Ekkert á Íslandi sem kemst nálægt þessu

Agnar Smári ræðir við mbl.is í gær.
Agnar Smári ræðir við mbl.is í gær. mbl.is/Óttar

Agnar Smári Jónsson átti flottan leik fyrir Val er liðið vann Olympiacos frá Grikklandi, 30:26, í fyrri leik liðanna í úrslitum Evrópubikarsins í handbolta í gær. Hann var kátur í viðtali við mbl.is eftir leik.

„Þetta var ógeðslega gaman. Ég er stoltur af liðinu mínu, stoltur af teyminu og fólkinu sem mætti sem og fólkinu sem komst ekki en er að styðja okkur. Þetta var einstök stund en það er bara hálfleikur. Við erum fjórum yfir í hálfleik og það er verðugt verkefni eftir viku,“ sagði hann.

„Mér líður aldrei illa í leikjum. Mér leið fáránlega vel og ég hef trú á þessu fáránlega góða liði sem ég er í. Við gerum hvern annan ógeðslega góða,“ bætti Agnar við.

Stemningin á Hlíðarenda í kvöld var engu lík og Agnar naut þess gríðarlega og var þakklátur fyrir óeigingjarnt starf margra sem hafa komið að Evrópuævintýri Vals á tímabilinu.

Agnar í viðtali við mbl.is í gær.
Agnar í viðtali við mbl.is í gær. mbl.is/Óttar

„Þetta var einstakt og það er ekkert á Íslandi sem kemst nálægt þessu. Klukkutímarnir sem eru búnir að fara í þetta hjá sjálfboðaliðum, fólki sem er ekki að fá krónu fyrir, eru óendanlegir. Það var sturluð stemning og sturluð umgjörð. Það er geggjað að fá þetta sem síðasta heimaleikinn á þessari leiktíð.“

Liðin mætast aftur í Aþenu eftir viku á erfiðum heimavelli gríska liðsins.

„Þetta eru hörkuleikmenn sem hittu ekki endilega vel á það í dag. Nú þurfum við að setjast niður og sjá hvað við getum gert betur og hvað við þurfum að gera til að loka á þá. Við hugsum vel um okkur og erum tilbúnir í einhverja geðveiki úti í Grikklandi,“ sagði Agnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert