Kofi Annan: Efna þarf loforð um aðgerðir gegn alnæmi

Aðgerðasinnar í Bangkok bera kröfuspjöld þar sem kallað er eftir …
Aðgerðasinnar í Bangkok bera kröfuspjöld þar sem kallað er eftir tafarlausum aðgerðum til að berjast gegn útbreiðslu alnæmis í heiminum. AP

Ríkisstjórnir um heim allan þurfa að standa við loforð sín um að leggja meira á sig til að berjast gegn alnæmi að því er fram komi í máli Kofi Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna (SÞ) á fimmtándu alþjóðlegu ráðstefnunni um alnæmi er sett var í Bangkok í Taílandi í dag. Ríkisstjórnir víða um heim hafa svikið loforð um að veita auknu fjármagni í baráttuna gegn alnæmi, að því er aðgerðasinnar segja.

Í ræðu Annans kom fram að mörg lönd hefðu sent heilbrigðismálaráðherra sína á ráðstefnuna, en baráttan gegn HIV-veirunni þarfnaðist krafta allra ráðherra. Fara þarf með málið á æðstu staði, að því er Annan sagði.

„Alnæmi er miklu meira en heilbrigðisvandamál. Það ógnar allri þróun,“ sagði Annan. „Forysta felur í sér að ganga á undan með góðu fordæmi,“ bætti hann við.

Á 23 árum hafa meira en 20 milljónir manna látist af völdum alnæmis. Talið er að um 38 milljónir manna séu haldnir sjúkdómnum í dag. Næstum fimm milljón ný tilfelli alnæmis greindust í fyrra og hafa þau aldrei verið fleiri á einu ári. Leiðtogar baráttunnar gegn alnæmi hafa bent á að nauðsynlegt sé að bregðast strax við vandanum, ef ekki eigi að hljótast alvarlega afleiðingar af.

Varað við alvarlegum alnæmisvanda í Asíu

Æ fleiri konur greinast með alnæmi, en þrátt fyrir þetta hefur þriðjungur landa í heiminum ekki gripið til ráðstafana til þess að tryggja konum aðgengi að forvörnum fyrir sjúkdómnum og umönnun, að því er fram kom í ræðu Annans.

Sérfræðingar hafa varað við því að alnæmisvandamálið i Asíu, eigi eftir að verða meira en þar sem ástandið er nú verst, sunnan Sahara í Afríku. Í löndum á borð við Svasíland og Botswana eru um 40% íbúa taldir smitaðir af alnæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert