Endurkomusigur Íslandsmeistaranna

Anita Lind Daníelsdóttir með boltann í leik liðanna árið 2022.
Anita Lind Daníelsdóttir með boltann í leik liðanna árið 2022. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur hafði betur gegn Keflavík, 2:1, í 4. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í Keflavík í kvöld.

Valskonur hafa þar með unnið fjóra fyrstu leiki sína og deila toppsætinu með Breiðabliki, með 12 stig. Keflavík situr hins vegar eftir án stiga á botni deildarinnar.

Keflavík komst yfir með marki Elfu Karenar Magnúsdóttur áður en Fanndís Friðriksdóttir og Nadía Atladóttir sneru taflinu við fyrir Íslandsmeistarana.

Valur er áfram með fullt hús stiga í öðru sæti á meðan Keflavík vermir botninn án stiga.

Valskonur byrjuðu betur og strax á 8. mínútu kom Nadía Atladóttir Val yfir en markið var svo dæmt af vegna rangstöðu.

Heimakonur unnu sig svo meira inn í leikinn og fengu dauðafæri á 13. mínútu þegar Saorla Miller fékk boltann hægra megin í teignum, keyrði á varnarmann og átti skot sem Fanney Inga varði vel í markinu. 

Leiðinlegt atvik átti sér stað fimm mínútum síðar þegar föst sending leikmanns Keflavíkur small í andliti Jasmínar Erlu Ingadóttur. Jasmín fékk aðhlynningu og hélt svo leik áfram. En á 28. mínútu var ákveðið að skipta Jasmín af velli enda var þetta talsvert högg.

Við þetta dró úr krafti Valsara og Keflvíkingar sóttu í sig veðrið. Á 34.mínútu komst Keflavík yfir og markið var ansi skrautlegt.

Elfa Karen Magnúsdóttir, leikmaður Keflavíkur fékk fasta sendingu vinstra megin í vítateig Valsara. Elfa náði boltanum við endamörk og sendi boltann eiginlega blindandi inn í teig. Aðeins Valsarar voru við markið og einhvern veginn greip Fanney Inga boltann en missir hann svo yfir línuna, frekar slysalegt en það telur. 1:0 fyrir Keflavík og nokkuð verðskuldað.

Keflvíkingar héldu svo áfram að ógna marki Vals og leiddu með einu marki í hálfleik

Í seinni hálfleik sóttu Valskonur í sig veðrið og þær sýndu mátt sinn og megin með því að skora tvö mörk með stuttu millibili. Fyrst var það Fanndís Friðriksdóttir með skoti utan teigs sem fór í gegnum þvögu og inn í markið á 55. mínútu, 1:1.

Fimm mínútum síðar var staðan orðin 2:1 fyrir Val. Eftir mistök Keflvíkinga við að koma boltanum úr þvögu við vítateiginn barst boltinn á Katie Cousins, leikmann Vals, sem kom boltanum til hægri á Nadíu sem var ein á auðum sjó hægra megin í teignum. Nadía keyrði að markinu og skoraði örugglega í fjærhornið framhjá Veru Varis.

Bæði lið skiptust á að sækja í kjölfarið en lítið var um dauðafæri. Í blálokin átti Elianna Beard, leikmaður Keflavíkur, skot utan teigs rétt framhjá fjærstöng. Þarna var Keflavík svo nálægt því að jafna en allt kom fyrir ekki og Valskonur fóru með öflugan sigur af hólmi.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Keflavík 1:2 Valur opna loka
90. mín. Anita Bergrán Eyjólfsdóttir (Keflavík) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert