SÞ telja að um 150.000 manns hafi farist á flóðasvæðum í Asíu

Konur í Tamil Nadu á Indlandi drekka vatn sem alþjþóðlegar …
Konur í Tamil Nadu á Indlandi drekka vatn sem alþjþóðlegar hjálparstofnanir hafa sent þangað.. AP

Uppbyggingarstarf á hamfarasvæðunum í Asíu, þar sem jarðskjálftar og flóðbylgjur urðu annan dag jóla, gæti tekið allt að 10 ár, að því er Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ) segir. Annan sagði að hjálparstarf á hamfarasvæðinu væri„afar flókið“ en það nær til allmargra þjóða. SÞ vara við því að sennilega hafi meira en 150.000 manns farist á hamfarasvæðunum og aldrei verði ljóst hversu margir létust þar.

Hjálpargögn eru nú víða að hlaðast upp í birgðageymslum í þeim löndum sem urðu fyrir tjóni af völdum hamfaranna, en á sumum svæðum hafa miklar rigningar hindrað hjálparstarf. Annan mun halda til Indónesíu 6. janúar og taka þar þátt í fundi þjóðarleiðtoga, en þar á að ræða frekara hjálparstarf á hamfarasvæðunum.

Fólk sem lifði af hamfarirnar fyrir um viku síðan er enn að gefa sig fram, að því er fram kemur í frétt BBC. Staðfest hefur verið að 124.000 manns hið minnsta, fórust af völdum hamfaranna. Flestir fórust í Aceh héraði í Indónesíu.

Þá hyggur Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á ferð til Asíu í dag til þess að sjá með eigin augum þann skaða sem hlutust af völdum flóðbylgnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert