„Ég fer oft í helgarferðir upp í Alpana“

Nína Björk Hjaltested
Nína Björk Hjaltested Ljósmynd/Aðsend

Nína Björk Hjaltested var ekki sannfærð þegar fjölskylda hennar ákvað að flytja til Sviss þegar hún var unglingur. Hún er þakklát fyrir það í dag. „Ég get ekki annað sagt en að lífið í Sviss er æðislegt, það hefur svo mikið upp á að bjóða,“ segir Nína Björk. 

Nína Björk býr í gamla bænum í Bern. Hún starfar fyrir franska tískuvörumerkið MAJE auk þess sem hún er í fullu námi við Bern University of Applied Science í alþjóðaviðskiptum.

„Ég flutti með fjölskyldunni minni til Sviss árið 2006 af því að stjúppabbi minn ákvað að fara í nám. Ég var ekkert mjög hrifin af þessari ákvörðun hans í byrjun enda 15 ára gelgja sem elskaðu sveitalífið í Austur-Landeyjum. Ég var ekki alveg tilbúin í það að vera rifin í burtu frá vinum til að búa í Naters, litlum bæ í svissnesku Ölpunum. Í dag er ég rosalega fegin að hafa fengið þetta tækifæri að búa í Sviss,“ segir Nína um ástæðu þess að hún flutti til Sviss. 

Hvernig ferðalögum ert þú hrifin af?

„Ævintýraferðalögum þar sem ég get upplifað sem mest og prófað nýja hluti og smakkað nýjan og góðan mat. Þegar ég var yngri ferðuðumst við mest innanlands, enda kannski ekki mjög auðvelt og ódýrt að fara með fimm börn í utanlandsferð þannig við fórum í „ævintýraferðalög“. Ég man að mér þótti þetta alveg ömurlegt þegar ég var yngri, en mikið rosalega er ég fegin í dag að hafa fengið þetta tækifæri að ferðast um nánast allt Ísland og hálendið.“

Nína Björk elskar ævintýri.
Nína Björk elskar ævintýri. Ljósmynd/Aðsend

Nína Björk hefur verið í útivist síðan hún var lítil stelpa. Foreldrar hennar voru í Skátunum og vörðu þau mörgum helgum í Þórsmörk á sumrin. „Ég get ekki alveg sagt að ég hafi verið hafi verið duglegust af okkur systkinum þegar það kom að fjallgöngum þegar ég var yngri en ég var neydd til að fara með. En fannst alltaf gaman að fara í útilegur og að vera í náttúrunni.“

Fjölskyldan hélt uppteknum hætti þegar hún flutti til Sviss og segir Nína að fyrstu árin hafi þau verið mjög dugleg að fara í fjallgöngur en unglingurinn Nína Björk var ekki sannfærð. Það breyttist í kringum 25 ára aldurinn þegar Nína Björk og Stepahanie vinkona hennar byrjuðu að fara í sunnudagsfjallgöngur. 

„Þar kannski byrjaði hin sanna fjallageit í mér að lifna við. Þegar Covid skall á hafði maður meiri tíma auk þess sem að sumarið 2020 byrjaði mjög snemma, eða í mars. Þá bjó ég til langan lista af fjöllum til að skoða og ganga upp á og það besta við það var að allir kláfar voru auðvitað lokaðir þannig það var varla fólk á þessum stöðum, nema auðvitað þeir sem löbbuðu alla leiðina upp.“

Fjallgönguneistinn kviknaði þegar Nína Björk byrjaði að fara í sunnudagsfjallgöngur.
Fjallgönguneistinn kviknaði þegar Nína Björk byrjaði að fara í sunnudagsfjallgöngur. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsstað í Sviss?

„Ein af mínum uppáhaldsfjallgöngum er Augstmatthorn. Það er svo falleg ganga. Það er fullt af steingeitum á svæðinu. Þær eru friðaðar í kantónunni Bern og þess vegna eru þær ekki fælnar. Útsýnið er líka æði. Þegar maður er komin upp á toppinn getur maður gengið eftir hryggstrengnum í báðar áttir – Brienzer Rothorn sem er ekki fyrir lofthrædda, eða í áttina að Harder Kulm.“

Fjallageitin Nína Björk og önnur geit sem varð á vegi …
Fjallageitin Nína Björk og önnur geit sem varð á vegi hennar í fjallgöngu. Ljósmynd/Aðsend

Núna Björk leggur áherslu á að Sviss sé land sem fólk upplifir allar árstíðir í. Hún segir veturna og sumrin hafa sína kosti og getur ekki gert upp á milli. 

