Ætlar að ná alslemmu landkönnuða

Sheikha Asma Al Thani ætlar að ná tindi Everest í maí á þessu ári. Hún stefnir að því að verða fyrsta konan frá Mið-Austurlöndum til að ná svokallaðri alslemmu landkönnuða (e. explorers grand slam) sem felur í sér að klífa tinda hæstu fjalla í öllum heimsálfum og fara á bæði norður- og suðurpólinn. 

Sheikha Asma kom til Katmandú í Nepal í síðustu viku þar sem hún býr sig undir förina upp í grunnbúðir Everest. Hún gerir ráð fyrir að ná tindinum um miðjan maí. Ef það tekst verður hún fyrsta konan frá Katar til að ná hæsta tindi heims.

Sheikhu Asam dreymdi fyrst um að klífa fjöll þegar hún var 14 ára gömul á skíðum. Hún hóf ferðalag sitt sem fjallgöngukona árið 2014 þegar hún náði tindi Kilimanjaro í Afríku. Síðan þá hefur hún einnig náð tindinum Aconcagua í Argentínu og skíðað á norðurpólnum. 

Hún segist hafa fundið fyrir mikilli kvenfyrirlitningu á ferli sínum og að fólk hafi alltaf efast um að hún gæti borið allan búnaðinn, hvað þá náð tindinum. Auk þess að ná alslemmunni er það markmið hennar að fleiri konur stundi fjallgöngur.

Nepal er nú opið en fjallagarpar verða að vera í sóttkví uns þeir greinast neikvæðir fyrir kórónuveirunni.

Gefið hefur verið út 151 leyfi til að klífa ýmsa tinda í Himalajafjöllunum þetta vorið, þar á meðal 72 á Everest. Stjórnvöld gera ráð fyrir að um 300 erlendir göngugarpar muni reyna að ná tindi Everest í vor en þar á meðal eru tveir íslenskir göngugarpar, Heim­ir Fann­ar Hall­gríms­son og Sig­urður Bjarni Sveins­son.

mbl.is