Eiríkur skipuleggur ævintýraferðir og lætur gott af sér leiða

Eiríkur Viljar Hallgrímsson Kúld skipuleggur ævintýraferðir um Norður-Víetnam og Kambódíu …
Eiríkur Viljar Hallgrímsson Kúld skipuleggur ævintýraferðir um Norður-Víetnam og Kambódíu og lætur gott af sér leiða á ferðum sínum.

Þegar Eiríkur Viljar Hallgrímsson Kúld lagði takkaskóna á hilluna eftir langan feril í fótboltanum myndaðist mikið tómarúm í lífi hans. Eftir að hafa farið í mótorhjólaferð niður Víetnam frá norðri til suðurs datt honum í hug að fara að skipuleggja hjólaferðir um svæðið.

Það hefur hann nú gert frá árið 2016 en hann stofnaði sína eigin ferðaskrifstofu, Two Wheels Travel, árið 2021 og hefur hann nú skipulagt tólf ferðir á svæðinu.

„Ég hef ávallt haft mikinn áhuga á ferðalögum og sögu en það var ekki fyrr en ég sameinaði þessi tvö áhugamál mín að ég náði að fylla upp í þetta tómarúm sem myndaðist eftir að ég hætti að spila knattspyrnu með meistaraflokk,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is.

Að þessu sinni gáfu þau öllum 250 nemendunum við skólann …
Að þessu sinni gáfu þau öllum 250 nemendunum við skólann 3 stílabækur, 2 blýanta, 2 penna, yddara, strokleður og reglustiku.

Gáfu skólabörnum námsgögn

Hann er nú í ferð um Kambódíu og Norður-Víetnam og stoppaði hann með hópnum sínum í sveitaskóla í Kambódíu. Gáfu þau skólabörnunum skólagögn, stílabækur, blýanta, penna og sitthvað fleira sem er nauðsynlegt í skólanum. 

„Hugmyndin byrjaði 2017 í minni fyrstu mótorhjólaferð í Norður-Víetnam þegar við hópurinn sátum að kvöldi til eftir góðan hjóladag og ræddum atburði dagsins með teyminu okkar. Við vorum að hjóla í gegnum svæði þar sem við sáum að aðbúnaður í kringum skóla var frekar ábótavant og ákváðum að athuga hvort við fengum leyfi til að heimsækja leik- eða grunnskóla og í leiðinni styrkja nemendurna eða skólann sjálfan um aðbúnað sem vantaði. Úr varð virkilega skemmtileg og gefandi heimsókn. Síðan þá hef ég reynt eftir mestu megni að halda uppteknum hætti en það er ávallt bundið því að fá leyfi frá þeim sem þarna stjórna,“ segir Eiríkur.

Frá heimsókn í skóla í norður Víetnam. Þarna þurftu þeir …
Frá heimsókn í skóla í norður Víetnam. Þarna þurftu þeir að ferja gjafirnar upp á mótorhjólunum því bílar komast ekki upp vegina að skólanum.

Að þessu sinni gáfu þau öllum 250 nemendunum við skólann 3 stílabækur, 2 blýanta, 2 penna, yddara, strokleður og reglustiku.

Eiríkur velur skólana í samstarfi við teymið sitt úti í Kambódíu sem aðstoðar hann svo við að finna skólagögnin á nærliggjandi mörkuðum. 

„Tilfinningin er auðvitað verulega góð og virkilega gaman að láta gott af sér leiða. Úr verður ávallt skemmtileg og falleg stund sem mun seint gleymast. Ég vill nefna að þetta væri ekki mögulegt án teymisins í Kambódíu og Víetnam og auðvitað íslensku ferðafélagana sem eru ávallt meira en tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að gera þetta að veruleika. Án þeirra væri þetta ekki hægt. Ég hef verið einstaklega heppinn með hópa og einstaklina sem hafa komið í ferð með mér,“ segir Eiríkur. 

Eiríkur hefur hjólað margoft um sveitir norður Víetnam og Kambódíu …
Eiríkur hefur hjólað margoft um sveitir norður Víetnam og Kambódíu en upplifir alltaf eitthvað nýtt.

Erfitt að útskýra með orðum og myndum

Reið- og mótorhjólaferðir Eiríks eru sannkallaðar ævintýraferðir um einstakt svæði. Hann skipuleggur ferðirnar með heimamönnum og í þeim fá ferðalangar að kynnast þessum löndum á öðruvísi hátt. 

„Eftir að hafa ferðast mikið um þessi svæði á eigin vegum og upplifað gestrisnina, náttúruna, mannlífið, söguna og fegurðina vildi ég ólmur kynna þessi svæði fyrir Íslendingum. Að ferðast um Kambódíu og Víetnam gefur þér upplifun og innsýn sem erfitt er að útskýra. Þrátt fyrir sína sögu sem er þjökuð af styrjöldum og erlendum yfirráðum þá er fólkið einstaklega hlýtt og horfir jákvæðum og björtum augum á framtíðina. Ég er sannfærður um að allir sem koma með Two Wheels Travel í þessar ævintýraferðir munu öðlast einstaka upplifun sem erfitt er að útskýra með orðum eða myndum,“ segir Eiríkur.

Í norður Víetnam gáfu þeir líka sjónvarp og vatnshreinsivél.
Í norður Víetnam gáfu þeir líka sjónvarp og vatnshreinsivél.

Upplifir eitthvað nýtt í hverri ferð 

Eiríkur er núna búinn að vera að hjóla um sveitir og þorp Kambódíu og Mekong í Víetnam síðustu tvær vikur. Hann segist alltaf upplifa eitthvað nýtt í hverri ferð þrátt fyrir að hafa heimsótt þessi svæði margoft áður.

Með bekknum í norður Víetnam í október á síðasta ári.
Með bekknum í norður Víetnam í október á síðasta ári.

„Gestrisnin, þakklætið og brosið sem er á vörum allra hér koma mér sífellt á óvart. Við byrjuðum ferðina í Siem Reap í Kambódíu og fyrstu dagarnir fóru í að hjóla um hin fornu hof Angkor Wat og gegnum sveitir og þorp Kambódíu þar sem reiðhjólin eru hin fullkomni ferðamáti til að fá einstaka innsýn inn í daglegt líf heimafólks. Við hjóluðum svo frá höfuðborginni Phnom Penh meðfram Mekong-ánni að landamærum Víetnam þar sem við fórum yfir og héldum áleiðis að Ho Chi Minh sem er stærsta og fjölmennasta borg Víetnam,“ segir Eiríkur. 

Það er nóg að gera hjá Eiríki sem leiðsögumanni því þegar hann er ekki að hjóla um alla Asíu með íslenska ferðamenn sýnir hann erlendum ferðamönnum heimalandið á vegum Citywalk Reykjavík, en það hefur hann gert síðan 2015.

„Framundan hjá Two Wheels Travel er mótorhjólaferð í Norður-Víetnam í byrjun apríls. Ég hlakka mikið til að leiða þá sem eru að koma með mér í þá ferð um fjallavegi Víetnams í gegnum hrísgrjóna- og teakra. Ég mun svo leiða hóp um Himalajafjöll Indlands í mótorhjólaferð í byrjun september,“ segir Eiríkur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert