Ólíklegt að Harry og Meghan nefni eftir Díönu

Meghan Markle og Harry eiginmaður hennar.
Meghan Markle og Harry eiginmaður hennar. AFP

Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja eiga von á stúlku á þessu ári. Konunglegum spekingum þykir ólíklegt að þau muni heiðra móður Harrys, Díönu prinsessu, með því að nefna dóttur sína eftir henni.

Harry og Meghan greindu frá því í hinu fræga viðtali við Opruh Winfrey að þau ættu von á stúlku. Síðan þá hafa aðdáendur konungsfjölskyldunnar velt því fyrir sér hvað stúlkan litla muni heita og margir veðjað á að nafnið Díana verði fyrir valinu. 

Konunglegir spekingar telja að Harry og Meghan muni mögulega hafa Díönunafnið sem millinafn en ekki sem eiginnafn. Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja völdu þann kost þegar þau gáfu dóttur sinni Karlottu nafn en hún heitir Karlotta Elísabet Díana fullu nafni og heitir því eftir bæði ömmu sinni og langömmu. 

Ólíklegt þykir að Díana heitin muni eignast nöfnu.
Ólíklegt þykir að Díana heitin muni eignast nöfnu. AFP

„Það er mjög ólíklegt að þau muni skíra dóttur sína Díönu. Það sem þau hafa mestar áhyggjur af er að það muni gera hana enn frekar að skotmarki fjölmiðla og vekja enn meiri áhuga almennings á lífi hennar. Sama hvað hver segir, þá vilja Harry og Meghan vernda börn sín fyrir því álagi sem áhugi fjölmiðla veldur,“ sagði heimildamaður Page Six.

Þau eru líka sögð hafa áhyggjur af því að nafnið muni vera henni byrði frekar en blessun og hún verði þá alltaf borin saman við Díönu prinsessu. 

„Þau gætu íhugað að hafa það sem millinafn, en Karlotta prinsessa heitir nú þegar Díana að millinafni, og Harry og Meghan hafa ekki notið þess að þau hafi verið borin saman við Vilhjálm og Katrínu í fjölmiðlum og af konungsfjölskyldunni,“ sagði heimildamaðurinn.

Karlotta prinsessa heitir fullu nafni Karlotta Elísabet Díana.
Karlotta prinsessa heitir fullu nafni Karlotta Elísabet Díana. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert