Loka fyrir umferð skemmtiferðaskipa

Skemmtiferðaskip mega ekki lengur sigla upp síki Feneyja heldur þurfa …
Skemmtiferðaskip mega ekki lengur sigla upp síki Feneyja heldur þurfa þau að leggja við höfn í iðnaðarhluta borgarinnar. AFP

Ítölsk stjórnvöld hafa samþykkt að meina skemmtiferðaskipum aðgang að höfninni sem liggur við miðborg Feneyja. Menningarmálaráðherra Ítalíu, Dario Franceschini, sagði í síðustu viku að tillagan hefði komið frá Unesco. 

Stór skip munu nú þurfa að leggja við höfn í iðnaðarhluta borgarinnar þar til langtímalausn verður fundin. 

Helsta gagnrýni á ferð stórra skipa um hafnir Feneyja er að mikil mengun fylgi þeim. 

Stór skip, bæði skemmtiferðaskip og gámaskip, munu því ekki lengur sigla um Giudecca-síki sem liggur að hinu fornfræga Markúsartorgi. 

Franceschini fagnar ákvörðuninni og segir hana vera löngu tímabæra. Ríkisstjórnin muni nú kalla eftir hugmyndum um hvernig megi taka á móti stórum skemmtiferðaskipum í Feneyjum. 

Í gildi er bann við komu skemmtiferðaskipa í Feneyjum vegna kórónuveirunnar og í fjarvist þeirra hafa síkin í Feneyjum orðið tærari og hreinni. 

Hart hefur verið barist fyrir banni skemmtiferðaskipa í þröngum síkjum Feneyja síðan árið 2019 þegar skip rakst á höfnina með þeim afleiðingum að fimm særðust.

BBC

mbl.is