Indverjar afþakka erlenda neyðarhjálp

Indversk stjórnvöld hafa afþakkað erlenda neyðarhjálp og segjast vera í stakk búin til að leggja fórnarlömbum flóðbylgjunnar, sem skall á suðvesturhluta landsins á sunnudag, lið.

Að sögn indversks embættismanns, sem vildi ekki láta nafns síns getið, hafa ríki á borð við Rússland, Bandaríkin, Ísrael og Japan boðið Indverjum aðstoð. „Raunar hafa allar vinaþjóðir okkar boðið fram aðstoð sína en við teljum að við séum í stakk búnir til að takast á við ástandið. Ef við teljum síðar, að við þurfum á aðstoð að halda munum við biðja um hana," sagði hann.

Embættismaðurinn sagði að Indverjar hefðu raunar þegar sent hjálpargögn til Sri Lanka og Maldíveyja og það hefði ekki verið unnt ef skortur væri á hjálpargögnum á Indlandi.

Indversk stjórnvöld segjast hafa sent herskip, þyrlur og flugvélar með matvæli, lyf og ábreiður til Sri Lanka og Maldíveyja og einnig hafa Indverjar heitið að leggja fram um 23 milljónir dala til hjálparstarfsins þar.

Embættismaðurinn sagði, að Indverjar hefðu ekki þegið alþjóðlega hjálp vegna þess að afleiðingar náttúruhamfaranna á sunnudag væru ekki jafn gríðarlegar of afleiðingar jarðskjálftans, sem reið yfir Gujarathérað árið 2001 en þá létu yfir 20 þúsund manns lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert