Þriggja vikna ævintýri lokið

Seiglurnar komu til Reykjavíkurhafnar í gær.
Seiglurnar komu til Reykjavíkurhafnar í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Seiglur kvöddu í höfninni í Vestmannaeyjum og slógust í för með glaðbeittum Goslokahátíðargestum með Herjólfi heim á leið. Á fámennari farartækjum mætti þeim síðasti Seigluhópur ferðarinnar. Enn á ný hópur kraftakvenna komnar til að sigla með okkur síðasta spölinn,“ skrifa Seiglurnar, hóp­ur kvenna sem sigl­ir um­hverf­is Ísland á seglskútu í nýj­um pistli: 

„Við gæddum okkur á góðgæti á veitingastaðnum Gott og stilltum saman strengi, tilbúnar til að leggja af stað í síðasta sinn þetta sumar með næsta stopp í Reykjavík.

Brottför bar brátt að. Við leystum landfestar í flýti til að forða okkur úr höfninni áður en skemmtiferðaskip kæmi þar inn og innan skamms vorum við haldnar út fallegu innsiglinguna á ný. Með Vestmannaeyjar í bak hífðum við upp framseglið og við gátum siglt svolítið. Þræddum eyjarnar fögru og dáðumst að Surtsey og Þrídröngum.

Vindáttin var okkur ekki alveg hagstæð, aðeins farin að feykja okkur suður af leið. Og eftir að ástvinir í landi voru farnir að hafa áhyggjur af því að við ætluðum að taka stefnuna eitthvert allt annað en heim ræstum við vélina og tókum stefnuna á Reykjanestá.

Skyggnið var ekki með besta móti. Vonir höfðu verið bundnar við að sjá eldgosið frá hafi. En útsýnið var bundið við bátinn og við dvöldum því í núvitundinni og dáðumst að nærumhverfi okkar á haffletinum.

Það kom því flatt upp á okkur þegar við sáum sérkennilegan reka bærast í öldunum. Þegar nær dró sáum við að þetta var helíumblaðra! Barbie-blaðra á ballarhafi. Skipstjórinn Sigga var ekki lengi að grípa krók og veiða dömuna um borð. Þarna fékkst ákveðið svar við því hvað verður um gasblöðrurnar sem hverfa til himins á hátíðarhöldum 17. júní. Með óbragð í munni björguðum við þessari ósjálfbjarga Barbie um borð.

Eins og til að undirstrika hversu slæmt það er að óþarfa plastsdrasl endi með þessum hætti í hafinu leið ekki langur tími áður en við sáum eðlilegri, en samt óvænta, hreyfingu á haffletinum. Há og svört spjót stungust upp úr sjónum. Hópur háhyrninga synti framhjá okkur og virtist ekki kippa sér upp við bátinn. Tvö stór karldýr með háa ugga, nokkrar kýr og kálfar syntu sína leið framhjá bátnum og fylltu okkur lotningu yfir undrum hafsins. Nafnið háhyrningur varð líka svo augljóst og skiljanlegt því stærstu uggarnir eru mjög háir!

Áfram héldum við okkar leið, ljósið í Reykjanesvita lýsti í gegnum þokumistur en Reykjanestá og Eldey létu ekki sjá sig. Smátt og smátt sveigðum við fyrir Reykjanesið og skiptumst á að vera á vakt úti eða lúra í koju. Skútan leið framhjá Höfnum og Sandgerði og á tímabili sigldum við í stefnuna 0°. Þegar við fórum framhjá Garðskagavita létti til og skemmtiferðaskipið sem við mættum í Vestmannaeyjum birtist út úr þokunni, tók fram úr okkur og stefndi í Hafnarfjörð. Aðeins meiri fart á því en okkur.

Seiglurnar sigldu í kringum landið.
Seiglurnar sigldu í kringum landið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við fengum loksins góðan vind og nú fengu öll segl að svífa en með þessu móti yrðum við þó allt of fljótar í Reykjavíkurhöfn en þar beið okkar dagskrá kl. 14:00. Við tókum því nokkra hringi í Hafnarfjarðarhöfn, heimahöfn Töru okkar og pabbi hennar var fljótur að sigla á móti okkur og heilsa upp á Seiglurnar. Samstarfsfólk og nemendur Töru úr siglingaklúbbnum Þyt fögnuðu líka sinni Seiglu og voru greinilega farin að sakna hennar. En nú skyldi siglt heim. Við tókum því stefnuna fyrir Seltjarnarnes og loks blasti fjallið Esja við áhöfninni á Esju. Það var stórkostlegt að líða aftur um sundin blá og eyjarnar fögru á Kollafirði undir fullum seglum og njóta síðustu klukkutímanna af hringsiglingunni okkar. Við vorum óþreyjufullar að komast heim og faðma ástvini en tilfinningarnar sem fylgdu því að komið var að leiðarlokum voru líka miklar.

Magni, nýi dráttarbátur Faxaflóahafna, sigldi á móti okkur og um borð voru margar af þeim Seiglum sem ferðuðust með okkur hluta leiðarinnar. Magni sprautaði vatni okkur til heiðurs og mikilfenglegri gosbrunnur hefur varla sést í Reykjavíkurborg. Fleiri bátar fögnuðu okkur með skipsflautum og við sáum fólk standa og veifa við Sæbraut og hjá innsiglingarvitunum í Reykjavíkurhöfn. Uppi á Þúfu, listaverki Ólafar Nordal, stóð stór hópur af fólki og harmonikkutónar ómuðu til að toppa heimkomuna. Ef tilfinningarnar voru á tæpasta vaði úti á sundunum voru þær nú alveg búnar að taka völdin hjá Seiglunum. Esja lagði að Norðurbakka kl. 14:00 upp á mínútu og þegar búið var að binda bátinn var kominn tími til að faðma og kyssa okkar fólk.

Fyrir hönd okkar góðu bakhjarla tóku Gréta María Grétarsdóttir frá Brimi hf., Inga Rut Hjaltadóttir frá Faxaflóahöfnum og Hildur Ingvarsdóttir frá Tækniskólanum svo á móti okkur í húsnæði Brims hf. en þær sigldu líka allar með okkur hluta leiðarinnar og tilheyra því okkur Seiglunum.

Hamingjusamar, stoltar og kannski pínu þreyttar Seiglurnar þakka kærlega fyrir sig. Við höfum lært svo mikið á þessum rúmu þremur vikum, séð svo margt, fræðst, þegið, hlegið og fallið í stafi yfir undrum hafs og lands. Þetta hefði aldrei tekist nema með góðum stuðningi, styrk, áhuga og tiltrú svo margra á verkefninu og á okkur! Takk fyrir að fylgjast með!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert