Hanna Björk eignaðist tvíbura ein síns liðs

Hanna Björk og tvíburarnir eyddu fjórum vikum á Vökudeild Landspítalans.
Hanna Björk og tvíburarnir eyddu fjórum vikum á Vökudeild Landspítalans. Ljósmynd/Aðsend

Líf Hönnu Bjarkar Halldórsdóttur breyttist til muna um mitt ár í fyrra þegar hún eignaðist tvíbura, dreng og stúlku. Hanna Björk, sem er einstæð móðir, tók þá mikilvægu ákvörðun fyrir nokkrum árum að fara ein síns liðs í gegnum barneignarferlið.

Aðspurð segist Hanna Björk hafa gælt við hugmyndina í nokkur ár. „Ég hef alltaf verið með þetta á bak við eyrað, það er, ef ég væri enn þá einhleyp þegar ég næði 35 ára aldri, þá þyrfti ég að taka ákvörðun um framhaldið, hvort sem sú ákvörðun væri að sætta mig við barnleysi eða að tækla þetta verkefni einsömul,“ útskýrir Hanna Björk.

Hanna Björk á góðri stundu með vinkonu sinni, Michelle Keeler, …
Hanna Björk á góðri stundu með vinkonu sinni, Michelle Keeler, í Grikklandi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú værir ófrísk?

„Ég var algjörlega himinlifandi en hélt ró minni,” útskýrir Hanna Björk. „Ég var búin að hanga mikið á Facebook, lesa reynslusögur á meðgöngu- og fæðingarsíðum, til að fræðast betur um framhaldið og hverju ég ætti von á.

Í upphafi meðgöngunnar var ég nokkuð sannfærð um að ég myndi missa fóstur, enda búin að lesa margar slíkar sögur. Ég hafði góða tilfinningu fyrir meðgöngunni en var líka með skrýtna tilfinningu í maganum og auðvitað jókst spennan þegar ég fékk að vita að ég gengi með tvíbura.“

Hvernig gekk meðgangan?

„Meðgangan gekk eins og í sögu. Ég lét alla vita sem vildu að ég gæti auðveldlega verið ófrísk næstu 100 árin, mér leið það vel. Það sem truflaði mig á meðgöngunni var það að ég fann fyrir tíðari þvaglátum og verk í rifbeinum þar sem tvíburi B var staðsettur. Ég var viss um að ég ætti eftir að rifbeinsbrotna, bara við það að setjast niður.“

Hanna Björk að mata í gegnum sondu.
Hanna Björk að mata í gegnum sondu. Ljósmynd/Aðsend

Hver er fæðingarsaga þín?

„Ég var alls ekki viðbúin þegar ég missti vatnið, gengin 32 vikur og tvo daga. Mér datt ekki í hug að þau myndu koma þetta snemma. Ég var til að mynda ekki búin að pakka niður í spítalatöskuna,” segir Hanna Björk sem átti skráðan tíma hjá ljósmóður viku eftir að hún fæddi tvíburana.

Aðspurð segir Hanna Björk skoðun hafa gengið erfiðlega. „Það leið yfir mig í hvert sinn sem ég lagðist á bakið og það reyndist ógerningur að setja upp æðalegg, líkaminn var kominn í baklás. Planið var að stöðva fæðinguna í þeirri von um að gefa mér tvær sterasprautur, en orkuboltarnir mínir voru ekki sammála og komu í heiminn með hraði þann 6. júlí síðastliðinn,” útskýrir hún.

Tvíburarnir, Baltasar Bjarkan og Sunneva Kristín, fæddust með 22 mínútna millibili á björtu sumarkvöldi í byrjun júlímánaðar.

Krúttlegustu ananasarnir!
Krúttlegustu ananasarnir! Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leið þér þegar þú komst heim með tvö börn?

„Ég var mjög þreytt en á sama tíma fannst mér eins og ég gæti allt. Ég þurfti að pumpa mig á þriggja klukkutíma fresti ásamt því að hugsa um börnin. Ég var með þau vafin í bómull, sérstaklega þar til þau urðu fullburða.“

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst móðir?

„Það breyttist allt, ég, heimilið, lífið, sólarhringurinn og bara allt hitt. Heimili okkar líkist meira sýningarsal eða birgðageymslu í barnavöruverslun,” segir Hanna Björk og hlær.

„Ég er líka montnari og áhyggjufyllri en ég var áður en ég varð móðir. Ef ég finn að ég er að gera vel þá verð ég glöð og grobbin.“

Balthasar Bjarkan og Sunneva Kristín.
Balthasar Bjarkan og Sunneva Kristín. Ljósmynd/Aðsend

Hvað kom þér á óvart varðandi móðurhlutverkið?

„Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað hlutirnir breytast hratt. Það sem virkaði í gær gengur ekki í dag.“

Ertu með einhver ráð fyrir verðandi mæður?

„Það er afar mikilvægt að fylgja innsæinu. Þessi blessuðu börn mæta ekki á svæðið með handbók. Mæður vita best og ákveða hvað er best fyrir barnið sitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka