Ísland nýtur sín í nýrri Netflix-mynd Baltasars

Kvikmyndin Against the Ice kemur út á Netflix í mars.
Kvikmyndin Against the Ice kemur út á Netflix í mars. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Ísland og Íslendingar skipa stóran sess í myndinni Against the Ice. Fyrsta stiklan kom út í gær en það er Baltasar Kormákur og RVK Studios sem framleiddu myndina fyrir Netflix í samstarfi við danska leikarann Nikolaj Coster-Waldau. 

Coster-Waldau fer með aðalhlutverkið í myndinni. Sagan er byggð á sannsögulegum atburðum, ótrúlegri þrekraun tveggja pólfara sem urðu innlyksa á Grænlandi um langt skeið snemma á 20.öldinni.

„Við tókum upp stærstan hluta myndarinnar á tökustað, fyrst á Íslandi og svo á Grænlandi,“ sagði Coster-Waldau í viðtali á vef Entertainment Weekly og lagði áherslu á hversu kalt var í tökum. Danska stórstjarnan sást töluvert á landinu við vinnslu myndarinnar. Mbl.is greindi meðal annars frá því þegar hann fór út að borða með Baltasar á Matbar á Hverfisgötu í ágúst í fyrra. 

Það er ekki bara Ísland sem fær að njóta sín heldur líka íslenskir leikarar þar sem Heiða Rún Sigurðardóttir eða Heida Reed og Gísli Örn Garðarson fara með hlutverk. Einnig fara Joe Cole úr Peaky Blinders og Charles Dance úr Game of Thrones með hlutverk í myndinni. 

Hér fyrir neðan má sjá stikluna úr Against the Ice sem kemur á Netflix þann 2. mars. 

mbl.is