Frambjóðendur svara: Arnar Þór Jónsson

Forsetakosningar 2024 | 20. maí 2024

Frambjóðendur svara: Arnar Þór Jónsson

Arnar Þór Jónsson, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segir að hann sé góður hlustandi og treysti sér til þess að taka ákvarðanir út frá því sem hann telur réttast á grundvelli laga og réttar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. 

Frambjóðendur svara: Arnar Þór Jónsson

Forsetakosningar 2024 | 20. maí 2024

Arnar Þór Jónsson.
Arnar Þór Jónsson. mbl.is/Eyþór

Arnar Þór Jónsson, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segir að hann sé góður hlustandi og treysti sér til þess að taka ákvarðanir út frá því sem hann telur réttast á grundvelli laga og réttar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. 

Arnar Þór Jónsson, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segir að hann sé góður hlustandi og treysti sér til þess að taka ákvarðanir út frá því sem hann telur réttast á grundvelli laga og réttar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. 

Það mik­il­væg­asta við embætti for­seta Íslands að mati Arnars Þórs er að forsetinn standi vörð um stjórnarskrá lýðveldisins, lýðveldis stjórnarformið og lýðræðislega stjórnarhætti. Hann sér fyrir sér að forsetinn geti valdeflt Íslendinga til að hvetja þá til að nýta styrkleika sína betur. 

Morg­un­blaðið gef­ur öll­um fram­bjóðend­um tæki­færi til að svara sjö spurn­ing­um og birt­ir svör hvers fyr­ir sig á mbl.is. Svör­um fram­bjóðend­anna verður síðan safnað og þau birt í Morg­un­blaðinu svo les­end­ur geti hag­an­lega borið þau sam­an.

Íslend­ing­ar ganga að kjör­borðinu 1. júní og kjósa sér sjö­unda for­seta lýðveld­is­ins. Morg­un­blaðið og mbl.is fylgj­ast vel með og færa ykk­ur helstu frétt­ir af kosn­inga­bar­átt­unni.

Hér á eft­ir fara svör Arnars Þórs við spurn­ing­um mbl.is og Morg­un­blaðsins:

Arnar Þór er einn þeirra tólf sem bjóða sig fram …
Arnar Þór er einn þeirra tólf sem bjóða sig fram í embætti for­seta Íslands í kom­andi for­seta­kosn­ing­um. mbl.is/Eyþór

Hvað finnst þér mik­il­væg­ast við embætti for­seta Íslands?

„Forseti er þjóðhöfðingi. Forseti hefur og ber ábyrgð sem slíkur, inn á við og út á við. Forsetinn er þjónn fólksins í landinu og tengiliður fólksins í landinu og rödd þess gagnvart ríkisstjórn, gagnvart Alþingi, ríkisstjórn og öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Forsetinn á að standa vörð um stjórnarskrá lýðveldisins, lýðveldis stjórnarformið og lýðræðislega stjórnarhætti. Ég sé fyrir mér að forseti geti valdeflt Íslendinga til að hvetja þá til að nýta styrkleika sína betur.“

Hvað hef­ur þú helst fram að færa til embætt­is­ins um­fram aðra fram­bjóðend­ur?

„Ég er löglærður og þekki stjórnskipun Íslands vel. Ég hef unnið inn í stjórnkerfinu og þekki innviði þess vel. Ég hef starfað bæði inni á Alþingi, í dómstólakerfi og í stjórnsýslunni. Sú reynsla getur komið að góðum notum þegar á reynir. Sem dómari hef ég þjálfast í að horfa á mál frá öllum hliðum áður en ákvörðun er tekin. Ég er góður hlustandi og treysti mér til þess að taka ákvarðanir út frá því sem ég tel réttast á grundvelli laga og réttar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.“

Á maki for­seta að hafa form­lega, launaða stöðu?

„Hlutverk maka er fyrst og fremst að vera til staðar og styðjandi við forseta, það er að segja ef forseti á maka. Ef að það er ætlast til þess að maki forseta sé á einhvern hátt staðgengill forseta væri ekki óeðlilegt að maki fái laun í samræmi við það. En að öðru leyti þætti mér skrítið að maki væri á launum fyrir það eitt að vera þarna. Ég held að það sé best að þetta sé ekki ákvörðun forseta að taka heldur Alþingis sem fer með fjárveitingarvaldið.“

Á for­seti að vera virk­ur þátt­tak­andi í þjóðmá­laum­ræðu?

„Nei, ekki frá degi til dags en hann hefur málfrelsi eins og aðrir landsmenn og má tjá sig og gæti beinlínis verið skylt að að tjá sig um brýnustu mál og stærstu hagsmunamál þjóðarinnar. Sérstaklega ef að sú tjáning miðar að því að verja undirstöður lýðveldisins og hagsmuni almennings í landinu.“

Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lög­um staðfest­ing­ar: rök stjórn­ar­and­stöðu, mót­mæli, ráðgjöf eða eig­in dómgreind?

„Það sem vegur þyngst í þessu eru efnisatriði frumvarpsins sjálf, það er hvort frumvarpið brjóti gegn stjórnarskrá, mannréttindum, feli í sér að verið sé að afsala landi eða leggja kvaðir á íslenskt land eða landhelgi. 

Við ákvörðun eins og þessa ber forseta að vega og meta allar röksemdir sem málið varða og auðvitað hlusta líka eftir því sem að almenningur í landinu kallar eftir, því að forseti starfar í umboði almennings og ekki í tómarúmi. Leggja þarf öll rök og sjónarmið á vogarskálarnar áður en ákvörðun er tekin.“

Hver eru brýn­ustu viðfangs­efni Íslend­inga nú og hvað hef­ur for­seti til þeirra mála að leggja?

„Brýnustu viðfangsefni Íslendinga nú eru að standa vörð um auðlindir landsins þannig að þær þjóni þeim sem að hér búa og vernda Íslenska náttúru, vernda tungumálið, verja tjáningarfrelsið, verjast ofríki og valdboði, halda á lofti kyndli frjálslyndis og umburðarlyndis . Forseti á að láta allt þetta sig varða.“

Hver er hæfi­leg­ur tími í embætti fyr­ir for­seta?

„Ég myndi halda að það væru átta, í mesta lagi 12 ár. Mannkynssagan kennir okkur að valdið getur spillt jafnvel frómustu mönnum.“

mbl.is