Drengurinn verður jarlinn af Dumbarton

Harry Bretaprins og Meghan Markle urðu foreldrar á mánudag. Í …
Harry Bretaprins og Meghan Markle urðu foreldrar á mánudag. Í dag verður prinsinn frumsýndur heimsbyggðinni og bíða margir með öndina í hálsinum. AFP

Sonur Harry Bretaprins og Meghan Markle, sem fæddist á mánudag, fær titilinn jarlinn af Dumbarton. 

Titillinn er veittur samkvæmt lögum um aðalstign (e. The Peerage Act) og þar sem faðir prinsins nýfædda er hertogi fær sonurinn titilinn jarl. Jarlinn af Dumbarton er jafnframt annar titill Harry, sem ber aðaltitilinn hertoginn af Sussex. Þetta á þó allt eftir að fást formlega staðfest frá bresku krúnunni. 

Heimsbyggðin bíður nú með öndina í hálsinum eftir að berja drenginn augum, en von er á Harry og Meghan fyrir utan Windsor-kastala á hverri stundu þar sem búist er við að sonurinn verði með í för. 

Sky-fréttastofan fylgist með öllu í beinni og segir fréttamaður Sky við Windsor-kastala að margir erlendir fjölmiðlar séu á staðnum, flestir bandarískir líkt og gefur að skilja, þar sem móðirin er jú bandarísk. 

Elísabet Englandsdrottning mun einnig hitta konunglega drenginn, sem er hennar áttunda langömmubarn, í dag. Drengurinn hefur ekki enn fengið nafn en Alexander og Spencer skora hæst hjá veðbönkunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert