María og Ingvar elta drauminn erlendis

Hjólreiðar | 29. apríl 2023

Tvö að elta drauminn erlendis

María Ögn Guðmundsdóttir og Ingvar Ómarsson hafa lengi verið meðal fremsta hjólreiðafólks landsins. Dagskráin í sumar er þétt hjá þeim báðum og fjöldi hjólamóta á erlendri grundu fram undan, en þau geta bæði talist til íslenskra atvinnumanna í sportinu.

Tvö að elta drauminn erlendis

Hjólreiðar | 29. apríl 2023

María Ögn Guðmundsdóttir og Ingvar Ómarsson hafa lengi verið meðal fremsta hjólreiðafólks landsins. Dagskráin í sumar er þétt hjá þeim báðum og fjöldi hjólamóta á erlendri grundu fram undan, en þau geta bæði talist til íslenskra atvinnumanna í sportinu.

María Ögn Guðmundsdóttir og Ingvar Ómarsson hafa lengi verið meðal fremsta hjólreiðafólks landsins. Dagskráin í sumar er þétt hjá þeim báðum og fjöldi hjólamóta á erlendri grundu fram undan, en þau geta bæði talist til íslenskra atvinnumanna í sportinu.

María Ögn hóf í fyrra atvinnumannaferil sinn í hjólreiðum þegar hún fór á samning hjá franska atvinnuliðinu CDC-GT-liðinu (Cafe du Cycliste) og hóf að keppa í hinum ýmsu malarkeppnum undir merkjum liðsins. Hún byrjaði tímabilið í fyrra með miklum glæsibrag, en tæknivandamál og covid settu strik í reikninginn í nokkrum síðari keppnunum. Hún er með fjölda keppna á dagskrá í ár, meðal annars fjöldægra keppni í þjóðgarði í Kenýa, og ætlar að gefa sig alla í keppnirnar, en segir að á sama tíma verði hún ekki yngri.

Þegar blaðamaður náði tali af Maríu var hún stödd með liðinu sínu í Gíróna á Spáni, en núna á laugardaginn mun hún taka þar þátt í malarkeppninni Traka. Þetta eru ekki ótroðnar slóðir fyrir Maríu því hún hefur nokkrum sinnum áður tekið þátt í keppninni og í fyrra var þetta hennar fyrsta keppni með nýja liðinu. Segir hún að það hafi verið spennandi að mæta til leik og sjá hvernig færi og hvernig formið væri í keppni gegn öðrum sterkum stelpum. „Ég endaði svo í þriðja sæti spreyjandi kampavíni á pallinum,“ segir María og bætir við að það hafi verið rosalega góð tilfinning að ná strax árangri í fyrstu keppni, en Traka er meðal stærri malarhjólakeppna í Evrópu.

„Sturlaðslega skemmtilegt ár“

Í kjölfar þessa góða árangurs í fyrstu keppninni segir María að óheppnin hafi hins vegar farið að elta hana. Lenti hún meðal annars í tæknilegum vandræðum í einni keppni og svo fékk hún covid viku fyrir Rift keppnina hér á Íslandi í júlí. Á heimsmeistaramótinu var svo keyrt á afturskiptinn hennar í miðri keppni og þó hún hafi náð að klára var nokkuð erfitt að gera það á færri gírum. „Þetta var sturlaðslega skemmtilegt ár, en allskonar klúður í gangi,“ segir hún. Vegna áfallana segist hún hafa farið að velta fyrir sér hvort árið í fyrra yrði einhverskonar afsakanaár, en hún segir það þó hafa verið rosalega skemmtilegt og gefandi.

Samtals tók María þátt í fimm mótum með liðinu í fyrra, m.a. Unbound í Bandaríkjunum sem var samtals 330 kílómetrar. Til viðbótar tók hún þátt í Gravel Worlds-mótaröð í Nebraska í Bandaríkjunum, undir merkjum Lauf.

Æfinga- og keppnisárið er þegar hafið hjá Maríu, en hún fór strax í janúar með 40 konum á vegum hjólaappsins Komoot og ofurhjólakonunnar Lael Wilcox í viku hjólaferð um Kanaríeyjar með allt á hjólinu. Farið var á milli eyja og samtals hjólaðir 700 km með 13.000 metra hækkun. Auðvitað voru svo partí inn á milli og góð stemning að sögn Maríu, en leiðinni og dagskrá var hagað eftir veðri og vindum og aldrei ákveðið hvar gista ætti fyrr en í lok dags þegar skellt var upp tjaldbúðum. Í byrjun mars tók hún svo þátt í samblöndu af viðburði og keppni í Gíróna og um síðustu helgi var það Dirty Reiver malarkeppnin í Bretlandi, en það er ein stærsta slíka keppnin þar í landi. Þrátt fyrir vandræði tók María sig til og endaði í fjórða sæti þar.

Passar sig á sebrahestum

Eftir Traka um helgina er stefnan sett á úrtökumót fyrir HM eftir tvær vikur í Þýskalandi. Dagana 20.-23. júní er svo komið að einum af hápunktum ársins. Fjögurra daga keppni í Kenýa þar sem farið er um Masai Mara-þjóðgarðinn, en hjólað er í um 2.000 metra hæð, en hæst farið upp í 3.000 metra í stöku klifri. „Ég gæti í alvöru klesst á sebrahesta þarna,“ segir María í gamansömum tón, en starfsmenn á vegum þjóðgarðarins verða á staðnum til að bæja frá ljónum og hjörðum dýra sem ekki er ákjósanlegt að mæta á vegunum.

Þessi keppni er hluti af Gravel Earth-mótaröðinni sem komið var á fót af sömu skipuleggjendum og halda Traka. Þar er einnig að finna Riftið, Octapus-keppnina í Sviss, Bergslagen-keppnina í Svíþjóð, Nature bike-keppnina í Frakklandi og svo lokakeppnina sem fram fer í september á Spáni. María segir að fókusinn sé á þessa mótaröð í sumar þar sem liðið hennar horfi til Gravel Earth og þá hafi hún einnig verið fengin til að vera meðal andlita mótaraðarinnar. Því er planið að mæta einnig á ráslínuna í Riftinu og í lokakeppninni á Spáni.

María segir álagið í keppnum líklega meira í ár en í fyrra, en að hugmyndin hennar núna sé fyrst og fremst að njóta þess að hjóla og taka þátt í þessum ævintýrum og vera góð fyrirmynd. „Það þýðir ekki að ég muni ekki reyna mitt besta, en árangurinn liggur ekki endilega í hvaða sæti ég lendi,“ segir hún. „Ég er 43 ára og hinar stelpurnar í kringum mig eru 25 til 30 ára og ég hef alveg fundið það síðustu tvö árin að aldurinn er aðeins farinn að segja til sín,“ viðurkennir María.

Gleðin framar öðru

Hún segist hafa velt fyrir sér að fá sér þjálfara í vetur, en það væri í fyrsta skiptið á ferlinum sem hún myndi gera það. Hún hafi hins vegar ákveðið að hún væri ekki tilbúin að fórna mögulega ánægjunni við það að hjóla fyrir örlítið betri árangur. „Ég hjóla eins og mig langar til og gleðin er framar því að vera best í einhverjum æfingum.“ María tekur þó fram að hún muni áfram hjóla eins og hún eigi lífið að leysa í keppnum og hún skoði brautir vel fyrir hverja keppni.

Auk þess að æfa og keppa í ár ætlar María annars að hjóla enn meira, en hún verður að leiðsaga hjólaferðir á hálendinu í sumar „Það er heljarinnar hjólarí framundan,“ segir María hress.

Enn eitt stórt ár hjá Ingvari

Ingvar hefur undanfarin ár verið atvinnumaður í hjólreiðum og keppt víða erlendis. Um síðustu helgi vann hann sína fyrstu keppni erlendis í fimm ár þegar hann tók fyrsta sætið í Drity Reiver-malarkeppninni í Bretlandi, einni stærstu slíkri keppni Bretlands. Hann horfir í auknum mæli á malarhjólreiðar, en áherslan er þó enn um sinn á fjallahjólreiðarnar.

Fyrst var hann í cyclocross-keppnum og fjallahjólreiðum (XCO), en færði sig svo hægt og rólega meira og meira yfir í maraþonfjallahjólreiðar (XCM) og malarkeppnir í stað ólympískra fjallahjólreiða (XCO), þar sem styrkur hans er frekar í þoli en í stuttum sprengikrafti.

Hættur í XCO-keppnum

Hann segist nú alveg hættur við XCO-keppnir alþjóðlega þar sem sú grein kalli á gríðarlega skuldbindingu um þátttöku í öllum keppnum og þá hafi þær keppnir ekki skilað honum þeim árangri sem hann stefndi á. Maraþonkeppnirnar hafi hins vegar gengið betur. „Á einhverjum tímapunkti veltir maður fyrir sér hvort maður græði eitthvað á þessu og hvort þetta leiði til einhvers árangurs,“ segir Ingvar.

Eins og María Ögn verður Ingvar meðal þátttakenda í Traka-malarkeppninni á Spáni um helgina, en hann segist forvitinn um hvaða árangri hann geti náð í slíkum keppnum eftir niðurstöðuna í Dirty Reiver. Þá sé stefnan sett á belgíska maraþonkeppni í byrjun maí sem hann hefur áður tekið þátt í.

Almennt skipuleggur Ingvar hjólaárið þannig að fyrsta hlutann tekur hann úti í keppnum. Yfir hásumarið, í júní og júlí, er hann heima í götuhjólakeppnum, tímatöku og fjallahjólakeppnum, en um haustið fer hann svo aftur í erlendar keppnir. Engin breyting verður á því í ár að sögn Ingvars og reyndar virðast keppnirnar í sumar raðast þannig að hann ætti ekki að missa af neinni innlendri keppni. Ætti hann einnig að ná að taka þátt í Westfjords way challenge, fjögurra daga malarkeppni á Vestfjörðunum, í lok júlí.

Árangur er misverðmætur

Seinni hlutann er svo stefnan sett á heimsmeistaramótið í fjallahjólreiðum í Skotlandi og að ná fjórum maraþonkeppnum erlendis. „En það gæti líka verið eitthvert „gravel“,“ segir Ingvar. Ætlar hann að taka stöðuna þegar líður á sumarið og ákveða út frá því hvaða skref hann tekur, en talsverðu máli skiptir að taka þátt í UCI-keppnum sem gefa alþjóðleg stig undir merkjum alþjóðahjólreiðasambandsins UCI. Helgast það af því að Ingvar er á afrekslista ÍSÍ og segir hann að árangur sé misverðmætur.

Áður en hann færi fótinn meira yfir í mölina þurfi hann að vera viss um að afreksnefndin meti það til jafns við fjallahjólreiðarnar. Bendir hann á að þótt malarhjólreiðar séu vaxandi sport, þá séu fjallahjólreiðar hluti af Ólympíuleikum og með meiri hefð fyrir heimsmeistaramótum og heimsbikarmótum og þar með fastari sessi í öllu afreksstarfi. „En svo finnst mér XCM enn skemmtilegra en gravel,“ segir Ingvar.

Ingvar hefur sjálfur sagt að of hátt hitastig erlendis geti stundum reynst erfitt. En hefur slíkt áhrif á val hans á keppnum? „Já ég hef spáð í þessu og það er ástæða fyrir því að ég vel keppnir í byrjun sumars og um haust. Svo eru líka sumar af bestu keppnunum í október,“ segir Ingvar.

Eins og fyrr segir hefur áhersla Ingvars aðeins breyst undanfarið með aukinni áherslu á lengri þolgreinar. Segir hann að í dag finni hann vel að það henti sér betur að taka sex tíma í „tempói“ í malarkeppnum eða um fjórar klukkustundir rétt undir þröskuldi í maraþonfjallahjólreiðakeppnum frekar en að vera á fullu gasi og yfir þröskuldi í eina klukkustund í cyclocross eða ólympískum fjallahjólreiðum.

Spurður um markmið ársins segist hann vilja ná sínum besta árangri hingað til á HM í fjallahjólreiðum í Skotlandi. „Það eru líkur á að það séu aðstæður sem henta mér vel.“ Annað markmið um að vinna keppni erlendis er þegar í höfn. „Svo væri ég alveg til í að vera í topp 15 í Belgíu í maí,“ segir hann.

Mætir Valverde á laugardaginn

Ingvar er sjálfur 34 ára og segist á fínum aldri fyrir hjólasportið. Nefnir hann að helsti andstæðingurinn í Traka-malarkeppninni á laugardaginn sé fyrrverandi götuhjólaraheimsmeistarann Alejandro Valverde, sem sé orðinn 43 ára. Viðurkennir hann þó að mögulega sé hann kominn yfir bestu árin í styttri keppnum en honum líði núna betur en áður að hjóla í fjórar klukkustundir eða lengur. „Áhrifin sem ég finn af því að eldast eru að mig langar að hjóla fleiri klukkustundir og kílómetra og lengsti hjólatúr ársins er alltaf að verða lengri,“ segir hann en bætir við að hann muni ríghalda í það að vera keppnishjólari um ókomin ár. Segir hann að keppnirnar og það sem fylgi þeim auki ánægjuna fyrir sig í öllu sem tengist hjólreiðum. „Mig langar að vinna og keppa.“

Spurður hvort þjálfun sé eitthvað sem hann horfi til í auknum mæli á komandi árum segir hann það mögulegt. Hann er þegar með fingurna aðeins í þjálfun, en þegar keppnum fari að fækka horfi hann til þjálfunar og annarrar aðkomu að hjólreiðum. „Það væri synd og skömm ef maður setti ekki reynslu sína og þekkingu inn í sportið heima. Ég myndi ekki taka neitt af borðinu í þeim efnum.“

Frétt­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaðinu sem fylgdi Morg­un­blaðinu á föstu­dag­inn. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild í viðheng­inu sem fylg­ir frétt­inni.

mbl.is