Matarfíkill sem býr heima hjá mömmu sinni leitar ráða

Matarfíkill sem býr heima hjá mömmu sinni leitar ráða

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún bréf frá manni sem glímir við mikla vanlíðan. Hann er með ADHD og á ekki vini. Hann býr ennþá hjá mömmu sinni og er matarfíkill.  

Matarfíkill sem býr heima hjá mömmu sinni leitar ráða

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur | 4. júlí 2023

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands. Ljósmynd/Samsett

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún bréf frá manni sem glímir við mikla vanlíðan. Hann er með ADHD og á ekki vini. Hann býr ennþá hjá mömmu sinni og er matarfíkill.  

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún bréf frá manni sem glímir við mikla vanlíðan. Hann er með ADHD og á ekki vini. Hann býr ennþá hjá mömmu sinni og er matarfíkill.  

Sæl. 

Ég er karlmaður sem hefur verið lagður í mikið einelti mest alla ævina. Ég bý enn með móður minni. Ég væri algjörlega ósjálfbjarga án hennar. Ég hef aldrei átt vini á ævinni. Ég hef verið með sjálfsvígshugsanir allt frá því ég var unglingur. Mér finnst ég einskis virði. Ég flosnaði frá námi vegna eineltis. Ég hætti jafnvel í framhaldsskóla vegna eineltisins. Ég er með ADHD eða athyglisbrest. Hugur minn fer oft á flakk. Enda hef ég lengi verið einmanna og búið til minn ímyndaða heim þar sem ég þrái vinsældir. Ég er matarfíkill og hef bætt verulega á mig. Ég á það til að vera algjör óhemja þegar ég borða. Ég er alltof þungur og oft með háan blóðþrýsting.

Ég hef reynt að eignast vini á netinu en þar sem ég er mjög umdeildur þá hef ég verið slaufaður nær allstaðar. Það hafa margir skammast sín að hafa verið vinir mínir. Flest þeirra vilja ekki þekkja mig né tala við mig í dag. Það forðast mig flestir. Ég er líka mjög ófélagslyndur. Mér finnst þægilegast að vera einn. Ástæðan af hverju ég var lengi fyrir einelti var út af framkommu minni og út af því að ég var aldrei neitt með háar einkannir í skóla og auðvitað útlitið mitt.

Foreldrar mínir hafa oft þurft að skammast sín út af mér. Enda hef ég oft fengið illt umtal um mig. Það særir þau að heyra það og hafa þau alla mína ævi þurft að verja mig en nú í dag á bara eina móður. Hún er sjálf að gefast upp á mér. Hún hefur oft óskar eftir því að ég hefði aldrei fæðst. Hún er allavega stoltari af yngri bróður mínum.  

Ég er miljónamæringur í dag. Enda er ég mjög sparsamur með peninga. Ég er að safna peningum til að búa mig undir dauða móður minnar. En eftir hennar dauða verður mér hent úr íbúðinni sem ég bý og settur á götuna. En bæði móðir mín og hálfsystir mín hafa oft hótað mér að það muni gerast eftir andlát móður minnar. Ég  er hræddur um að þau segja satt. Ég vil ekki búa í neinni félagíbúðarhverfi þar sem ég er mjög ófélagshæfur karlmaður. Frekar myndi ég drepa mig ef ég þyrfti að enda í slíku íbúð. Eða flytja burt frá Íslandi og lifa annarsstaðar því ég held oft að ég hefði aldrei átt að fæðast á  neikvæðasta landinu Íslandi þar sem veðrið er alltaf ógeðslega leiðinlegt og ískalt . 

Trúðu mér ég finn í þannig vinnu þar sem ég sé sjaldan til sólar og finn fyrir einhverju jákvæðu. Ég glímdi lengi við athyglissýki sem oft fór í taugarnar á sumu fólki. Ég veit að ég hefði átt að vera löngu farinn frá mömmu en hún er sjálf svo ósjálfbjarga þegar kemur að tölvutækni. Ég get stundum verið henni nytsamur og þá kann hún betur að meta mig.  Ég er enn í ofþyngd. Finn enn fyrir vonleysi og depurð. Ég er ekki lengur með sjálfsvígshugsanir. En ég finn samt fyrir þunglyndinu og eirðarleysinu og vonleysinu. Ég skammast mín enn útaf sjálfum mér.

Ég vildi að ég hefði aldrei fæðst. Mér finnst oft lífið mitt svo tilgangslaust. Einu áhugamálin mín eru að spila tölvuleiki því þá get ég auðveldlega horfið úr þessum ömurlega raunheimi í einhvern annan heim á meðan. Ég les oft svo neikvæðar fréttir í flestum fjölmiðlum. Ég veit að ég ætti að halda mig frá öllu neikvæðu en hvernig er það hægt í þessu þjóðlífi þegar allt er að fara til fjandans. Ég er samt ekki það áhrifagjarn að ég láti þessar neikvæðu fréttir hafa áhrif á mig. Ég hef enga framtíðarvon. Mér finnst ég bara týndur í kerfinu. Mér liður svona eins og ég sé vonlaus óþarfur aumingi  sem flestum er meinilla við. Ég hef fæðst á vitlausum tíma, vitlausum líkama og vitlausu landi.

Ég veit ekki lengur hver ég er í dag. Sennilega hefði ég aldrei átt að fæðast fyrst ég er svona svakalega vonlaus gæi. Ég er líka mjög feiminn þó ég sé með pínu athyglissýki. En það er af því að ég sárþrái vini. Vini sem ég get leitað til, talað við of skemmt mér með. Hvernig er það hægt þegar ég er svona hræðilega mikið einmanna og ófélagslyndur og finn alltaf fyrir skömm. Hvernig á ég að geta eignast vini þegar ég er svona svakalega umdeildur sem fær alla upp á móti sér fyrir það eitt að vera pirrandi leiðinlegur og svona mikill fávit sem enginn þolir?

Ástæðan af hverju ég fæ oft þessar sjálfsvígshvatir í hugann minn er af því að ég finn svo mikið fyrir skömm að vera ég og ég þoli ekki þetta einmannalega líf sem ég hef lengi þurft að sætta mig við alla mína ævi.  

Ég veit að ég hljóma mjög einkennilega og dularfullur en þannig er ég líka. Ég vill oft halda mér frá öðrum því ég á mjög erfitt með að tengjast öðrum persónulega. Ég vil oft halda mér bara við sjálfum mér. Ég veit að þetta hljómar mjög ruglingslega.

Kveðja, 

J

Sæll  & takk fyrir að hafa samband.

Lýsing þín hljómar eins og um margþættan vanda sé um að ræða sem á jafnvel rætur sínar að rekja til barnæsku. Ég hvet þig til þess að panta tíma hjá sálfræðingi á stofu og fá aðstoð við að kortleggja og greina betur vanda þinn, svo hægt sé að veita þér viðeigandi meðferð og vísa þér í rétt úrræði. Einnig getur þú pantað tíma hjá heimilislækni, fengið ráðgjöf hjá honum og beðið hann um að vísa þér í geðheilsuteymi heilsugæslustöðvanna.

Þú lýsir því að þú hafir alla tíð átt erfitt félagslega og nefnir einnig að þú sért greindur með ADHD, ég myndi láta sálfræðing skima fyrir einkennum einhverfu hjá þér. Einkenni einhverfu geta birst þannig að einstaklingar eiga erfitt félagslega, hafa slaka félagsfærni, hvet þig allavega til þess að láta sálfræðing útiloka einkenni á einhverfurófi.

Það gleður mig að heyra að þú sért í vinnu, því mikilvægt er að hafa eitthvað fyrir stafni og halda sér í virkni. Þá er einnig spurning hvort þú ættir að huga að því að standa á eigin fótum og flytja frá móður þinni, lýsing þín hljómar eins og hún hafi ekki góð áhrif á þína líðan. Mér heyrist þú hafa burði til þess fjárhagslega séð eins og staðan er. Þú nefnir þó að þú sért algjörlega ósjálfbjarga án móður þinnar, af hvaða leyti þá? Væri gott fyrir þig að íhuga það. Einstaklingar geta oft meira en þeir halda og að takast á við nýjar aðstæður eða breytingar reynir oft á tíðum á, en oft er það þannig að einstaklingar læra mest af reynslunni og að stíga út fyrir þægindarammann sinn. Einnig langar mig að hvetja þig til þess að auka við hreyfingu og reyna að minnka setuna fyrir framan skjáinn. Þá er einnig spurning hvort þú gætir reynt að rækta sambandið við bróður þinn, hitta hann oftar og skapa samverustundir með honum. Einnig hvet ég þig til þess að rækta hæfileika þína og fókusa á það jákvæða í þínu fari. Þú nefnir að þú sért stundum að semja tónlist og hvet ég þig til þess að halda því áfram, að sinna því sem þú hefur áhuga á og veitir þér ánægju.

Þá langar mig einnig til þess að benda þér á PEERS námskeið í félagsfærni fyrir ungt fólk á aldrinum 16-34 ára með félagslega erfiðleika, einhverfu, ADHD, kvíða og þunglyndi. Þú getur lesið nánar um námskeiðið á þessari vefslóð: Heim - PEERS (felagsfaerni.is) námskeiðið er einnig kennt í fjarkennslu.

Gangi þér sem allra best!

Kveðja, Tinna 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu póst HÉR. 

mbl.is