá því að vera listrænn stjórnandi í auglýsingadeild hjá tískufyrirtæki yfir í að leikstýra auglýsingum fyrir alþjóðleg vörumerki með heimsfrægum leikurum og íþróttafólki.“

Ljósmynd/Snorri Sturluson

Hvernig var daglegt líf þitt og hvernig endurspeglast það í ljósmyndasýningunni?

„Lengst af vann ég hjá sjálfum mér þannig að mín daglega rútína var undir mér komin. Ég gat þannig forðast að ferðast um borgina á háannatímanum og myndirnar mínar endurspegla það kannski. Ég er mikið á ferðinni þegar færra fólk er á ferðinni, og jafnvel á fáförnum slóðum í borginni. Ég vann mikið einn og var mikið á ferðinni vegna vinnu og það er hugsanlegt að það endurspeglist í myndunum. Þessar myndir eru á margan hátt hugleiðsla mín, að þvælast um stórborgina, oft einn, með myndavél.“

Ljósmynd/Snorri Sturluson

Þú hefur sagt að sýningin hafi komið mörgum Íslendingum (eða ekki-New York-búum) á óvart, hvernig þá? Sér maður andrúmsloftið í borginni breytast í gegnum árin?

„Þetta er ekki sú New York sem kannski flestir ímynda sér þegar New York ber á góma. Það er ekki glamúr eða fólksfjöldi, þetta eru ekki staðir sem fólk þekkir og þær myndir sem eru frá stöðum sem fólk þekkir eru kannski að fókusera á aðra hluti en fólk er vant að fókusera á. Sýningin er í sjálfu sér ekki að fást við tíma heldur meira svona eins og sneið af lífi New York-búa.“

Ljósmynd/Snorri Sturluson

Af hverju ákváðuð þið eiginkona þín að flytja aftur heim og hvernig hefur verið að koma heim úr stórborg sem New York til smáborgar eins og Reykjavíkur? Saknarðu einhvers frá New York?

„Við vildum breyta til, komast úr stórborginni í snertingu við náttúru og heilbrigðara líferni, og það eru fáir staðir betur til þess fallnir en Ísland. Reykjavík er auðvitað stórasta smáborg í heimi og okkur líður mjög vel hér. Ég sakna matarins í New York, og vina og kunningja, og kannski mest þess að geta týnst í mannfjöldanum, en á Íslandi týnist maður bara á fjöllum í staðinn.“

Ljósmynd/Snorri Sturluson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert