Farþegi lenti flugvél

Cessna 208b
Cessna 208b Skjáskot/Instagram

Farþegi neyddist til að lenda eins hreyfils flugvél eftir að flugmaður vélarinnar varð skyndilega meðvitundarlaus. Farþeginn kallaði til flugturnsins eftir hjálp.

„Það er alvarlegt ástand í gangi hérna. Flugmaðurinn minn er meðvitundarlaus og ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að fljúga flugvél.“

Farþeginn fékk strax leiðbeiningar úr flugturninum um hvernig hann ætti að lenda vélinni. Hann var beðinn um að fylgja ströndinni annað hvort í norður eða suður til þess að hægt væri að finna staðsetninguna á vélinni. Þegar vélin fannst fékk farþeginn nákvæmar leiðbeiningar um hvernig hann ætti að lenda. Það tókst og hann lenti á alþjóðaflugvellinum í Palm Beach. 

Það var hægt að heyra samtalið á milli þeirra í samskiptakerfi sem flugmenn nota. „Þið voruð að sjá farþega lenda þessari flugvél,“ heyrðist úr flugturninum þegar farþeginn lenti vélinni. 

„Sagðir þú að farþegi hefði lent vélinni? Jáhá vel gert,“  sagði flugmaður frá American Airlines í samskiptakerfið.

mbl.is