Greiddi með peningaseðli með mynd af Bush

Peningaseðillinn með mynd af Bush og mótmælaskiltum við Hvíta húsið.
Peningaseðillinn með mynd af Bush og mótmælaskiltum við Hvíta húsið. AP

Lögregla í Bandaríkjunum leitar nú að manni, sem greiddi fyrir matvöru með fölsuðum 200 dala seðli með mynd af George W. Bush, Bandaríkjaforseta. Afgreiðslumaður tók við seðlinum án athugasemda, en á bakhlið seðilsins er mynd af Hvíta húsinu og á lóð þess eru nokkur spjöld með áletrunum á borð við: Okkur þykir góður ís; og: Bandaríkjamenn eiga skilið að skattar lækki.

Á framhlið seðilsins stendur að um sé að ræða „siðferðilega löglegan gjaldmiðil" og einnig eru falsaðar undirskriftir Bush og Ronalds Reagans, fyrrum forseta.

Vörurnar, sem þessi frumlegi falsari keypti, kostuðu 150 dali, jafnvirði um 13.500 krónur, í versluninni Food Lion í Roanoke Rapids í Norður-Karólínu.

mbl.is