Segir gervigreind geta bætt skólastarf

Gervigreind | 22. júní 2023

Segir gervigreind geta bætt skólastarf

„Stóra myndin er sú að við verðum að læra á þetta og nota okkur til framdráttar,“ segir Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, um gervigreind. Telur hann tæknina geta bætt starfsemi og nám skólans.

Segir gervigreind geta bætt skólastarf

Gervigreind | 22. júní 2023

Karl Frímannsson, skólameistari MA, segir gervigreind boða breytingar á skólastarfi.
Karl Frímannsson, skólameistari MA, segir gervigreind boða breytingar á skólastarfi. Samsett mynd

„Stóra myndin er sú að við verðum að læra á þetta og nota okkur til framdráttar,“ segir Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, um gervigreind. Telur hann tæknina geta bætt starfsemi og nám skólans.

„Stóra myndin er sú að við verðum að læra á þetta og nota okkur til framdráttar,“ segir Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, um gervigreind. Telur hann tæknina geta bætt starfsemi og nám skólans.

Í ávarpi Karls við brautskráningu stúdenta MA um helgina gerði hann gervigreind að umtalsefni sínu. Hafði hann þá orð á því að tæknin boðaði breytingar á starfi skólans. Í samtali við mbl.is eru þau orð undirstrikuð.

Erfitt að sjá hver ritar

„Enn sem komið er hefur þetta lítil áhrif á framhaldsskólastarf,“ segir hann, en tekur þó fram að þrátt fyrir að áhrifin séu lítil, þá séu þau engu að síður til staðar. Megi þá helst nefna að kennarar séu farnir að verja miklum tíma í rýna í texta til að sjá hvort hann sé ritaður af gervigreind eða nemanda. „Í það á tími kennara náttúrulega ekki að fara,“ bætir hann við.

„Fyrst þegar þetta kom, þá var nú sagt að við gætum tekið texta og spurt gervigreindina hvort hún hefði skrifað hann, en það er ekki þannig,“ segir hann. Það geti því reynst kennurum mjög erfitt að greina hvort tæknin hafi verið notuð í verkefnum eða ekki.

„Það er nú hægt að skoða texta í gegnum hugbúnað sem heitir Turnitin,“ segir Karl og bætir við: „Að hluta til er hægt að skoða þar hvort textinn sé tekinn annars staðar frá, en það nær bara alls ekki yfir allt.“

Mikilvægt að geta heimilda

Spurður hvort skólinn hyggist grípa til einhverra aðgerða í tengslum við gervigreind segir hann: „Fyrsta skrefið okkar er að gera mjög ríka kröfu til nemenda um að geta heimilda ef þau biðja gervigreind um að skrifa.“

Hann leggur áherslu á að sé heimilda ekki getið þegar texti er tekinn annars staðar frá, þá sé ekki farið eftir reglunum. Það þurfi því stöðugt að brýna fyrir nemendum að vísa í heimildir.

Einstaklega gagnlegt verkfæri

Að mati Karls er hvað mikilvægast að samskipti nemenda og kennara séu góð þegar kemur að gervigreind. Segir hann starfsfólk skólans nú eiga í samtali við nemendur sem nýta sér tæknina og hafa margt af þeim að læra.

„Ég held að tæknin geti akkúrat bætt skólastarf og nám nemenda,“ segir Karl. Hann áréttar að gervigreind geti þjónað sem einstaklega gagnlegt verkfæri, bæði fyrir nemendur og kennara.

mbl.is