Í fangelsi fyrir að hrækja á farþega

Atvikið átti sér stað um borð í vél American Airlines.
Atvikið átti sér stað um borð í vél American Airlines. AFP

Kona frá New York í Bandaríkjunum hefur verið dæmd í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að hrækja á farþega um borð í flugvél og ýta flugþjóni í flugi American Airlines í febrúar árið 2021. New York Times greinir frá.

Dómurinn féll hinn 29. ágúst síðastliðinn í héraðsdómi í Arizona-ríki. Konunni, sem er 32 ára einstæð móðir, var einnig gert að greiða yfir níu þúsund bandaríkjadali í skaðabætur. Verður hún á skilorði í 36 mánuði eftir að fangelsisvistinni lýkur.

„Það er lína á milli ruddalegrar hegðunar og broti á hegningarlögum. Sakborningur fór án efa yfir þá línu,“ sagði Gary Resatino, ríkissaksóknari í Arizona, í tilkynningu eftir að dómurinn féll.

Játaði eitt brot

Konan játaði að hafa ýtt við flugþjóninum í maí á þessu ári. Rifrildi braust út vegna grímuskyldu um borð í vélinni. Vildi hún ekki bera grímu í vélinni og ýtti hún í, lamdi og öskraði á flugþjónana og aðra farþega. 

Konan flaug á fyrsta farrými frá Dallas til Los Angeles ásamt vinkonu sinni. Vinkonan notaði niðurlægjandi orð um svart fólk sem olli því að svartur farþegi sem sat á bak við þær gerði athugasemdir. Lagði hann hönd sína á öxl konunnar sem reiddist og hrækti á hann. 

Þegar flugþjónninn kom til að athuga hvað væri í gangi ýtti hún við honum. Vélin þurfti að nauðlenda í Phoenix í Arizona í kjölfarið. 

Ekki einsdæmi

Mál konunnar er ekki eins dæmi en flugmálastofnun Bandaríkjanna hefur aldrei borist jafn margar tilkynningar um óspektir og ofbeldi um borð í flugvélum og árið 2021. Þannig var kona dæmd í 15 mánaða fangelsi fyrir að leggja hendur á flugþjón. Atvikið átti sér stað í maí 2021 og í kjölfarið hættu tvö flugfélög í Bandaríkjunum, American Airlines og Southwest, að selja áfengi um borð. Félögin hafa þó aftur byrjað að selja áfengi um borð í vélum sínum síðan. 

mbl.is