Opnaði gistihús í bakgarðinum

Húsfreyjan í Jórvík ásamt hundinum Mola.
Húsfreyjan í Jórvík ásamt hundinum Mola. Ljósmynd/Aðsend.

Guðbjörg Halldórsdóttir, eða húsfreyjan í Jórvík eins og hún kallar sig gjarnan elti ástina til Bretlands fyrir tæpum 4 árum. Nú búa þær Guðbjörg og Anna Einarsdóttir í York, Bretlandi og hefur Guðbjörg opnað fallegt gistihús í bakgarði sínum, sem kallast einfaldlega Bakgarðurinn.

Gistihúsið Bakgarðurinn.
Gistihúsið Bakgarðurinn. Ljósmynd/Aðsend.

„Ég kynntist Önnu sem er kennari við Háskólann í York í gegnum æskuvinkonu mína. Eftir að hafa verið í fjarsambandi um tíma varð ljóst að önnur okkar þyrfti að flytja til hinnar,“ segir Guðbjörg, sem ákvað í framhaldinu að flytja út til Önnu. „Ég hafði aldrei séð mig annars staðar en á Íslandi, en eftir að ferðunum til York fjölgaði, þá var það staður sem ég gat hugsað mér að búa á.“

„York er gríðarlega falleg borg með mikla sögu og hefur upp á allt að bjóða sem hægt er að hugsa sér, enda sækja borgina um 8 milljónir ferðamanna árlega og því alltaf iðandi mannlíf.“ York er staðsett í norðurhluta Yorkshire-héraðs, sem þykir eitt það fallegasta í Bretlandi. „Möguleikar á útivist og skoðunarferðum eru endalausir í næsta nágrenni.“

Ljósmynd/Aðsend.

Guðbjörg ákvað að taka sér góðan tíma í að aðlagast nýju borginni og var heimavinnandi í fyrsta skipti á ævinni. „Það varð til þess að ég fór að kalla mig „húsfreyjuna í Jórvík“ og segja frá þessu nýja lífi mínu á samfélagsmiðlum,“ segir Guðbjörg. Hún sótti ýmis námskeið sem hana hafði lengi dreymt um að fara á, meðal annars í innanhússhönnun sem hefur verið áhugamál hennar alla tíð. Það nám nýttist henni sérlega vel þegar ákvörðun var tekin um að festa kaup á nýbyggðu húsi í bakgarðinum þeirra.

Guðbjörg ásamt Mola, sem er af tegundinni Yorkshire Terrier.
Guðbjörg ásamt Mola, sem er af tegundinni Yorkshire Terrier. Ljósmynd/Aðsend.

„Húsinu okkar, sem við búum í, hafði verið breytt úr litlu hóteli í íbúðarhúsnæði. Á baklóðinni stóð hús með nokkrum aukaherbergjum sem tilheyra hótelinu sem var rifið, og þar voru byggð tvö parhús með fjórum íbúðum,“ segir Guðbjörg, en þær fylgdust grannt með framkvæmdunum. „Það var svo í júní 2021 sem ég hitti fasteignasalann sem var að fara að sýna væntanlegum kaupendum síðustu íbúðina. Ég fékk hugboð um að ég þyrfti að skoða hana, sem ég gerði.“

Guðbjörg hélt svo leið sinni áfram í hjólatúr um sveitina þar sem hugmyndirnar röðuðust upp. „Það var borðleggjandi að festa kaup á íbúðinni, leigja út til ferðamanna og bjóða upp á ýmiss konar þjónustu að auki. Ég kom svo óðamála til baka og sagði Önnu að við þyrftum að ganga í málið og það strax. Ég bunaði út úr mér öllum hugmyndunum sem ég hafði fengið í hjólatúrnum og sannfærði hana um að þetta væri málið.“

Falleg aðstaða fyrir framan Bakgarðinn.
Falleg aðstaða fyrir framan Bakgarðinn. Ljósmynd/Aðsend.

Því næst fór Guðbjörg á fullt í að koma húsinu í stand og segir það hafa gengið með ólíkindum vel. Einungis nokkrum vikum síðar var allt komið á sinn stað. „Bakgarðurinn er algerlega mitt hugfóstur og verkefni, en án Önnu og hennar stuðnings hefði þetta að sjálfsögðu aldrei gengið upp,“ segir hún. Guðbjörg hannaði og gerði allt sem gera þurfti sjálf, nema að mála, veggfóðra og setja upp gardínur. „Ég lagði upp með það í allri hönnun að koma upp lúxusgistingu þar sem allt væri til staðar sem ég vil sjálf hafa þegar við ferðumst.“ 

Húsfreyjan er mikill nautnaseggur og finnst fátt skemmtilegra en að …
Húsfreyjan er mikill nautnaseggur og finnst fátt skemmtilegra en að stjana við góða gesti. Ljósmynd/Aðsend.

Það geta allt að sex manns gist í þremur herbergjum í Bakgarðinum, en hvert herbergi hefur sérstakan karakter. „Í hönnuninni hugsaði ég um að hafa húsið skemmtilegt og hlýlegt, og kannski ekki eins og fólk vill endilega hafa heimilið sitt, án þess þó að fara yfir strikið í frumlegheitunum,“ segir Guðbjörg. Hún segir það ákveðna hvíld að vera í fríi í annars konar umhverfi en maður er vanur. 

Falleg veggfóður prýða herbergi Bakgarðsins.
Falleg veggfóður prýða herbergi Bakgarðsins. Ljósmynd/Aðsend.

Guðbjörg lagði áherslu á að þeir sem heimsæktu Bakgarðinn þyrftu ekki að taka mikið með sér. „Það eru meira að segja jógadýnur til afnota, en ég hef ásamt góðri vinkonu, Sigrúnu B. Ingvadóttur, flugmanni og jógakennara, boðið upp á fjögurra daga jóga- og skoðunarferð sem við köllum Sjálfshátíð og erum við með fleiri slíkar ferðir á prjónunum í haust.“ Guðbjörg er mikill gestgjafi og býður gestum að borða hjá sér fyrsta eða síðasta kvöldið, „það er nokkuð sem allir hafa nýtt sér.“

Eins og sjá má er Guðbjörg mikill gestgjafi og býður …
Eins og sjá má er Guðbjörg mikill gestgjafi og býður upp á fleira en bara gistingu í Bakgarðinum. Ljósmynd/Aðsend.

Aðspurð segir Guðbjörg York vera falinn demant. Hún óskar þess að fleiri Íslendingar komi í heimsókn. „Það er auðvelt að fljúga til Manchester og taka þaðan lest, sem fer beint inn í miðborgina í York, nú eða ef það eru fjórir eða fleiri saman, þá borgar sig að taka leigubíl. Ferðin tekur ekki nema um tvær klukkustundir frá flugvellinum heim í Bakgarðinn, hvort sem er með lest eða bíl. Fyrir þá sem hafa áhuga á útivist, er dásamlegt að fara í gönguferðir í nágrenninu og að hjóla um sveitirnar er ólýsanlegt. Fyrir golfáhugafólk þarf ekki að fara langt því það eru golfvellir hér allt um kring, enda á golfið sér langa og mikla sögu í Bretlandi. “

Ljósmynd/Aðsend.

„Ég er sannfærð um að eftir því sem fleiri koma að gista í Bakgarðinum og njóta gestrisni húsfreyjunnar í Jórvík, þá verður York á allra Íslendinga vitorði áður en við vitum af,“ segir Guðbjörg. Nánari upplýsingar um Bakgarðinn og York er að finna á heimasíðu Bakgarðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert