Fatlaður maður skilinn eftir um borð í farþegaþotu

Flugsæti um borð.
Flugsæti um borð. Ljósmynd/Pexels/Sourav Mishra

Breski fjölmiðlamaðurinn, Frank Gardner, varð fyrir miklum vonbrigðum fyrr í vikunni þegar hann var skilinn eftir, einn og yfirgefinn, um borð í farþegaþotu sem lent hafði á Heathrow-flugvelli í Lundúnum. Gardner hefur notað hjólastól frá árinu 2004 eftir að hann varð fyrir skotárás í Sádí-Arabíu, þegar hann var skotinn sex sinnum af stuttu færi.

„Þetta gerðist aftur. Fastur í tómri flugvél á Heathrow-flugvelli, löngu eftir að allir aðrir voru farnir. Ekkert starfsfólk til að taka hjólastólinn minn úr vélinni,“ skrifaði Gardner við færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum Twitter og vakti athygli á málinu. Gardner hafði ferðast með farþegaþotu frá Eistlandi til Lundúna, höfuðborgar Bretlands. Fréttamiðillinn Mirror greindi frá.

Gardner sagði þjónustustigið við fatlað fólk á Heathrow-flugvelli til háborinnar skammar og algerlega óviðunandi. Sagði hann atvik þetta ekki einsdæmi og kenndi um mönnunarvanda á flugvellinum. Þá gaf hann einnig í skyn að fatlaðir farþegar væru almennt ekki teknir alvarlega þrátt fyrir að flestir alþjóðlegir flugvellir gefi sig út fyrir að tryggja öryggi, aukna aðstoð og þægindi við þá sem eiga við fatlanir af ýmsum toga að etja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert