Lögðu mikið á sig fyrir rómantískt frí

Taylor Swift fór í rómantískt frí.
Taylor Swift fór í rómantískt frí. AFP

Bandaríska tónlistarkonan Taylor Swift og breski leikarinn Joe Alwyn lögðu mikið á sig til þess að fara í stutt frí til Englands á dögunum. Parið fór alla leið frá Nashville í Bandaríkjunum til smábæjarins St. Ives í Cornwall á Englandi. 

Parið, sem hefur verið saman í sex ár, flaug með einkaþotu til London í síðustu viku áður en það hélt út á land að því er fram kemur á vef The Sun. Staðarvalið þykir nokkuð sérstakt enda hefur parið efni á að fara hvert sem er. 

Vinir parsins telja að þau hafi farið alla þessa leið vegna þess að þriggja daga ferðin hafi verið „afar sérstök“. „Taylor er ofurstjarna og augljóslega mjög rík svo hún getur ferðast hvert sem hana langar. En að fara svona langt bara í nokkra daga þýddi margt. Það er eins og sambandið sé að verða alvarlegra og fólk telur að trúlofun geti verið í spilunum. Það gæti útskýrt svona langt ferðalag á svona sérstakan stað,“ sagði heimildarmaður en bætti við að tónlistarkonan talaði ekki af sér. Parið er sagt mjög hamingjusamt og hefur samveran í heimsfaraldrinum bara styrkt sambandið. 

St. Ives er í Cornwall-sýslu á Suðvestur-Englandi. Áður fyrr var bærinn þekktur fyrir fiskveiðar en er núna vinsæll ferðamannastaður. Hann hefur oft verið valinn besti strandbærinn á Englandi. Talið er að parið hafi leigt hús í bænum í stað þess að dvelja á hóteli.

Taylor Swift.
Taylor Swift. AFP
mbl.is