Nýr áfangastaður keppir við Tenerife

Sólsetur og strendur. Uppáhald Íslendinga?
Sólsetur og strendur. Uppáhald Íslendinga? Samsett mynd

Lengi vel hefur Kanaríeyjan Tenerife verið vinsælasti sólarlandastaður Íslendinga. Icelandair og Play fljúga nokkrum sinnum í viku til eyjunnar, enda eftirspurnin mikil. Þá hefur Kanaríeyjan Gran Canaria sömuleiðis verið vinsæl meðal sólþyrsta Íslendinga, en hún hefur þó ekki notið eins mikilla vinsælda og Tenerife.

Nýlega hóf Play að fljúga til annarrar Kanaríeyju, Fuerteventura. Ég var í jómfrúarfluginu 20. desember og tók að mér að skoða eyjuna fyrir sólþyrsta Íslendinga sem vilja kanna nýjar slóðir.

Fuerteventura er hugsaður sem vetraráfangastaður hjá Play og er síðasta flugið í vetur 10. apríl. Sama flugáætlun verður næsta vetur.

Samkvæmt Birgi Olgeirssyni, upplýsingafulltrúa Play, hefur áhuginn á eyjunni verið sæmilegur. Hann segir Íslendinga þekkja Fuerteventura minna en Tenerife, því muni taka tíma að byggja áfangastaðinn upp. Þá séu Tenerife og Alicante vinsælustu áfangastaðir Play á meðal Íslendinga.

Hippalegri eyja

Nú hef ég einungis einu sinni komið til Tenerife, sem mætti segja að sé frekar skrítið miðað við að ég sé sólþyrstur Íslendingur sem líkar illa við íslenska veturinn. Nokkrir ferðafélagar mínar höfðu þó komið oftar til Tenerife. Við vorum öll sammála um að Fuerteventura bjóði upp á aðeins öðruvísi stemningu en Tenerife. 

Eyjan er að einhverju leyti hippalegri en Tenerife, allavega einhverjir hlutar hennar. Minna er um ferðamennsku og sést það ágætlega á búðum og veitingastöðum. Það er þó margt hægt að gera á eyjunni sem gæti heillað íslenska ferðamanninn.

Falleg sólsetur og litrík hús

Bærinn El Cotillo er virkilega sætur lítill strandbær. Gamla höfnin er einstaklega sjarmerandi og gaman að tylla sér niður á veitingastað við höfnina. Ég mæli sérstaklega með að gera sér ferð þangað til að fylgjast með sólsetrinu. Einnig er skemmtilegt að labba um bæinn og skoða litríku byggingarnar.

El Cotillo býður upp á falleg sólsetur og litríkar byggingar.
El Cotillo býður upp á falleg sólsetur og litríkar byggingar. Samsett mynd

Finnst þér popp gott?

Það hljómar kannski smá skringilega en það er strönd á Fuerteventura sem heitir Poppkornströndin. Það er ekki alvöru popp á ströndinni, heldur steinar sem líta út eins og popp. Þú getur því miður ekki borðað þessa poppsteinana, eða ég mæli allavega ekki með því, en það er samt sem áður mjög gaman að heimsækja ströndina og skoða þessa einstöku steina.

Steinarnir eru í laginu eins og popp!
Steinarnir eru í laginu eins og popp! Samsett mynd

Viltu prófa brimbretti?

Það er mikið gert úr brimbrettaíþróttinni á Fuerteventura. Ég rakst á þó nokkra brimbrettakappa á meðan ég dvaldi á eyjunni. Sömuleiðis eru margar búðir sem selja ýmiss konar brimbrettavörur. Það er því tilvalið fyrir þá sem hafa áhuga á að prófa brimbretti að gera það á Fuerteventura.

Brimbrettaíþróttin er vinsæl á Fuerteventura.
Brimbrettaíþróttin er vinsæl á Fuerteventura. Samsett mynd

Sólsetur við vindmyllu

Það eru þó nokkrar vindmyllur á Fuerteventura. Ég rakst á tvær í bænum La Oliva. Þar fylgdist ég með mögnuðu sólsetri. Ég mæli innilega með ferð þangað, en vegurinn að þeim er frekar þröngur og ekkert bílastæði er á staðnum, hafið það í huga.

Vindmyllur fá finna víða á Fuerteventura.
Vindmyllur fá finna víða á Fuerteventura. mbl.is/Inga

Strönd í miðjum bæ

Corralejo er nokkuð stór bær, eða allavega miðað við aðra bæi á Fuerteventura. Á aðalgötunni í bænum eru ýmsar fatabúðir þar sem kaupglöðum Íslendingum gæti þótt gaman að pressa kortið. Í bænum er einnig lítil strönd, sem hentar ágætlega fyrir börn sem vilja busla á meðan foreldrarnir fá sér einn kaldan á veitingastað við ströndina. 

Fyrir þá sem vilja verja tíma sínum á stærri ströndum er um að gera að keyra aðeins í burtu frá bænum. Í tíu mínútna fjarlægð er að finna stórar hvítar strendur. Þar eru eru sandöldur sem gaman er að kíkja á.

Ströndin í Correlejo er vinsæl meðal barnafólks.
Ströndin í Correlejo er vinsæl meðal barnafólks. Samsett mynd

Færðu ekki nóg af náttúrulaugum?

Rétt hjá ströndinni Playa del Valle er eins konar náttúrulaug. Þetta er í raun bara sjór sem safnast hefur fyrir í lítilli laug við ströndina og endurnýjast laugin á hverju flóði. Í lauginni gætir þú rekist á litla fiska, þeir bíta samt ekki, held ég.

Laugin er eins konar náttúrulaug.
Laugin er eins konar náttúrulaug. mbl.is/Inga

Ertu sögunörd?

Betancuria er lítill bær sem áhugamönnum um sögu Fuerteventura gæti þótt skemmtilegt að heimsækja, en bærinn er fyrrverandi höfuðborg eyjunnar.

Bærinn er mjög sjarmerandi og er gaman að rölta um hann. Það tekur þó ekki langan tíma, enda er hann mjög lítill. Nokkrir veitingastaðir eru í Betancuria. Ég heimsótt bæinn á jóladag og voru því allir þeirra lokaðir nema einn, Casa del Queso, Ostahúsið. Veitingastaðurinn býður upp á allskonar ostarétti og er fullkominn fyrir ostaunnendur.

Ég mæli með dagsferð til Betancuria.
Ég mæli með dagsferð til Betancuria. Samsett mynd/Vinga Pálsdóttir

Nóg af mörkuðum

Allskonar markaðir eru haldnir á Fuerteventura. Hér er hægt að sjá yfirlit yfir markaðina. Ég heimsótti El Campanario markaðinn í Corralejo og markaðinn í Lajeres. Þeir voru frekar svipaðir en mér fannst markaðurinn í Corralejo aðeins skemmtilegri þar sem hann var stærri og úrvalið fjölbreyttara.

Þessi mynd er tekin á El Campanario markaðnum.
Þessi mynd er tekin á El Campanario markaðnum. mbl.is/Inga

Falleg strönd og ganga að helli

Bærinn Ajuy er lítill strandbær. Þar er falleg svört strönd sem hægt er að sóla sig á. Þá er einnig hægt að taka göngutúr að helli sem er þar skammt frá, þú gætir rekist á geitur á leiðinni, en þær eru mjög vinalegar.

Gangan að hellinum er ekki löng.
Gangan að hellinum er ekki löng. Samsett mynd
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert