Neyðaraðstoðar þörf á hamfarasvæðum næsta hálfa árið

Tjöld sem sett hafa verið upp fyrir fólk sem missti …
Tjöld sem sett hafa verið upp fyrir fólk sem missti heimili sín af völdum flóðbylgna í Phuket á Taílandi. AP

Neyðaraðstoðar verður þörf á hamfarasvæðunum í Asíu í að minnsta kosti hálft ár, að því er Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) skýrðu frá í dag. Samtökin bentu á að endurreisnarstarf myndi hins vegar taka mun lengri tíma. Anupama Rao Singh, yfirmaður Barnahjálpar SÞ (Unicef) í Austur-Asíu, sagði að nú væri mikilvægast að halda fórnarlömbunum á lífi og byggja á ný upp grundvallarstofnanir líkt og skóla og heilsugæslustöðvar. „Bráðaaðstoðar verður þörf næstu 6 til 9 mánuðina,“ sagði Singh við blaðamenn á fundi sem Unicef og Matvælaaðstoð SÞ (WFP) héldu sameiginlega í Bangkok.

Singh varaði við því að allt að sex mánuði gæti tekið að ná til þeirra tveggja milljóna manna sem liðu skort eftir hamfarirnar.

Vannæring og sjúkdómar sem leiða til frekari dauðsfalla eftir jarðskjálftana og flóðin er stærsta áhyggjuefni SÞ næstu mánuðina, að því er Singh sagði. Hún benti á að uppbygging félags- og efnahagskerfa landanna sem urðu illa úti í hamförunum tæki þó mun lengri tíma. „Við sjáum fyrir okkur að minnsta kosti tvö til þrjú ár, jafnvel lengri tíma, allt eftir því hversu mikil eyðileggingin er,“ sagði Singh. Hún bætti við að minnsta kosti ein milljón barna væri illa stödd eftir hamfarirnar.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, hefur áður sagt að uppbyggingarstarf geti tekið allt að 10 ár.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að hann byggist við því að bresk stjórnvöld muni leggja milljónir dala til hjálpar- og uppbyggingarstarfsins áður en yfir lýkur.

Alls hafa um 146.000 dauðsföll verið staðfest eftir hamfarirnar í Indlandshafi en starfsmenn hjálparstofnana sögðust í gær búast við því að tala látinna á hamfarasvæðunum í Indónesíu myndi hækka um tugi þúsunda vegna þess að ástandið á vesturströnd eyjunnar Súmötru væri miklu verra en talið var.

Myndir Sverris Vilhelmssonar frá Taílandi

Kona frá Aceh héraði í Indónesíu í flóttamannabúðum Banda Aceh, …
Kona frá Aceh héraði í Indónesíu í flóttamannabúðum Banda Aceh, höfuðborg héraðsins í dag. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert