Læknar án landamæra hörfa frá Afganistan vegna skorts á öryggi

Starfsmaður Lækna án landamæra sést hér fara út úr höfuðstöðvum …
Starfsmaður Lækna án landamæra sést hér fara út úr höfuðstöðvum samtakanna í Kabúl í dag. AP

Samtökin læknar án landamæra, MSF, tilkynntu í dag að þau hefðu ákveðið að hörfa frá Afganistan eftir að hafa starfað þar í 24 ár. Samtökin saka stjórnvöld í landinu um sífellt lakara ástand öryggismála þegar nokkrar vikur eru til forsetakosninga. Þá saka MSF Bandaríkin og bandamenn um að beita mannúðaraðstoð í pólitískum tilgangi.

Samtökin, sem stunda hjálparstarf á mörgum þeim stöðum þar sem hvað verst hafa orðið úti í stríðsátökum, segja í yfirlýsingu í dag að lélegt ástand öryggismála sé þannig að nánast ógerningur sé að veita afgönsku þjóðinni aðstoð. Starfsmenn samtakanna hafa verið drepnir, þeim hótað og þurft að þola öryggisleysi.

Fimm hjálparstarfsmenn á vegum MSF voru drepnir í fyrirfram ákveðinni árás í Badghis-héraði 2. júní sl. Það svæði hafði verið úrskurðað öruggt. Samtökin segja ríkisstjórn Afganistans ekki hafa framkvæmt trúverðuga rannsókn á árásinni sem og hótunum um frekari árásir í framtíðinni.

Talsmaður talibana, sem lýstu yfir ábyrgð á árásinni, sakaði liðsmenn MSF um njósnir í þágu Bandaríkjahers og sagði að vígamenn myndu halda áfram árásum á samtökin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert