Grænlandsferðin var örlagarík

Vilborg Arna Gissurardóttir segir Grænlandsferðina fyrir tíu árum hafa breytt …
Vilborg Arna Gissurardóttir segir Grænlandsferðina fyrir tíu árum hafa breytt viðhorfi hennar til hamfarahlýnunar.

Pólfarinn Vilborg Arna Gissurardóttir sá hamfarabráðnun á Grænlandsjökli með eigin augum þegar hún skíðaði yfir jökullinn fyrir tíu árum. Síðan þá hefur hún lagt lóð sín á vogarskálarnar til að vekja athygli á hamfarahlýnun og vekja athygli fólks á umhverfisvernd. Í kvöld mun Vilborg ræða um loftslagsmálin í tengslum við útivist á útivistarkvöldi Loftslagsleiðtogans ásamt fleirum. 

Loftslagsleiðtoginn er hreyfiafl sem hefur það markmið að hvetja til breytinga í umhverfis- og loftslagsmálum með fræðslu, hnitmiðuðum aðgerðum og valdeflingu einstaklinga sem vilja láta til sín taka í umræðunni um loftslagsmál. Vilborg ásamt Salome Hallfreðsdóttur og Hafdísi Hönnu Ægisdóttur  standa að baki verkefninu. 

„Við ætlum að fjalla um og skoða bæði þau áhrif sem við höfum orðið vitni að á síðustu árum og eins hvernig við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til þess að sporna við neikvæðri þróun. Við kynnum einnig til leiks kolefnisreikni fyrir útivistarfólk og frumsýnum ný myndbönd sem Loftslagsleiðtoginn hefur verið að framleiða. Það verður létt yfirbragð yfir kvöldinu og kjörið tækifæri fyrir fjallafólk til þess að hittast og spjalla saman,“ segir Vilborg í viðtali við ferðavef mbl.is.

Vilborg segir að það sé mikilvægt að huga vel að neyslunni og segir að það þurfi þó ekki að þýða að maður þurfi að hætta að gera allt sem er skemmtilegt. „Heldur getur maður valið sér bæði fatnað og búnað sem er umhverfisvænni eða skipt við fyrirtæki sem hafa umhverfismál í öndvegi. Að gefa flíkum og búnaði framhaldslíf er líka klassískt. Ég fylgist svo með minni neyslu í Íslandsbankaappinu en þar má sjá á mjög myndrænan hátt áætlað kolefnisspor, það er auðvitað tilvalið að setja sér markmið í tengslum við það,“ segir Vilborg. 

Úr leiðangri Loftslagsleiðtogans á síðasta ári.
Úr leiðangri Loftslagsleiðtogans á síðasta ári.

Í kvöld mun Vilborg sýna myndir sem hún hefur tekið á ferðum sínum um heiminn þar sem breytingarnar sjást svart á hvítu. Þar á meðal eru myndir frá Grænlandsjökli en þegar hún skíðaði yfir hann fyrir tíu árum sá hún hamfara bráðnun og það var lífsreynsla sem breytti henni.  

„Ég hef alltaf verið mikill umhverfissinni og náttúrubarn en reynslan frá Grænlandi breytti sýn minni og fleiri sterkar náttúruupplifanir,“ segir Vilborg. 

Vilborg flutti til Slóveníu fyrir meira en ári síðan og nýtur lífsins þar í botn. „Slóvenía
er alveg dásamlegt land, bæði hvað varðar náttúrufegurð og vingjarnlega fólkið sem býr þar. Mér líður ákaflega vel þar og ég get ekki beðið eftir að sýna vinum og vandamönnum lífið sem við erum að byggja upp þar,“ segir Vilborg sem hefur verið dugleg að ganga og klífa fjöll á meginlandinu. Hún segir Triglav þjóðgarðinn og Kamnik alpana vera paradís fyrir útivistarfólk.

„Það eru háleit markmiðin í fjallamennskunni á þessu ári. Í vor erum við Brynhildur Ólafs að leiða hóp yfir Grænlandsjökul og undirbúningur er í fullum gangi hjá okkur núna. Í sumar fer ég svo í langan leiðangur með Ales, manninum mínum, Sigurði Bjarna og breskum klifrara til Pakistan Karakorum fjallgarðinn. Rúsínan í pylsuendanum verður draumaleiðangur með stelpunum í ÍKLÍF sem verður gerður opinberaður von bráðar.“ 

Útivistarkvöld Loftslagsleiðtogans hefst klukkan 20:00 í kvöld í sal Ferðafélgs Íslands. Nánari upplýsingar er að finna á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert