Fór beint að skoða tilboð í snjókomunni í september

Berglind og fjölskylda í Singapore. Hún hugsaði um sólina þegar …
Berglind og fjölskylda í Singapore. Hún hugsaði um sólina þegar byrjaði að snjóa í september.

Berglind Hreiðarsdóttir, matar- og ævintýrabloggari og matreiðslubókahöfundur, veitt fátt skemmtilegra en að ferðast og upplifa áhugaverða menningu. Mataráhuginn fer aldrei í frí en Berglind er þó ekki endilega að eltast við dýrustu staðina þegar hún fer utan. 

„Ferðalög, gönguferðir og ævintýri fá mig til að leggja allt annað til hliðar meðan á þeim stendur, sem mér finnst gríðarlega mikilvægt inn á milli í amstri dagsins. Það hafa allir gott af því að detta út úr rútínunni sinni reglulega og einbeita sér aðeins að því að hafa gaman og skoða eitthvað nýtt, vera úti í náttúrunni, kynnast mismunandi menningu og þar fram eftir götunum,“ segir Berglind þegar hún er spurð út í hvað ferðalög gefa henni.

Berglind lýsir sér sem hálfgerðum landkönnuði og finnst gott að hafa plan, sama hversu ómerkilegt það er. Henni finnst gott að leita upplýsinga á Google þegar hún heimsækir nýja áfangastaði hvort sem hún er á leiðinni til útlanda eða í ferðalag innanlands. „Auðvitað er líka mikilvægt að slaka stundum á og gera ekki neitt. Ég reyni það alveg inn á milli en ég er ekki sérstaklega góð í því. Ég hugsa því að mín slökun felist í að upplifa eitthvað nýtt og gleyma þannig stund og stað.“

Ferðin til Asíu var mikið ævintýri.
Ferðin til Asíu var mikið ævintýri.

Asíureisan eftirminnileg

Berglind og fjölskylda fóru í ævintýrareisu til Asíu yfir jól og áramót 2018 til 2019 með vinafólki. Hún segir ferðina hafa verið sérstaklega eftirminnilega. „Við heimsóttum Singapúr og ýmsa staði á Taílandi og gerðum ótrúlega margt framandi og skemmtilegt. Við vorum strax staðráðin í að fara aftur í slíka reisu og heimsækja fleiri áfangastaði á framandi slóðum. Kórónuveiran hefur síðan haft mikil áhrif á ferðaplön fjölskyldunnar og við höfum ekki farið öll saman utan síðan þá,“ segir Berglind. 

Vinafólk Berglindar var með í för í ævintýraferðinni.
Vinafólk Berglindar var með í för í ævintýraferðinni.
Berglind gekk Laugaveginn með eiginmanni sínum í sumar.
Berglind gekk Laugaveginn með eiginmanni sínum í sumar.

„Reyndar gengum við hjónin líka Laugaveginn í sumar og það var ákveðið afrek í okkar bókum sem við höfum stefnt að lengi og var gaman að klára. Við eigum pottþétt eftir að fara aftur í slíka göngu. Við reyndum einnig við Hvannadalshnúk í maí en veðrið snerist okkur í óhag í 1.700 metra hæð svo við urðum að snúa til baka. Það var frekar svekkjandi en við mætum aftur til leiks á næsta ári og vonum að veðurguðirnir verði með okkur í liði þá.“

Berglind á leiðinni á Hvannadalshnjúk.
Berglind á leiðinni á Hvannadalshnjúk.
Berglind komst næstum því á topp Hvannadalshnjúks í vor.
Berglind komst næstum því á topp Hvannadalshnjúks í vor.

Maturinn skiptir máli

„Fyrir mér snúast ferðalög og frí jafn mikið um að borða góðan mat og hafa það huggulegt um leið og maður skoðar áhugaverða staði. Ég er ekki að tala um að fara eitthvað fínt út að borða alla daga heldur að vera aðeins búin að kanna hvar áhugaverða matarupplifun er að finna og heimsækja slíka staði. Ég elska síðan bara að fá mér McDonalds og eitthvert drasl þess á milli,“ segir Berglind og hlær. 

Berglind fór til London í lok sumars með dóttur sinni.
Berglind fór til London í lok sumars með dóttur sinni.

„Ég hugsa að besti maturinn sem ég hef fengið á ferðalagi hafi verið á veitingastaðnum Amandus í Vilníus í Litháen. Mágur minn hafði pantað borð þarna fyrir okkur og var upplifunin einstök. Þarna er aðeins hægt að bóka borð á ákveðnum dögum vikunnar klukkan sjö. Það þarf að bóka með mjög góðum fyrirvara og allir gestir fá sama matseðil það kvöldið.“

Versti matur á ferðalagi?

„Ó guð, ég veit ekki. Við vorum í London um daginn og vorum að rölta í Kínahverfinu um kvöldmatarleytið. Við ákváðum að við yrðum að fá okkur eitthvað kínverskt það kvöldið, settumst inn á stað og pöntuðum steiktar núðlur með kjúklingi og fleira góðgæti. Núðlurnar voru síðan alveg hræðilegar með brunabragði. Í Kínahverfinu af öllum stöðum, þarna hefðum við sannarlega þurft að vera búnar að gúgla betur meðmæli þar sem það eru greinilega ekki allir kínverskir staðir í Kínahverfinu góðir.“

Það er ekki bara góðar núðlur í Kínahverfinu.
Það er ekki bara góðar núðlur í Kínahverfinu.

Dreymir um að ferðast um Norður-Ameríku

Hvert dreymir þig um að fara? 

„Mig dreymir um að fara svo á svo marga staði að það er erfitt að velja. Ég elska framandi staði og langar að skoða Asíu betur, Ástralíu og fleiri staði. Ég hugsa að ég leyfi kórónuveirufaraldrinum að ná sér betur á strik áður en slík ferðalög verða fyrir valinu. Evrópa heillar einnig og mig hefur alltaf langað til Ítalíu, keyra um í Ölpunum, fara á vínekru í Toskona og fleira spennandi. Ég bjó einnig í Seattle í nokkur ár og elska að ferðast um Washingtonríki og nærliggjandi ríki. Það væri draumur að vera þar einn daginn og keyra upp eftir til Kanada, alla leið í Banff-þjóðgarðinn í gegnum fjallgarðinn alveg frá Seattle.“

Berglind segir allar árstíðir hafa sinn sjarma, sumar, vetur, vor og haust. „Það er gaman að sjá áhugaverða áfangastaði á mismunandi árstíðum, bæði hér innanlands sem og erlendis. Sólin og hitinn heilla mig auðvitað svolítið yfir vetrartímann svo það er freistandi að bóka slíkar ferðir en skíði og borgarferðir í dúnúlpu eru líka kósí.“

„Ég ætla alveg að viðurkenna að ég fór að skoða heimasíður ferðaskrifstofanna þegar það byrjaði að snjóa hérlendis í september í leit að hlýjum áfangastöðum. Mig dauðlangar í smá sól með manninum mínum núna í október eða nóvember og síðan erum við líka að reyna að finna skíðaferð á nýju ári með vinafólki okkar. Yngri dætur mínar hafa síðan ekki ferðast lengi og ég verið rög við að bóka ferð fyrr en þær eru bólusettar eins og við hin eldri í fjölskyldunni. Nú eru hins vegar allir nema fjögurra ára dúllan mín orðnir fullbólusettir svo það væri gaman að bóka einhver skemmtilegheit með fjölskyldunni í náinni framtíð. Ætli maður verði ekki bara að fara að úllen-dúllen-doffa og reyna að vera skynsamur þó svo ferðaþráin sé farin að kalla ansi hátt.“

mbl.is