9 skemmtilegir staðir að heimsækja á Norðurlandi

Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

Þeir sem ætla að heimsækja Norðurland í sumar hafa úr nægri dægradvöl að velja. Hér eru nokkrir staðir sem gaman er að heimsækja en listinn er þó engan veginn tæmandi. 

Jarðböðin við Mývatn

Þeir sem vilja slaka á í pastelbláu og steinefnaríku jarðhitavatni, njóta ljúffengra drykkja í lóni og upplifa náttúruleg gufuböð, þar sem gufan streymir óhindrað upp úr gólfinu, ættu að skoða að heimsækja Jarðböðin við Mývatn.

Jarðböðin í Mývatni eru vinsæll áningastaður ferðamanna.
Jarðböðin í Mývatni eru vinsæll áningastaður ferðamanna. Ljósmynd/Baldur Arnarsson

Gong með hvölum

Norðursigling á Húsavík býður upp á spennandi siglingar í sumar. Ein þeirra er Gong-sigling á seglskútu þar sem hægt er að njóta heilandi tóna gongsins í endurnærandi siglingu á hvalaslóðum Skjálfandaflóa. Jógakennararnir Huld Hafliðadóttir og Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir leiða ferðina og spila báðar á gong. Innifalið í þessari siglingu er heitt kakó og kanilsnúðar, hvalaleiðsögn, gong-slökun, hlýir heilgallar, teppi og regnkápur eftir aðstæðum.

Sundlaugin Grenivík

Úr sundlauginni er einstaklega fallegt útsýni yfir Grenivík, Kaldbak og Eyjafjörð. Sundlaugin var byggð árið 1990. Í desember 2020 var tekin í notkun glæsileg aðstaða við laugina sem samanstendur af rúmgóður heitum potti, djúpri vaðlaug og köldum potti. Þeir sem kunna að meta að vera úti í vatni með einstaka náttúru allt í kring mega ekki missa af því að fara í sund á Grenivík.

Hótel Siglunes

Þeir sem kunna að meta að gista á einstöku „boutique“ hóteli ættu að heimsækja miðbæ Siglufjarðar, þar sem finna má Hótel Siglunes. Herbergin eru nýuppgerð og fallega innréttuð með antíkhúsgögnum og íslenskri myndlist. Á setustofu og bar er hægt að slaka á og njóta léttra veitinga.

Grímsey

Grímsey er græn, grösug og einstaklega gjöful eyja. Útvörðurinn í norðri með auðug fiskimið og litríkt fuglalíf. Þangað kemur fólk gjarnan langa leið, til þess eins að stíga norður fyrir baug. Aðrir hrífast af náttúrunni og fuglalífinu á staðnum. Húsin í Grímsey eru einstök og stundum má finna áhugaverða gistimöguleika á staðnum.

Hrísey

Hrísey liggur í utanverðum Eyjafirði. Eyjan er önnur stærsta eyjan við Ísland og er 7,5 km að lengd og 2,5 km að breidd. Á eyjunni er einstaklega fallegt og hefur verið vinsælt að leigja lítil sumarhús á staðnum. Mínukot er sem dæmi lítill sumarbústaður í Hrísey sem minnir helst á lítið hús í ævintýrunum. Eyjan er algjör náttúruparadís sem seint gleymist.

Nonnahús

Nonnahús er bernskuheimili barnabókahöfundarins og jesúítaprestsins Jóns Sveinssonar „Nonna“. Húsið er meðal þeirra elstu á Akureyri, byggt upp úr 1850. Safnið geymir marga muni tengda Nonna, m.a Nonnabækur á fjölmörgum tungumálum. Húsið sjálft hefur verið varðveitt sem dæmigert kaupstaðarheimili þessa tíma. Nonni flutti 12 ára frá Akureyri einn síns liðs sumarið 1869 til að fara í skóla í Frakklandi. Hann varð þekktur barnabókahöfundur um víða veröld. Þannig varðveitir safnið bækur frá yfir 30 löndum, t.d. á kínversku og japönsku, pólsku og esperantó.

Nonnahús er á meðal þeirra elstu á Akureyri, byggt um 1850. Síðasti íbúi Nonnahúss flutti úr húsinu 1945 en Nonnahús hefur verið safn síðan 1957. Nonnahús er á sömu lóð og Minjasafnið og einungis 200 metrum frá Leikfangahúsinu.

Menningarhúsið Hof

Menningarhúsið Hof var formlega opnað 28. ágúst 2010. Hof er menningarhús Norðlendinga og í raun allra landsmanna. Það skapar verðugan ramma um menningar- og tónlistarlíf með því að bjóða upp á fyrirmyndaraðstöðu fyrir fjölbreytilega viðburði á sviði tónlistar, leiklistar, danslistar og ráðstefnuhalds. Húsið er einstaklega fallegt og geta allir þeir sem hrifnir eru af arkitektúr fundið eitthvað við sitt hæfi í Hofi.

Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Lystigarðurinn á Akureyri

Í ellefta skiptið halda ÁLFkonur með ljósmyndasýningu við útisvæðið og við veitingasöluna í garðinum. Sýningin heitir Skuggar og eru ÁLFkonur hópur kvenna með ljósmyndun að áhugamáli. Sýningin er einstök að margra mati, þar sem kvenleg sýn er í fyrirrúmi.

Jólagarðurinn

Það skiptir ekki máli hvaða tími ársins er. Fullorðnir og börn gleðjast við heimsókn í Jólahúsið í Jólagarðinum Sveinsbæ, Akureyri. Jólagarðurinn er sannkölluð töfraveröld jólanna, í aðeins tíu mínútna akstursfjarlægð frá miðbæ Akureyrar. Þar getur að líta ógrynni muna sem tengjast jólum úr víðri veröld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Loka