„Á veturna er nóg af snjó, þá reyni ég að fara eins mikið á snjóbretti og ég get. Svo var ég að fá splitboard í afmælisgjöf, þannig að í vetur ætla ég að reyna vera dugleg að fara í fjallaskíðagöngur.

Sumrin eru heit og bjóða líka upp á mjög margt að gera. Ég bý í gamla bænum í Bern í aðeins þriggja mínútna göngufæri að ánni Aare. Þar er hægt að synda í ánni sem er mjög skemmtilegt og óvenjulegt, eða það fannst mér allavega í byrjun. Sumarið 2020 kynntist ég stelpunni sem býr við hliðin á mér, Oliviu. Hún kynnti mig fyrir „Aree Surfe“ eða að sörfa í ánni. Maður notar „bungee teygju“ og spennir hana upp með kraftinum úr ánni og sörfar svo upp ánna.“

Nína Björk sörfar á ánni Aare.
Nína Björk sörfar á ánni Aare. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerir þú þegar þú vilt komast í burtu yfir helgi? 

„Ég fer oft í helgarferðir upp í Alpana. Ég er svo heppin að mínar bestu vinkonur hafa aðgang að sumarhúsum foreldra sinna í Zermatt, Lenk og Klosters. Þannig við erum duglegar að plana skíðaferðir og fjallgöngur saman. En svo eru auðvitað líka fullt af skemmtilegum dags fjallgöngum til að fara í frá Bern.“

Finnst þér Íslendingar vera nógu duglegir að fara til Sviss? 

„Ég held að Íslendingar séu alveg duglegir að koma hingað á veturna í skíðaferðir, sem er auðvitað æðislegt, Sviss er ein stór skíðaparadís. En það sem fólk er kannski að missa af eða gerir sér kannski ekki alveg grein fyrir er hversu góð og heit sumrin eru í Sviss. Það er alltaf nóg að gera, æðislegar fjallgöngur, fullt af ám og vötnum til að synda eða sörfa í og svo fullt af Pop-up veitingastöðum og börum sem opna út um allt. Þeir eru reyndar ekki alltaf auglýstir mjög vel, þannig maður verður bara að spyrja einhvern heimamann.“

Nína Björk segir Sviss hafa margt upp á að bjóða …
Nína Björk segir Sviss hafa margt upp á að bjóða á sumrin. Hún býr á skemmtilegum stað í Bern. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsstað í útlöndum? 

„Ég elska Ítalíu og það besta er að maður er enga stund að skreppa yfir frá Sviss. Fólkið, maturinn, menningin og landslagið er allt upp á tíu. Flórens er ein af mínum uppáhaldsborgum og hef ég verið dugleg að fara þangað að heimsækja vini. Það sem ég á alveg efir að skoða eru ítölsku alparnir sem ég á örugglega eftir að gera á næstunni.

En á Íslandi?

„Uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi er án nokkurs vafa Þórsmörk. Eins og ég minntist á áðan eyddum við svo mörgum helgum þar með fjölskyldu og frændfólki á sumrin. Fjallgöngur, brennur og söngvar og bara að geta hlaupið um frjáls og leikið sér eru á meðal minna bestu minninga. Ég reyni að heimsækja Þórsmörk eins oft og ég get þegar ég kem í heimsókn til Íslands.“

Nína Björk Hjaltesteð ferðalög sviss
Nína Björk Hjaltesteð ferðalög sviss Ljósmynd/Aðsend

Hvert dreymir þig um að fara?

„Ég á mér heita og kalda drauma. Mig dreymir um það að ferðast um Asíu þar sem ég hef aldrei farið þangað. Ég held að það sé fullt af nýju þar til að upplifa sem er örugglega mjög ólíkt því sem ég er vön. Mig dreymir líka um að fara í fjallaskíðaferð um Hornstrandir og Jökulfirði. Þetta er eitthvað sem ég er búin að vera skoða mikið með vinkonum mínum og planið er að reyna að fara á næsta ári.“

mbl.is