Strandhús DiCaprio með Titanic-þema

Leonardo DiCaprio.
Leonardo DiCaprio. AFP

Á meðan margir Íslendingar eiga sumarbústað í Grímsnesinu eiga stórstjörnur í Hollywood sumarleyfishús við ströndina í Malibu. Hönnuðurinn Megan Weaver fékk hús Leonardo DiCaprio við ströndina lánað seint á tíunda áratugnum. Í nýlegum hlaðvarpsþætti greindi hún frá því að það hefði verið Titanic-þema í húsinu. 

Kvikmyndin Titanic kom DiCaprio á kortið árið 1997 en hann fór með annað aðalhlutverkið í myndinni. 

„Þegar ég var að vinna fyrir Leo leyfði mamma hans mér að gista í strandhúsinu í Malibu yfir helgi, mamma hans var svo góð. Ég var að hitta einhvern sem bjó í Kanada, við vorum í fjarsambandi og hann kom í heimsókn svo þau leyfðu mér að fá strandhúsið,“ sagði Weaver þegar hún útskýrði af hverju hún hefði fengið húsið lánað. 

Það kom henni á óvart þegar hún kom í hús DiCaprio að allt var með Titanic-þema. „Titanic-handklæði, Titanic-plaggöt, allt í Titanic,“ sagði Weaver. 

Hönnuðurinn efast þó um að Hollywood-leikarinn hafi innréttað strandhúsið. Hún er ekki viss um að fólk myndi innrétta svona heima hjá sér í dag en þetta var fyrir rúmlega 20 árum og tískan önnur. 

„Þetta var líka ekki aðalhúsið hans, hann fór sjaldan þannig að ég held að mamma hans hafi örugglega gert þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert