Hætt að fara út úr húsi vegna dóttur sinnar

Hætt að fara út úr húsi vegna dóttur sinnar

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá móður sem hefur áhyggjur af dóttur sinni. 

Hætt að fara út úr húsi vegna dóttur sinnar

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur | 8. júní 2023

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá móður sem hefur áhyggjur af dóttur sinni. 

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá móður sem hefur áhyggjur af dóttur sinni. 

Sæl

Ég er 34 ára 3 barna móðir og yngsta barnið mitt, 9 ára dóttir mín er alveg límd við mig en sýnir ekki þessa sömu hegðun gagnvart pabba sínum. Ég má ekkert fara án hennar og verður hún óróleg ef ég er á annarri hæð en hún í húsinu okkar. Þetta hefur gert það að verkum að ég er alveg hætt að fara eitthvað án hennar, nenni ekki að taka slaginn við hana. Best ef ég er bara heima. Ertu með einhver ráð fyrir mig?

Kveðja, 

HL

Sæl

Lýsing þín inniheldur töluverð einkenni aðskilnaðarkvíða, þar sem barnið upplifir kvíða við það eitt að vera ekki með sínum nánustu (oftast foreldrar). Mikilvægt er að ræða við barnið, en ekki hunsa eða gera lítið úr áhyggjum þess. Spyrja það hvað það er sem það óttast að muni gerast, hvað er það versta sem gæti gerst ef mamma færi í tvo klukkutíma í saumaklúbb um kvöld? Forðun ýtir undir kvíða og viðheldur kvíðaeinkennum, því er það versta sem þú getur gert er að láta undan þ.e.a.s að fara ekki neitt án barnsins.

Barnið þarf að takast á við það sem veldur því kvíða, í smáum skrefum þó með því að brjóta skrefin niður og láta barnið æfa sig í hverju skrefi fyrir sig. Lokamarkmiðið gæti verið að vera ein heima með með stóru systur um kvöld í tvær klukkustundir án foreldra. En til þess að ná þessu lokamarkmiði þarf að búta skrefin niður, til dæmis getur fyrsta skrefið verið að vera ein heima að degi til með pabba í 15 mínútur á meðan mamma skreppur út í búð.  Þegar því skrefið er ná, er hægt að fara í næsta skref sem gæti verið að vera ein heima að degi til í 30 mínútur með pabba á meðan mamma fer í göngutúr.

Það getur verið gott að fara til sálfræðings til að fá ráðgjöf og meðferð varðandi aðskilnaðarkvíða, sérstaklega þegar einkennin eru orðin hamlandi eins og mér heyrist vera í ykkar tilfelli. Einnig getið þið leitað til skólans og fengið viðtal hjá skólasálfræðingi, sem myndi meta líðan barnsins og beina ykkur í viðeigandi úrræði. Þá er hægt að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðings á stofu. Ég mæli einnig með námskeiðinu „Hjálp fyrir kvíðin börn“ sem margar heilsugæslustöðvar á landinu eru farnar að bjóða upp á. Námskeiðið er fyrir foreldra sem eiga börn á aldrinum 6-12 ára sem sýna kvíðaeinkenni. Þar er farið vel í hvað kvíði er, helstu einkenni og hvernig á að hjálpa barninu að takast á við kvíða.

Gangi ykkur sem allra best!

Tinna Rut Torfadóttir, sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is