„Engin grein innan ferðaþjónustu vex jafnhratt“

Ljósmynd/Lilja Guðmundsdóttir

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Björn Teitsson, er fæddur í Svíþjóð en lít á mig sem Reykvíking.

Hvernig verður fyrsta utanlandsferðin þín núna eftir kófið?

Mig langar mest að fara aftur til Weimar í Þýskalandi, en þar bjó ég 2018-2020, til að verja M.Sc.-verkefnið mitt við Bauhaus-háskólann.

Hvað, og eða hvar, ætlar þú að borða fyrsta kvöldið?

Ef ég verð í Weimar er kjörið að borða á Damas, sem er sýrlenskur veitingastaður eins og nafnið gefur til kynna, eða þá skella mér í pítsu á Versillia. Mest myndi ég samt vilja borða heimatilbúna aspas-veislu svona rétt á meðan Spargelzeit stendur yfir, með bökuðu grænmeti og hollandaise-sóu. Það er besti matur heims.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

Það er pottþétt hjólaferðalag sem við Una, sambýliskona mín, fórum með foreldrum mínum þvert í gegnum Austurríki, meðfram Dóná. Leiðin var frá Passau sem er í Bæjaralandi til Vínarborgar, er um 350 kílómetrar og hjólaðir rétt um 50 kílómetrar á dag. Þetta var fullkomið ferðalag þar sem við vorum á yndislegum og krúttlegum hótelum eða B&B, við vöknuðum í morgunmat og lögðum yfirleitt stað um níu og hver dagleið svona 3-4 tímar með áningu á leiðinni.

Ljósmynd/Lilja Guðmundsdóttir
Ljósmynd/Björn Teitsson

Svo voru foreldrarnir frábærir ferðafélagar, hraust og skemmtileg og þakklát fyrir sína heilsu. En svo leitar lífið alltaf í jafnvægi. Þannig gætirðu sagt að þau vinni fyrir heilsunni með því að vera virk, ganga og hjóla mikið. En að ganga og hjóla er auðvitað engin vinna, frekar er það skemmtun og dægradvöl. Ég er mjög hreykinn af þeim að sjá þau njóta þess að ferðast á þennan hátt, bæði á Íslandi sem og erlendis. Þannig fá þau sem mest úr hverju ferðalagi og viðhalda góðri heilsu. Svo er ekkert verra að pabbi er mikill vínsérfræðingur og hann á það til að greiða veitingahúsreikninginn. Hver getur kvartað yfir því? Hraðinn er akkúrat mátulegur til að meðtaka alla náttúrufegurðina og ég hreinlega skil ekki af hverju Íslendingar hafa ekki lagt í innviðauppbyggingu fyrir hjólreiðaferðalög, sérstaklega þar sem er mikið flatlendi eins og á Suðurlandi. Það er engin grein innan ferðamennsku sem vex jafn hratt og hjólaferðamennska og er það öllu fólki afar skiljanlegt sem hefur á annað borð prófað.

Teitur í flottur í franskri útivistarskyrtu
Teitur í flottur í franskri útivistarskyrtu Ljósmynd/Björn Teitsson
Ljósmynd/Lilja Guðmundsdóttir
Náttúran í glasi
Náttúran í glasi Ljósmynd/Björn Teitsson

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

Helsinki, þetta var mjög auðvelt svar.

Besti veitingastaðurinn í borginni?

Úff, svo margir. Ætli ég nefni ekki Wino, vínbar og veitingastað í Kallio-hverfinu. Þar er árstíðabundin matreiðsla og yndislegt vín. Helsinki er svo fjölbreytt og skemmtileg og er frábær borg fyrir sælkera. Finnar eru líka svo svalir að þeir þurfa ekki einu sinni að flexa.

Hvar er best að versla í borginni?

Í Helsinki eru verslunargötur og frábær markaðshús eða „kauppahalli“ í bænum. Kampii er líka týpísk verslunarmiðstöð sem er ágæt sem slík. Í Töölö-hverfinu er mikið um litlar og fallegar verslanir með sérvöru, hönnun og list.

Besti maturinn sem þú hefur fengið á ferðalagi?

Við Una borðuðum einu sinni humar við höfnina í Dinard, sem er strandbær rétt á mörkum Bretagne og Normandí, vinsæll áfangastaður Parísarbúa og uppáhaldsbær Alfreds Hitchcocks. Það var æðislegt kvöld.

Eru einhver ferðalög fyrirhuguð í sumar?

Nei, ætli það. Við vorum að fá hvolp inn á heimilið og hann sýgur frá okkur allan okkar tíma eins og stendur.

Ljósmynd/Þórhildur Bjartmarz
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert