Öryggisráðið krefst tafarlauss vopnahlés

Ísrael/Palestína | 25. mars 2024

Öryggisráðið krefst tafarlauss vopnahlés

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti rétt í þessu ályktun þar sem farið er fram á „tafarlaust vopnahlé“ í Gasa. Tillagan kom í kjölfar þess að Bandaríkin virtust hafa dregið úr einörðum stuðningi sínum við Ísrael.

Öryggisráðið krefst tafarlauss vopnahlés

Ísrael/Palestína | 25. mars 2024

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti rétt í þessu ályktun þar sem farið er fram á „tafarlaust vopnahlé“ í Gasa. Tillagan kom í kjölfar þess að Bandaríkin virtust hafa dregið úr einörðum stuðningi sínum við Ísrael.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti rétt í þessu ályktun þar sem farið er fram á „tafarlaust vopnahlé“ í Gasa. Tillagan kom í kjölfar þess að Bandaríkin virtust hafa dregið úr einörðum stuðningi sínum við Ísrael.

Þess sáust merki á föstudag, þegar Bandaríkin settu fram tillögu þar sem viðurkenna átti mikilvægi „tafarlauss og viðvarandi vopnahlés“.

Tillöguna stöðvuðu bæði Rússland og Kína með neitunarvaldi sínu, sem ásamt arabaríkjum gagnrýndu tillöguna fyrir að ganga ekki nógu langt í að krefjast þess að Ísrael linnti hernaði sínum í Gasa.

Öllum gíslum verði sleppt úr haldi

Í nýju tillögunni er krafist tafarlauss vopnahlés nú þegar Ramadan, heilagur mánuður múslima, stendur yfir. Það muni svo leiða til viðvarandi vopnahlés.

Einnig er þess krafist að öllum gíslum verði sleppt úr haldi, án nokkurra skilyrða eða tafa, ásamt því að öllum hindrunum gegn mannúðaraðstoð verði rutt úr vegi.

Á bak við tillöguna voru þau ríki ráðsins sem ekki eiga þar fast sæti, en þau áttu í viðræðum við Bandaríkin um helgina til að koma í veg fyrir að þau beittu neitunarvaldi sínu, að því er heimildir fréttaveitunnar AFP herma.

Allra augu hvíldu á sendiherra Bandaríkjanna, Lindu Thomas-Greenfield, eftir að …
Allra augu hvíldu á sendiherra Bandaríkjanna, Lindu Thomas-Greenfield, eftir að öll önnur ríki höfðu greitt með tillögunni. Að þessu sinni beitti hún ekki neitunarvaldi Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkin ítrekað hindrað fyrri tillögur

„Við búumst við, nema eitthvað gerist á síðustu stundu, að tillagan verði samþykkt og að Bandaríkin muni ekki kjósa gegn henni,“ hafði AFP eftir einum stjórnarerindreka sem kunnugur var viðræðunum.

Bandaríkin hafa ítrekað komið í veg fyrir að tillögur um vopnahlé séu samþykktar. Reynir ríkisstjórnin að feta þröngan veg, þar sem hún styður Ísrael með hernaðaraðstoð en lýsir vonbrigðum sínum með forsætisráðherrann Benjamín Netanjahú, á sama tíma og þeim borgurum fjölgar sífellt sem látist hafa í Gasa.

Í tillögunni eru einnig fordæmdar „allar árásir á borgara og borgaralega hluti, auk alls ofbeldis og ófriðs gegn borgurum, og allra hryðjuverka“.

Linda Thomas-Greenfield gaf að lokum merki um hjásetu Bandaríkjanna.
Linda Thomas-Greenfield gaf að lokum merki um hjásetu Bandaríkjanna. AFP

Fjórtán kusu með tillögunni

Svo fór að fjórtán ríki ráðsins kusu með tillögunni. Bandaríkin kusu ekki gegn henni heldur sátu hjá. Tillagan var því samþykkt.

Um leið tók við mikið lófatak, sem óvenjulegt þykir í þessum salarkynnum.

Uppfært:

mbl.is