Lá á maganum með eyrað við ísinn

Kira Kira í Maríuhellum.
Kira Kira í Maríuhellum. Ljósmynd/Snorri Hertervig.
Tónlistarkonan Kira Kira eða Kristín Björk Kristjánsdóttir hefur verið á flakki stærstan hluta lífs síns og hefur frá mörgum sögum að segja. Henni finnst best að treysta á hið óvænta og villast inn á sjarmerandi götur og vera opin fyrir ævintýrum.

Köstuðu steinum út á ísinn

„Síðasta ferðalagið sem ég fór í var stutt en ljúft, draumkennt og eftirminnilegt í senn. Ég fór í góðum félagskap upp að Meðalfellsvatni í Kjós, fékk stærsta hláturskast lífs míns, söng og dansaði. Vatnið var frosið í gegn en við ferðafélagar mínir lékum okkur að því að einn kastaði steinum út á ísinn og hin lágu á maganum með eyrað við ísinn og hlustuðu á öll geimhljóðin sem komu þegar steinarnir lentu. Þetta voru reyndar það skemmtileg hljóð að ég tók þau upp á símann minn og mixaði inn í lag sem ég var að klára. Meðalfellsvatn og flissið í okkur er sem sagt að fara að verða heimsfrægt á safnplötu í Kaliforníu.“

 Útópísk hitabylgja

Aðspurð um hvað hafi staðið upp úr á síðasta ári nefnir hún húsakaup. „Ég keypti mér hús uppi í sveit í sumar, þannig að ég var nú mest þar að dúllast, en mér var að vísu boðið að spila í sumartónleikaröð Þjóðlagasetursins á Siglufirði svo ég brunaði þangað með Strandvörðum sálarinnar, skemmtilegum hópi tónlistarfólks í sögulegri bongóblíðu! Alþýðuhúsið fylltist af sólkysstum áheyrendum og við nutum þess í botn að spila fyrir þau. Labbitúr á bryggjunni á stuttbuxum og sólbað úti í grasi - þetta var allt svo útópískt í hitabylgjunni. Að spila tónlist, borða góðan mat og vera með góðhjarta fólki! Það er fátt betra.“

Kira Kira og hljómsveit í Tókýó.
Kira Kira og hljómsveit í Tókýó. Ljósmynd/Aðsend

Ljúfasta tónleikaferðin var í Japan

„Eftirminnilegustu ferðalögin eru nú æði mörg reyndar, vandi að velja því ég hef verið á flakki stærstan hlutann úr lífi mínu. Það er ekki fyrr en nú nýlega að ég fór að sjá meira af Íslandi - sem er reyndar þvílíkt spennandi og ég á mikið eftir þar!“

„En eftirminnilegasta ferðalagið, það fyrsta sem kemur upp í hugann er þegar ég flutti tvítug til Japan í nokkra mánuði, fór í skóla í gömlu samurai héraði og lærði japönsku á virkum dögum en tók svo lestina til Tokyo um helgar og fór á tónleika.

„Ég fór svo seinna að vinna með japönsku útgáfufyrirtæki og ferðaðist þangað nokkrum sinnum aftur með hópi af tónlistarfólki til þess að spila. En síðast þegar ég heimsótti Japan þá var það fyrir tveggja vikna tónleikarferð þar sem ég einsetti mér að annar hver dagur yrði helgaður ferð í náttúrulaug eða það sem þau kalla onsen. Ég get svarið það, þetta var ljúfasta tónleikaferð lífs míns. Ég ferðaðist létt, hafði lítið að græjum með og fékk J-Rail lestarpassa sem kom mér á milli staða, þannig að ég gat bara dreymt út um gluggann eða skrifað í dagbókina mína á ferðalögum. Svo tók alltaf einhver snillingur á móti mér á lestarstöðinni og fór með mig í hljóðprufur, gaf mér eitthvað geggjað að borða og sýndi mér það ljúfasta sem hver staður hafði upp á að bjóða - bambarnir í Nara voru svolítið mikið uppáhald.“

„Reyndar held ég líka mjög mikið upp á fyrstu tónleikaferðina mína til Finnlands þegar við fórum nokkrar vinahljómsveitir saman og spiluðum með alls konar dásamlegu finnsku tónlistarfólki á kvöldin en syntum í vötnum og höfnum og prófuðum nýja sánu á hverjum degi.“

Myndi sennilega velja Havaí

Það er margt sem heillar Kiru Kiru varðandi ferðalög. „Ég er mjög róleg akkúrat núna reyndar, þakklát fyrir húsið mitt og nýja sveita/ævintýralífið. En ef ég mætti fara hvert sem væri þá myndi ég sennilega velja Havaí, búa þar í einhverju geggjuðu húsi við sjóinn með skógarrjóður sneisafullt af ávöxtum á kantinum. Nostra við eitthvað skapandi brot úr degi og elska og leika í góðu jafnvægi við það. Reyndar hefur mig alltaf langað að koma til grísku eyjunnar Santorini og einnig Sikileyjar. Svo hefur Tæland alltaf heillað mig. Ég væri mjög til í að samskapa einhvers konar gúrm Yoga / hugleiðslutónlistar retreat þar með vel völdu fólki.

Annars á ég yndislega vinafjölskyldu í Los Angeles sem er mér mjög kær og ég sakna. Ég vildi óska þess að það væri einfaldara að fá að hitta þau oftar þessa dagana. Draumurinn væri að hitta þau öll á Havaí.“

Elskar að villast inn á sjarmerandi staði

„Sjálf elska ég að fá að gleyma mér og villast inn á sjarmerandi götur og staði, að vera með laus plön og gefa eftir inn í augnablikið. Leyfa innsæinu að teyma mig inn í furðulegt verkstæði sem selur handgerðar bjöllur eða inn í súkkulaðibakarí þar sem ég finn besta 100% hreina konfektmola lífs míns.

Þannig að það getur verið gott að vera með plön eða smá lista af hlutum sem mann langar að sjá og upplifa, en passa að taka hann ekki of hátíðlega heldur vera stilltur inn á hvað lífið vill gefa þann daginn, opin fyrir fólki sem verður á vegi og sýnir þér eitthvað sem þú hefðir fyrir þitt litla líf aldrei getað ímyndað þér áður en þú lagðir af stað! Ég er mjög þakklát fyrir öll undrin sem ég hef fengið að upplifa bara með því að vera opin fyrir kraftaverkum á ferðalögum!“

Bestu ferðafélagarnir kunna að gera það besta úr aðstæðum

„Flest mín ferðalög hafa verið með tónlistarfólki sem kann að hafa gaman og að njóta í þakklæti alls þess sem yndislegir gestgjafar okkar út um allan heim hafa boðið okkur upp á. Mér finnst langskemmtilegast að ferðast með fólki sem hefur í sér góða teymisorku og kann að gera það besta úr hvaða aðstæðum sem koma upp!

Mér dettur reyndar í hug gamall vinur minn, gítarleikarinn Pétur Hallgrímsson sem er einn fyndnasti maður sem ég þekki. Hann hefur oft verið býsna óheppinn með að fá duttlungafull sandkorn í augað rétt áður en við áttum að spila á risahátíð í Lettlandi eða fiskbein í hálsinn rétt áður en við stigum á svið í París, en alltaf tókst honum með góða skapinu og úrræðagæskunni að leysa málin og koma svo allra manna skemmtilegastur sterkur inn á eftir.

Það eru kannski að renna saman tónleikaferðir, en við vorum komin á tónleika með Blondie sem var að spila á næsta sviði við okkur í sólríkum norskum skógi, hálftíma eftir að við héldum að hann myndi þurfa að fá lepp, elsku karlinn. Og hann lét sko ekki sitt eftir liggja í miðnætur badminton keppni við þungarokkshljómsveitina Meshugga eftir giggið okkar. Sannkallaður ofur trouper!

Þannig að skemmtilegustu ferðafélagarnir eru þeir sem hreyfast um í þakklæti og góðum húmor hvað sem gerist, fólkið sem þú getur treyst á að hjálpist að með að finna farsælustu lausnirnar í öllum aðstæðum og er ekki að fara að búa til óþarfa drama þegar koma upp vandasamar stöður sem ekki er hægt að gera neitt í nema hlæja dátt og halda vel utan um hvert annað þangað til ferðalagið er komið á réttuna.“

Ekkert að flækja hlutina

Það hefur hægst um hjá Kiru Kiru hvað ferðalög varða. „Ég ferðast nú mest í Draumalandinu þessa dagana, í allri einlægni. En svo reyndar finnst mér mjög gaman að fara í ævintýrabíltúra og gista í göldróttum kofum með gefandi fólki! Þessir einföldu en ljóðrænu leiðangrar geta gert svo ótrúlega mikið fyrir sálina! Bara fylla bílinn af góðum mat, hljóðfærum og vatnslitum og bruna af stað með ljós í hjarta. Það er ekkert flókið!

Reyndar gæti ég verið að fara með stuttmyndina mína á einhverjar kvikmyndahátíðir erlendis á árinu og mögulega að kíkja í heimsókn til vinar míns sem er að kaupa sér íbúð á Sikiley. En það sem ég treysti á er hið óvænta, símtalið eða skilaboðin frá eldhuganum sem skorar á mig að stökkva til í góðan, hjartastyrkjandi bíltúr á góðan stað.“

Húsið sem Kira Kira keypti sér í sveitinni, baðað glitskýjum.
Húsið sem Kira Kira keypti sér í sveitinni, baðað glitskýjum. Ljósmynd/Aðsend
Kira Kira á tónleikum í Tókýó.
Kira Kira á tónleikum í Tókýó. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert