Spá launahækkunum nokkuð umfram kjarasamninga

Rann­veig Sig­urðardótt­ir vara­seðlabanka­stjóri pen­inga­stefnu og Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, aðal­hag­fræðing­ur Seðlabankans.
Rann­veig Sig­urðardótt­ir vara­seðlabanka­stjóri pen­inga­stefnu og Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, aðal­hag­fræðing­ur Seðlabankans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seðlabankinn gerir ráð fyrir að laun á þessu ári og næstu tveimur árum muni hækka nokkuð umfram það sem samið var um í kjarasamningum á almennum markaði það sem af er þessu ári. Kjarasamningar gera ráð fyrir 3,25% hækkun launa á þessu ári og 3,5% á næstu árum. Seðlabankinn gerir hins vegar ráð fyrir 5,5% hækkun á þessu ári og  5,6% hækkun á næstu tveimur árum, eftir að hafa lækkað spá sína umtalsvert.

Á kynningarfundi bankans vegna útgáfu Peningamála og yfirlýsingar peningastefnunefndar fór Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, yfir stöðuna í hagkerfinu og sýn bankans fram á við.

Samningarnir heilt yfir í takt við það sem bankinn horfði til

Fór hann meðal annars yfir launaþróun og spá bankans í þeim efnum, en í febrúar spáði bankinn því að laun myndu hækka um 6,5% á þessu ári, eftir að spá bankans hafði verið enn hærri í lok síðasta árs.

Þórarinn sagði að kjarasamningar sem gerðir hefðu verið væru heilt yfir í takt við það sem bankinn hafi verið að horfa til, en að núverandi spá bankans gerði ráð fyrir minni launahækkunum en í byrjun árs.

Úr kynningu Þórarins á fundinum í dag. Þar má sjá …
Úr kynningu Þórarins á fundinum í dag. Þar má sjá hvernig spá bankans um laun hefur breyst frá síðustu tveimur útgáfum Peningamála og þróun launavísitölunnar. Graf/Seðlabankinn

Nokkuð umfram kjarasamninga

Hins vegar þyrfti bankinn að horfa til fleiri þátta en beinna prósentuhækkana í kjarasamningum, sem eru 3,25% fyrir þetta ár og 3,5% á næstu tveimur árum. Sagði hann samningana í raun fela í sér ríflega 4% hækkun launa á ári og að Seðlabankinn gerði ráð fyrir 5,5% launahækkun á launastund á árinu. „En það er ekki bara það sem við horfum á. Við þurfum að leggja mat á til dæmis launaskrið í þjóðarbúinu, samsetningaráhrif þegar samsetning vinnuaflsins er að breytast, forsendur um aðra kjarasamninga og svo framvegis.“

Launavísitalan, eða breyting launa á ársgrundvelli, fór hæst upp í 11% á seinni hluta síðasta árs, en hefur síðan lækkað nokkuð og er nú í um 7%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert