Góð ráð þegar foreldrar þínir eru ósammála þér varðandi barnauppeldið

Unsðlash/Sergiu Vălenaș

Það getur verið frábært að sjá börnin þín tengjast ömmum sínum eða öfum. Fólkið sem ól þig upp er núna hluti af þínu eigin foreldraferðalagi, sem er ótrúleg upplifun. Afar og ömmur veita visku, reynslu og kærleika og samband þeirra við barnabörnin er ólíkt öllum öðrum samböndum.

Auðvitað koma þó tímar þar sem ömmur og afar hafa aðeins of mikið að segja um hvernig þú elur börnin þín upp. Það er bara eðlilegt, þau hafa gert þetta áður. Það getur hins vegar verið mjög pirrandi þegar þér finnst eins og uppeldisstíll þinn sé dreginn í efa eða ósamþykktur, sérstaklega af þínum eigin foreldrum.

Engum finnst ágreiningur skemmtilegur en því miður hverfur ágreiningur við afa og ömmu ekki af sjálfu sér. Mikilvægt er fyrir foreldra að setja skýr og heilbrigð mörk, því þó að afar og ömmur meini kannski vel með því að deila skoðunum sínum getur slík gagnrýni tekið sinn toll.

Hér eru nokkur ráð til að leysa úr slíkum ágreiningi.

Minniháttar ágreiningur

  • Taktu á því snemma: Um leið og þú tekur eftir því að farið hefur verið yfir strikið skaltu ræða málið áður en það vindur upp á sig.
  • Talaðu rólega: Ef þú finnur fyrir reiði, gefðu þér tíma til að róa þig niður. Það er skiljanlegt að foreldrum finnist þeir vera gagnrýndir eða líði eins og verið sé að grafa undan þeim þegat afar og ömmur neita að fylgja beiðnum þeirra. Það er þó mikilvægt að passa sig á því að blanda tilfinningum ekki of mikið í málið því það getur blásið málið upp að óþörfu.
  • Fullvissaðu þau um að þú kunnir að meta umhyggju þeirra: Hér er til dæmis hægt að segja að þið foreldrarnir séu þakklát fyrir að þau elski börnin það mikið að þau vilji grípa inn í þegar þeim finnst þið eiga að taka öðruvísi á málunum. Hins vegar hafið þið tekið ákvarðanir byggðar á því sem þið teljið best fyrir fjölskylduna og að ráð þeirra séu ekki gagnleg eins og stendur.
  • Komdu mörkum þínum skýrt á framfæri: Mikilvægt er að segja þeim hvað það var sem fór sérstaklega yfir strikið og hvers vegna það sé mikilvægt að þau virði ákvörðun ykkar foreldranna. Reyndu að hafa skýringarnar eins einfaldar og hreinskiptar og mögulegt er.
  • Vertu með opinn huga: Afi og amma geta veitt mikinn stuðning og góðar leiðbeiningar og upplýsingar. Þau hafa alið upp börn með góðum árangri. Reyndu að gefa annarri nálgun tækifæri ef hún virðist ekki vera hættuleg.

Meiriháttar ágreiningur

Í öfgafullum tilfellum getur verið nauðsynlegt að takmarka aðgengi afa eða ömmu að barninu. Ef þau brjóta ítrekað reglur þegar foreldrarnir eru ekki nálægt, gæti verið fyrsta skrefið að leyfa þeim ekki að vera ein með börnunum. Ef þau halda samt áfram getur þurft að taka til þess að takmarka samskipti þeirra við börnin.

Hér er þó einungis um að ræða ef gjörðirnar stofna heilsu barnsins í hættu.

Verywell Family

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert