Félagsmótuð í að hata andstæðinginn

Nágrannaslagir | 3. desember 2020

Félagsmótuð í að hata andstæðinginn

Miklum fótboltaáhuga er oft og tíðum lýst sem eins konar trúarbrögðum, sérstaklega þegar hann nær út fyrir það sem eðlilegt gæti talist. Þegar Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði og fótboltaáhugamaður, er spurður út í nágrannaslagi í íþróttum kemur einmitt fyrst upp í hugann tengingin á milli trúarbragða og stuðnings við íþróttalið.

Félagsmótuð í að hata andstæðinginn

Nágrannaslagir | 3. desember 2020

Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, á skrifstofu sinni í Odda.
Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, á skrifstofu sinni í Odda. mbl.is/Freyr

Miklum fótboltaáhuga er oft og tíðum lýst sem eins konar trúarbrögðum, sérstaklega þegar hann nær út fyrir það sem eðlilegt gæti talist. Þegar Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði og fótboltaáhugamaður, er spurður út í nágrannaslagi í íþróttum kemur einmitt fyrst upp í hugann tengingin á milli trúarbragða og stuðnings við íþróttalið.

Miklum fótboltaáhuga er oft og tíðum lýst sem eins konar trúarbrögðum, sérstaklega þegar hann nær út fyrir það sem eðlilegt gæti talist. Þegar Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði og fótboltaáhugamaður, er spurður út í nágrannaslagi í íþróttum kemur einmitt fyrst upp í hugann tengingin á milli trúarbragða og stuðnings við íþróttalið.

„Það má segja að í nútímaheimi þar sem afhelgunin er í trúarbrögðunum þá verður eitthvað að koma í staðinn,“ segir Viðar, afslappaður á skrifstofu sinni í Odda í Háskóla Íslands innan um fjölda fræðirita. Hann vísar í franska félagsfræðinginn Émile Durkheim og verkhyggjukenningar þar sem litið er á samfélagið eins og líkama. Rétt eins og í líkamanum þar sem líffærin gegna ákveðnum hlutverkum þá gegna ákveðnir þættir í samfélaginu tilteknum hlutverkum til þess að samfélagið virki sem ein heild. Allt hefur einhverja „fúnksjón“. Ef einn þáttur dettur út þarf annar að koma í hans stað.

Trúarbrögð eru til dæmis ekki jafnstór þáttur í lífi margra og þau voru hér áður fyrr og þá þurfa einstaklingar að leita eitthvað annað í staðinn, útskýrir Viðar, en viðtalið við hann er hluti af greinaflokki um nágrannaslagi í íþróttum. Hann bendir á að stuðningurinn við íþróttalið snúist að miklu leyti um að tilheyra. Við sem félagsverur viljum tilheyra einhverjum hópi sem hefur svo áhrif á sjálfsmynd okkar.

Stuðningsmenn Liverpool fagna sínum mönnum á Ölveri í fyrra.
Stuðningsmenn Liverpool fagna sínum mönnum á Ölveri í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Íþróttir byggja líka rosalega mikið á félagslegum samskiptum,“ segir Viðar og nefnir að fólk fari saman á völlinn og ef það horfir á leiki eitt heima í stofu skoðar það samfélagsmiðlana í símanum eða tölvunni. „Durkheim myndi segja að íþróttir væru afar mikilvægar í grunninn vegna þess að þær veita okkur einhverja fullnægju og félagsþörf og það að tilheyra einhverju stærra en við erum sem einstaklingar, sem gefur okkur eitthvert gildi.“

Halda með fyrirtækjum úti í heimi

Í bók sinni The Elementary Forms of the Religious Life talar Durkheim mikið um trúarbrögðin og það sem er heilagt og veraldlegt (e. sacred and profane). Þannig hafi trúarbrögðin ávallt verið heilög en þegar tók að draga úr vægi þeirra á meðal almennings og fólk „hætti“ að fara í kirkju urðu íþróttalið í staðinn svolítið heilög, útskýrir Viðar.

Íslenskir stuðningsmenn Manchester United horfa á sína menn spila við …
Íslenskir stuðningsmenn Manchester United horfa á sína menn spila við Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2011. mbl.is/Eggert

„Mér fannst alltaf stórkostlega merkilegt þegar maður fór að pæla í þessari félagsfræði að við erum að halda mikið með einhverjum fyrirtækjum úti í heimi eins og Liverpool og Arsenal. Það er fólk hérna á Íslandi með Liverpool-tattú og flaggar og kaupir sér fullt af búningum. Þetta er partur af sjálfsmynd þess. Það er svo sterkt í okkur að tilheyra. Þetta hefur áhrif á sjálfsmynd okkar og hvernig við skilgreinum okkur,“ greinir hann frá.

Ef velt er fyrir sér þessum mikla áhuga á enskum liðum og þá á kostnað íslenskra er ein ástæðan sú að ensku liðin eru miklu meira í umræðunni en þau íslensku, til dæmis á vinnustöðunum, eflaust út af því að boltinn úti í heimi er miklu stærri en sá sem er iðkaður hérlendis, bætir prófessorinn við, og á þar við umfangið allt.   

Gengi liðsins hefur áhrif á sjálfsmyndina

Viðar er KR-ingur en einnig stuðningsmaður Leicester á Englandi eftir að hafa stundað nám þar í borg. Hann rifjar upp könnun sem hann gerði árið 2001 á áhuga íslenskra karlmanna á enska boltanum. Í ljós kom að yfir 90% þeirra áttu sér uppáhaldslið í ensku deildinni og 44% þeirra studdu meira enska liðið sitt heldur en það íslenska. „Þessi svakalegi áhugi á íþróttum og fótboltaliðum er til marks um hvað þetta er mikilvægt félagslegt tæki fyrir einstaklinginn til að tilheyra í samfélaginu. Menn eiga í félagslegum samskiptum og það hefur áhrif á sjálfsmyndina,“ segir Viðar.

Leikmenn Leicester og Fulham berjast um boltann í ensku úrvalsdeildinni …
Leikmenn Leicester og Fulham berjast um boltann í ensku úrvalsdeildinni á dögunum. AFP

Sem dæmi nefnir hann að stór hluti af því þegar hann fer á völlinn er að hitta fólk og spjalla. „Þetta er félagsleg athöfn. Áhuginn sprettur þarna og þess vegna er þetta úti um allt. Það má líkja þessu við trúarbrögð og þess vegna tökum við þessu svona alvarlega. Þetta hefur mikil áhrif á fólk, hvort liðið þeirra vinnur eða tapar og menn verða pirraðir, brjálaðir og reiðir ef fótboltaliðið þeirra tapar, ef fyrirtæki á Englandi tapar einhverjum fótboltaleik.“

Viðar leitar í þessu samhengi í smiðju annars fræðimanns, hins þýska Karl Marx, sem talaði um trúarbrögð sem ópíum fólksins. Þannig væri hægt að líta á íþróttir í formi trúarbragða sem eins konar afþreyingu sem linar þjáningar fólks í hinu hversdagslega lífi. Einnig vitnar Viðar í Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, sem sagði fyrr á árinu að íþróttir séu mikilvægasti hluturinn af ómikilvægu hlutunum. Þjóðverjinn benti stuðningsmönnum á að einbeita sér frekar að því að vernda hver annan í miðjum kórónuveirufaraldri í stað þess að kvarta yfir frestun leikja í deildinni vegna veirunnar.  

Klopp á hliðarlínunni í leik Liverpool og Ajax á þriðjudaginn.
Klopp á hliðarlínunni í leik Liverpool og Ajax á þriðjudaginn. AFP

Næst víkur sögunni að samskiptasjónarhorni félagsfræðinnar, eða „symbolic interactionism“ með fræðimenn á borð við George Herbert Mead og Erving Goffman fremsta í flokki. Þeir líta á fræðin út frá einstaklingunum í stað heildarinnar og myndu leggja áherslu á hvaða merkingu einstaklingar leggja í að halda með sínum liðum. Túlka þeir það sem mikilvægt upp á að fá virðingu? Þeir sem eru harðir stuðningsmenn telja það mjög mikilvægan hluta af lífi þeirra og merkingarbært. Stuðningur við lið hefur mikil áhrif á sjálfsmynd sumra þeirra á meðan aðrir eru laustengdari, að sögn Viðars.

Hefðin skiptir máli

Fjórða kenningarsjónarhornið kemur frá Frakkanum Pierre Bourdieu sem talaði um „habitus“. Fólk elst upp við eitthvað sem því þykir merkingarbært og þess vegna ganga hlutirnir oft í ættir. „United-pabbinn og United-sonurinn. Áhugi á fótbolta og áhugi á fótbolta. Áhugi á klassískri tónlist og áhugi á klassískri tónlist,“ nefnir Viðar sem dæmi. „Þú elst upp við eitthvert „habitus“ sem birtist bæði með beinum hætti og síast óbeint inn sem eitthvað merkingarbært. Ég held að þetta sé mikilvægt í þessari umræðu. Eitthvað af þessum erjum og hatri gengur kynslóð frá kynslóð. Við tökum þetta frá einhverjum sem kom á undan okkur,“ segir hann og á þar sérstaklega við nágrannaslagi og viðureignir erkifjenda.

Viðar segir mikilvægt að líta til baka þegar kemur að því að útskýra hvers vegna nágrannaslagir eru álitnir svona mikilvægir. „Þetta er einhver hefð. Hún smitast til okkar með ákveðnum hætti, í gegnum foreldra okkar, í gegnum söguna, Twitter-síðu félagsins og stuðningsmannaklúbbinn. Við verðum félagsmótuð í að hata KR eða hata Hauka.“

KR-ingar fagna marki.
KR-ingar fagna marki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þessi tilfinning skapast vegna þess að einhver er í samkeppni við þig og vill taka af þér stöðuna þína. Hlutirnir fara að snúast um stolt, sjálfsmynd og montréttinn svokallaða. Vegna þess hve félagsleg þessi hegðun er skiptir það miklu máli bæði inn á við og út á við, útskýrir Viðar. „Ef við vinnum getur maður verið breiður og góður með sig. Lífið er bara gott og maður getur látið alla heyra það en ef það gengur illa er maður skotspónn grínsins og verður undir í baráttunni,“ segir hann. „Ég held að þetta byggi á alls konar félagslegum öflum en á endanum snýst þetta mikið um sjálfsmynd af því að þetta er alltaf samkeppnisaðilinn og erjurnar myndast í kringum hann.“

Leyfi frá samfélaginu til að missa sjálfstjórnina

Inntur eftir því hvað gerist innra með fólki, til dæmis þegar nágrannaslagir fara fram, og til hvaða hvata þeir höfða hjá fólki, segir Viðar að íþróttaáhugi byggi mikið á tilfinningum. Tilfinningasamband fólks við liðið sitt geti verið virkilega sterkt. „Það sem mér finnst magnað er hvernig fólk hegðar sér oft á leikjum þar sem það gjörsamlega missir sjálfsstjórn,“ segir hann og nefnir dæmi um mann sem alla jafna er dagfarsprúður en úthúðaði eitt sinn dómaranum og kallaði hann öllum illum nöfnum, eins og ekkert þætti eðlilegra.

Dómarar þurfa að vera við ýmsu búnir í leikjum.
Dómarar þurfa að vera við ýmsu búnir í leikjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta sýnir að vegna þess hve tilfinningasambandið við liðið er sterkt getur verið enn erfiðara en venjulega að stjórna tilfinningum sínum. „Eins og Marx segir þá fær almenningur tækifæri til að losa út þessa orku og þessar tilfinningar. Þú þarft að standa þig í vinnu og hjá fjölskyldunni en þarna er áherslan bara á leikinn og þú færð útrás. Þú færð leyfi til að blása út.“

Viðar segir kúltúrinn óeðlilegan að þessu leyti. Margir telji það í lagi að segja leikmönnum og dómurum til syndanna uppi í stúku, enda fái menn ákveðið leyfi frá samfélaginu til að hegða sér á þennan hátt. „Þegar það eru tilfinningar í spilinu í þessu félagslega samhengi þá ekki bara máttu, þú átt svolítið að hegða þér svona,“ bætir hann við og nefnir dæmi um að ef menn eiga að vera alvöru KR-ingar eiga þeir að hata Val. „Alveg eins og það er ætlast til þess að þú standir upp í stúkunni [á landsleikjum] og gerir „HÚH!“. Það er félagsleg pressa og félagslegt taumhald á þér. Í þessu samhengi, ef þú ætlar að vera hluti af hópnum í þessu heilaga sem eru íþróttafélagið og trúarbrögðin, þá þarftu að fylgja þeim helgisiðum sem þar eru.“

Fjölmiðlar ýta undir stemninguna

Fjölmiðlar eiga það einnig til að stilla leikjum upp eins og þeir séu mikilvægir í sögulegu samhengi, líkt og fyrir landsleiki Englands og Þýskalands í fótbolta, sem talað hefur verið um sem eins konar heimsstyrjaldir í breskum fjölmiðlum

Grein í breska blaðinu Daily Mirror fyrir leik Englands og …
Grein í breska blaðinu Daily Mirror fyrir leik Englands og Þýskalands á EM í fótbolta 1996.

„Það er gert mikið úr leikjum til að skapa eftirvæntingu og áhorf og það ýtir undir þessa stemningu á meðal stuðningsmanna um að þetta skiptir verulegu máli.“

Umfjöllunin getur verið mjög misjöfn eftir fjölmiðlum og fer það stundum eftir hagsmununum sem liggja að baki hjá fjölmiðlinum. Hann nefnir dæmi um rannsókn sem hann gerði á netmiðlum um bardaga Gunnars Nelsons í blönduðum bardagalistum, þar sem fréttirnar í kringum bardagann voru langflestar á visir.is, sem er hluti af Stöð 2 Sport sem sýndi einmitt bardagann. „Þetta er vara sem þeir voru að selja og þetta sýndi hvernig fjölmiðlar nýta sér það og búa til stemningu,“ bendir hann á.

Gunnar Nelson kallar ekki allt ömmu sína.
Gunnar Nelson kallar ekki allt ömmu sína. AFP

Þjappast saman við utanaðkomandi hættu

Annað sem Viðar nefnir er þegar utanaðkomandi hætta stafar að samfélögum eða hópum þá þéttist hópurinn og styrkist og myndar þannig sterkari heild. Dæmi um þetta er þegar Covid-19 lét fyrst til sín taka hérlendis. Þá stóð íslenska þjóðin einstaklega þétt saman. Sama má segja um harða gagnrýni á Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem bráðum hverfur úr embætti, og stuðningsmenn hans sem virtist bara styrkja stuðningsmennina enn frekar og þétta raðir þeirra. Í íþróttunum nefnir hann dæmi um þegar Valur verður Íslandsmeistari í fótbolta og Valsmenn fara að skjóta á nágranna sína í KR. Þá eflast KR-ingarnir, verða enn þá harðari stuðningsmenn og hata Valsmenn enn þá meira. „Íþróttirnar byggja á þessum montrétti. Þá þéttum við raðirnar og hötum hina alveg eins og Trumpararnir hata vinstri vænginn og vinstri vængurinn hatar Trumparana.“

Stuðningsmaður Donalds Trump fyrir framan Hvíta húsið um miðjan nóvember.
Stuðningsmaður Donalds Trump fyrir framan Hvíta húsið um miðjan nóvember. AFP

Útrásarvíkingar elskaðir en svo hataðir

Viðar lýsir því næst hvernig fólk heldur að árangur annarra smitist yfir á það. Nefnir hann dæmi um íslensku útrásarvíkingana og orðræðuna hér á landi fyrir bankahrunið um að við værum að sigra heiminn því Íslendingar væru svo frábærir. „Við fáum það alltaf á tilfinninguna að ef þeir eru að gera frábæra hluti eða landsliðið okkar þá er ég pínu frábær líka,“ greinir hann frá. Svona hegði fólk sér þrátt fyrir að koma kannski lítið sem ekkert nálægt þessum hlutum. „Við erum bara klan. Maður tilheyrir því og þá getur maður upphafið sjálfan sig á árangri liðsins síns. Ef þú ert með nágranna þá er hann alltaf sýnilegur. Þú hittir hann í búðinni og hann er á næsta leiti. Þá er svo mikilvægt að þú upphefjir þig á hans kostnað en hann ekki sig á þinn kostnað,“ heldur hann áfram.

Áhorfendur á leik Íslands og Grikklands á undankeppni EM í …
Áhorfendur á leik Íslands og Grikklands á undankeppni EM í handbolta árið 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sömuleiðis getur einhver einn leikur eða atvik í leik sett af stað sterku tilfinningarnar og félagslega aflið sem býr innra með fólki, sem getur orðið til þess að liðið eða leikmaðurinn er hataður um ókomna tíð. Þannig upplifa einhverjir þetta atvik mjög sterkt og breiða það út til annarra, þar á meðal barnanna sinna.

Varðandi útrásarvíkingana vildi enginn kannast við þá þegar allt fór niður á við í hruninu, að sögn Viðars, sem bendir á það sama í tengslum við íþróttalið. Áhorfendafjöldinn fari eftir því hvort liðinu gangi vel eða illa. „Ef það gengur ekki vel og ég nýt ekki alls þess sem það hefur í för með sér þá missi ég áhugann,“ segir hann. „Við viljum bara upplifa stoltið og vera betri en aðrir og ef það er ekki til staðar þá erum við ekkert að tjá okkur og viljum bara gera eitthvað annað.“

Kvennalið Vals og KR í baráttu um boltann.
Kvennalið Vals og KR í baráttu um boltann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar hlutirnir eru dregnir saman telur Viðar forsendurnar fyrir góðum nágrannaslag vera þær að liðin keppa á jafnréttisgrundvelli, þ.e. ekki er of langt á milli þeirra í getu. Þau eru staðsett á svipuðum stað og það er einhver söguleg tenging á milli þeirra. Sem sagt, skemmtiformúla sem á ekki að geta klikkað.

Þessi umfjöllun er hluti af meistaraverkefni í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

mbl.is