Liverpool – ekki bara Bítlarnir og fótbolti

Einhverjum finnst kannski erfitt að trúa því en Bítlaborgin Liverpool, heimaborg fótboltaliðanna Liverpool og Everton, er svo sannarlega meira en bara það. Margir Íslendingar hafa sótt borgina heim síðastliðna áratugi, en kannski ekki gefið sér tíma til þess að gera meira en að skella sér á leik og skoða vinsælasta safnið um Bítlana. Blaðamaður fór í fyrstu ferð Play til Liverpool og komst að því á fyrsta degi að það var meira að sjá í borginni.

Auðvitað fer mikið fyrir hvoru tveggja, en maður þarf þó ekki að hafa mikið fyrir því að komast að því að það er meira að frétta. Til dæmis er að finna ansi skemmtilegt sjóminjasafn, safn um sögu Liverpool, sem er ansi áhugavert, safn um Bretland í seinni heimstyrjöldinni, safn um þrælahald, safn um breska tónlistarsögu og svo mætti lengi telja. Stóri kosturinn er líka að það kostar oft ekki neitt að heimsækja þessi söfn. 

Sé fólk aðdáendur Bítlanna, eða geta svo sem raulað með einu og einu lagi, verður heimsóknin svo enn skemmtilegri fyrir vikið, enda nóg af söfnum um Bítlana, öll kennileitin eins og þau leggja sig, stytturnar, tilvísanirnar og hótel sem heita eftir lögunum. Ef sá hinn sami hefur áhuga á fótbolta er borgin svo hinn fullkomni áfangastaður. 

Hafnarsvæðið, Albert's Dock, er einstaklega vel heppnað.
Hafnarsvæðið, Albert's Dock, er einstaklega vel heppnað. mbl.is/Sonja Sif

Óþekkasti krakkinn á flugvellinum

Ferðin til Liverpool byrjaði vel fyrir blaðamann, sem mætti tímanlega og ákvað að kíkja aðeins á bókaúrvalið á vellinum. Bækurnar heilluðu svo að tíminn leið á ljóshraða og allt í einu var hliðið að vélinni að loka og því spretturinn tekinn í gegnum alla flugstöðina. 

Í fyrsta skipti, og vonandi síðasta, var nafnið Sonja Sif Þórólfsdóttir kallað upp í Leifsstöð með tilheyrandi kvíðakasti klukkan 6:30 á föstudagsmorgni. Allt fór vel á endanum og við tók tveggja klukkustunda flug til Bretlands með aðeins of vel hressum Everton-mönnum sem fengu svo höfðingjalegar móttökur á John Lennon-flugvellinum.

Völlurinn er hinn krúttlegasti, talsvert minni en í Keflavík, eða svona fjórfaldur Akureyrarflugvöllur með vinalegu landamæraeftirliti. „Welcome to sunny Liverpool,“ sagði gamla konan sem smalaði okkur inn um rétt hlið á vellinum, en það var að sjálfsögðu rigning þegar við lentum. 

Í borginni er talsvert af kennileitum sem gera manni auðveldara …
Í borginni er talsvert af kennileitum sem gera manni auðveldara fyrir að rata um hana. Svo er áin alltaf í vestur fyrir þau sem nota áttir til að rata. mbl.is/Sonja Sif

Góður leigubílsstjóri gulls ígildi

Til að komast frá flugvellinum er þrennt í boði, leigubíll, strætó, eða strætó á lestarstöðina og lest inn í borg. Blaðamaður fór með strætó, og tók svo leigubíl á hótelið INNSiDE vegna leti og regnhlífarleysis. Það reyndist hinn besti kostur því leigubílstjórinn var hverjum fleti kunnugur í borginni og kenndi blaðamanni að áin væri alltaf í vestur.

Það kom sér vel fyrir manneskju sem alin er upp við að sitja annað hvort austan eða sunnanmegin við eldhúsborðið, í bæ þar sem sjórinn og Kinnarfjöllin eru líka alltaf í vestur.

Hafnarsvæðið í Liverpool er enn staðurinn þar sem hlutirnir gerast. Borgin byggðist upp frá höfninni og þar var þungamiðja iðnaðarins á svæðinu. Hafnirnar við ánna sinna enn mikilvægu flutningshlutverki og er það meðal annars ástæðan fyrir því að ekki eru brýr yfir ánna við miðborgina eins og í svo mörgum öðrum borgum heldur göng undir hana. Þannig komast stór skip upp og niður hana auðveldlega.

Mikið líf er á hinni uppgerðu Albert's Dock og hefur vel tekist til að gera hana að bæði stað fyrir ferðamenn og heimamenn. Þar er mikið af veitingastöðum, söfnum og börum. Þar eru líka stytturnar af John Lennon, Paul McCartney, George Harrison og Ringo Starr. 

Fyrir Jóakim og spariskó

Liverpool er bílaborg sem hefur á síðustu áratugum daðrað við að verða að borg fyrir fólk. Þannig er kominn slatti af göngugötum og einstefnugötum í miðborginni sem gerir lífið auðveldara fyrir gangandi og hjólandi. Miðborgarbletturinn er ansi þéttur og góður, umvafinn hótelum og gistiheimilum þannig auðvelt er að fara allra sinna ferða þar gangandi. 

Í miðborginni er líka hin besta verslunarmiðstöð. Verslanirnar í miðborginni eru á öllum skalanum, keðjurnar sem við þekkjum öll og henta því bæði þeim sem eiga úttroðin seðlaveski og þeim þefa uppi útsölur hvert sem þeir fara. Ekki skemmir fyrir að pundið er þokkalega hagstætt þessa dagana, þá sérstaklega þegar nýr forsætisráðherra Bretlands, Lizz Truss, opnar á sér munninn.

Fjöldi safna er við höfnina sem er einstaklega lífleg.
Fjöldi safna er við höfnina sem er einstaklega lífleg. mbl.is/Sonja Sif

Bensínstöð í úthverfi 

Í borginni er að finna stórmagnaða veitingastaði og bari. Gott er að vera búinn að vinna heimavinnuna sína þegar kemur að kvöldmat og panta borð, því um helgar geta verið langar raðir eins og raun bar vitni á föstudagskvöldinu þegar röðin á Casa Italia náði góða 30 metra niður götuna. Og þar var enginn að passa upp á tveggja metra regluna. Að slá inn Opentable Liverpool í leitarvél kemur þér á réttan stað á Internetinu og þá er bara að velja staðinn. 

Blaðamaður náði ekki að snæða á hinum vinsæla Casa Italia heldur fór á aðeins ljótari frænku hans norðar í götunni, La Famiglia, sem er heiðarlegri útgáfan af ítölskum veitingastað í Bretlandi. Á laugardagskvöldinu gerðu íslenskir blaðamenn sér svo ferð í úthverfið, nánar í suðurhlutann, þar sem peningarnir eru. 

Jürgen Klopp er í Guðatölu í borginni.
Jürgen Klopp er í Guðatölu í borginni. mbl.is/Sonja Sif

Til þess að komast þangað þurfti auðvitað leigubíl. Leigubílar, þó margir hverjir gangi nú fyrir rafmagni, ganga fyrir bensíni og leigubílstjórinn þetta kvöld hikaði ekki við að stoppa á Shell í úthverfinu, um það bil þremur mínútum áður en komið var á áfangastað, og dæla fjórðungi á tankinn. Ekkert mál, bara upplifun. 

Óhætt er að mæla Churrasco Steakhouse þar sem hægt er að fá allskonar gómsætt nautakjöt og afbragðs kokteila. Í grennd við steikhúsið er svo fáránlega velheppnuð vistgata með fjölda veitingahúsa og kráa, þar á meðal The Old School House. Sá bar er himnaríki hipstersins og Instagram-skvísunnar með sínum sniðugu kokteilum og plöntum upp um alla veggi.

Á sunnudag duttu blaðamenn svo fyrir tilviljun inn á glæsilegan ítalskan stað Piccolino sem fær fimm stjörnur og broskall í kladdann.

Himnaríki hipstersins er í Liverpool.
Himnaríki hipstersins er í Liverpool. mbl.is/Sonja Sif

Bítlarnir og boltinn

Þó í borginni sé meira en bara Bítlasöfn og Anfield þá verður ekki hjá því komist að upplifa nákvæmlega það. Liverpool átti leik við Arsenal í höfuðborginni þessa helgina og því var gaman að skella sér inn á pöbb til að horfa á leikinn. Óþarfi er að rifja leiksatvik nánar upp að svo stöddu, enda úrslitin ekkert sem heimamenn hrópuðu húrra fyrir, nema kannski þeir bláklæddu í borginni. 

Bítlasöfnin eru sannarlega stórkostleg og The Beatles Story niðri á höfn var alveg frábært. Safnið er þó komið talsvert til ára sinna þegar kemur að tækninni, og hefði mátt gera meira úr ákveðnum hlutum. Eftir sem áður vel þess virði að renna sér í gegnum það, en það tekur um eina og hálfa klukkustund.

Ekki er hægt að fara til Liverpool án þess að …
Ekki er hægt að fara til Liverpool án þess að heimsækja The Cavern. mbl.is/Sonja Sif

The Cavern er gamall tónleikastaður í miðborginni sem Bítlarnir spiluðu oft á á sjöunda áratugnum og tóku sitt fyrsta gigg þar í febrúar 1961 eftir velheppnaða tíma í Hamborg í Þýskalandi. Í götunni eru fjórir mismunandi The Cavern staðir en aðalstaðurinn lætur minnst á sér bera og þarf að greiða fimm pund til að komast þar inn. 

Staðurinn er einar þrjár eða fjórar hæðir undir jarðhæð og yndisleg klórlykt tekur á móti manni. Þar er upprunalega sviðið sem Bítlarnir spiluðu á og rólegra svæði þar sem eldri Breti trallar, spilar á gítar og segir frá sögu staðarins.

Eurovision næsta vor

Um helgina var tilkynnt að Eurovision-söngvakeppnin verður haldin í Liverpool í maí á næsta ári. Eurovision-höllin er á besta stað í borginni, eða sunnarlega á Albert's Dock, við parísarhjólið. Bretar halda keppnina fyrir hönd Úkraínu, sem unnu nú í vor, en vegna innrás Rússa geta ekki haldið hana.

Borgin virðist vel í stakk búin til þess að halda keppnina en þar er sannarlega nóg af hótelum og almenningsrýmum til að halda góða veislu. Svo er næturlífið með því blómlegra, sem ætti að henta djammþyrstum Euro-aðdáendum.

M&S Bank Arena þar sem Eurovision verður haldið í maí …
M&S Bank Arena þar sem Eurovision verður haldið í maí á næsta ári. mbl.is/Sonja Sif

Íslendingar ættu því ekki að veigra sér við að drífa sig út til Liverpool næsta vor og hafa nóg að gera í borginni ef Ísland kemst ekki áfram í úrslit keppninnar.

Þrír dagar dugðu ekki í að skoða og gera allt sem hægt er að gera í Liverpool og var það eiginlega það sem kom mest á óvart. Rútuferð um borgina, heimstyrjaldarsafnið, tónlistarsafnið og fótboltaleikur verða að bíða betri tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert