Eitt erfiðasta hlaupið á ferlinum

Þorbergur á fleygiferð í utanvegahlaupi á Norðurlandi.
Þorbergur á fleygiferð í utanvegahlaupi á Norðurlandi.

Norðfirðingurinn og ofurhlauparinn, Þorbergur Ingi Jónsson, keppir á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum sem fram í nágrenni Innsbruck í Austurríki. Auk Þorbergs keppa þrír aðrir Íslendingar í hlaupinu í dag, þau Snorri Björnsson, Rannveig Oddsdóttir og Halldóra Ingvarsdóttir.

„Hlaupið er 87 km og hátt í 7 þúsund metra hækkun. Þetta verður með erfiðari hlaupum sem ég hef tekið þátt í á ferlinum. Það erfiðasta við það er hversu mikil hækkunin er á ekki lengri vegalengd. Þá bætist við að það er hlaupið í háfjallalofti sem er yfir 2 þúsund metrar og þá er loftið þynnra og erfiðara að anda. Þá fer maður hægar yfir,“ segir Þorbergur sem er sigursælasti utanvegahlaupari Íslands.

Þetta er í fimmta skiptið sem hann tekur þátt í heimsmeistaramóti í utanvegahlaupi. „Það hefur gengið á ýmsu í þessum hlaupum. Mér gekk mjög vel í keppninni í Frakklandi 2015 og náði í 9. sæti. Ég hef líka þurft að hætta keppni í tvö skipti vegna meiðsla. Í fyrra varð ég í 42. sæti í Taílandi. Mótið í ár er mjög sterkt og það eru margir meðalgóðir hlauparar að taka þátt. Markmiðið núna er að hlaupa eins hratt og ég get og komast í mark á sómasamlegum tíma og sjá hverju það skilar. Þetta verður erfitt og það er ekkert sjálfgefið að ná að ljúka svona hlaupi. Þannig að ég verð að bera virðingu fyrir vegalengdinni og aðstæðum,“ segir hann. Þorbergur hleypur alla jafna í La Sportiva skóm. „Í þessu hlaupi mun ég skoða hvaða týpu af skóm ég nota og hvernig veður og aðstæður verða,“ segir hann enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert