Musk stefnir OpenAI

Gervigreind | 2. mars 2024

Musk stefnir OpenAI

Tesla-auðkýfingurinn Elon Musk hefur stefnt tæknifyrirtækinu OpenAI á þeirri forsendu að forsvarsmenn þess hafi gengið á bak orða sinna miðað við hvað lagt var upp með við samningaborðið þegar Musk féllst á að koma að stofnun þess árið 2015.

Musk stefnir OpenAI

Gervigreind | 2. mars 2024

Elon Musk, stjórnarformaður Tesla og forstjóri SpaceX, hefur stefnt OpenAI …
Elon Musk, stjórnarformaður Tesla og forstjóri SpaceX, hefur stefnt OpenAI og telur fyrirtækið hafa vikið frá stofnsamningi frá 2015 sem var forsenda þátttöku hans í stofnuninni. AFP/Stefani Reynolds

Tesla-auðkýfingurinn Elon Musk hefur stefnt tæknifyrirtækinu OpenAI á þeirri forsendu að forsvarsmenn þess hafi gengið á bak orða sinna miðað við hvað lagt var upp með við samningaborðið þegar Musk féllst á að koma að stofnun þess árið 2015.

Tesla-auðkýfingurinn Elon Musk hefur stefnt tæknifyrirtækinu OpenAI á þeirri forsendu að forsvarsmenn þess hafi gengið á bak orða sinna miðað við hvað lagt var upp með við samningaborðið þegar Musk féllst á að koma að stofnun þess árið 2015.

Einnig stefnir Musk forstjóra OpenAI, Sam Altman, og segir meðal annars í stefnunni að fyrirtækið hafi horfið frá þeirri stefnu sinni að vera óhagnaðardrifið. Í stað þess að reyna að „koma mannkyninu til góða“, svo sem stofnmarkmiðið hafi verið, snúist starfsemi OpenAI nú fyrst og fremst um að afla Microsoft, höfuðfjárfestinum á bak við OpenAI, hámarksgróða.

Tilgangur OpenAI var frá upphafi að þróa gervigreindarforrit sem væri fært um að leysa öll þau verkefni af hólmi sem manneskju er kleift. Þá var lagt upp með að fyrirtækið yrði óhagnaðardrifið.

OpenAI hverfi aftur að fyrri stefnu

Musk lagði stefnuna fram við dómstól í San Francisco og segir í henni að framangreint hafi verið forsenda þess að hann ákvað að stofna OpenAI með Altman og Greg Brockman. Musk yfirgaf fyrirtækið þremur árum síðar.

„Mál þetta er höfðað í því augnamiði að knýja OpenAI til að hverfa aftur að þeirri stefnu sinni samkvæmt stofnsamningi, að þróa gervigreind mannkyninu til gagns, ekki til að gagnast stefndu persónulega ásamt stærsta tæknifyrirtæki heims,“ segir í stefnunni.

Leggur Musk stefnuna fram í kjölfar umfjöllunar dagblaðsins Wall Street Journal á miðvikudaginn þar sem þeirri spurningu var velt upp hvort fjárfestar hefðu verið blekktir í gervigreindarævintýri OpenAI og vísaði þar til uppákomu á stjórnarfundi í nóvember þegar Altman var vísað úr stjórninni en svo tekinn inn í hana á ný nokkrum dögum síðar.

Með miklar áhyggjur á X

Lá stjórnin forstjóranum á hálsi fyrir að koma ekki hreint fram í samskiptum og kvaðst í framhaldinu hafa „misst trúna“ á leiðtogahæfileika hans. Risu í kjölfarið deilur sem Microsoft dróst inn í og bauð tæknirisinn þá hverjum þeim starfsmanni, sem kysi að láta af störfum hjá OpenAI, starf á sömu launum og viðkomandi hefði notið hjá OpenAI.

Um þetta leyti viðraði Musk áhyggjur sínar á samfélagsmiðlinum X og kvað þær miklar en í stefnunni sem hann nú hefur lagt fram segir að ítök Microsoft í ranni OpenAI séu orðin veruleg svo sem sjá megi af gangi mála síðustu mánuði.

Microsoft lagði einn milljarð bandaríkjadala í OpenAI árið 2019 í kjölfar tilkynningar hins síðarnefnda um að það hefði tekið upp svokallað „capped profit“-fyrirkomulag sem fer bil beggja milli þess að vera drifið af gróða eður ei.

BBC

mbl.is