Opna þurfti 600 líkpoka að nýju

Hermenn með líkkistur í Pang Nga héraði í Taílandi í …
Hermenn með líkkistur í Pang Nga héraði í Taílandi í vikunni. AP

Réttarmeinafræðingar sem hafa verið að störfum í Taílandi eftir hamfarirnar í Asíu á annan dag jóla þurftu í dag að opna að nýju um 600 líkpoka sem geyma fórnarlömb flóðbylgnanna þar. Þetta reyndist nauðsynlegt því merkingar á pokunum höfðu skolast burt af völdum regns eða sýklaeyðandi vökva.

Vinna við að bera kennsl á líkin á ný hófst í dag í þremur hofum í Phang Nga-héraði, en þangað var farið með lík um 1.800 fórnarlamba flóðbylgnanna.

Pornthip Rojanasunan, taílenskur réttarmeinafræðingur, sagði að búið væri að bera kennsl á lík flestra Taílendinga sem flutt hefðu verið í hofin og sérfræðingar frá 22 þjóðlöndum ynnu að því að bera kennsl á erlend fórnarlömb. „Vandamálið sem við glímum nú við er að sýklaeyðandi vökvi sem við sprautuðum á líkpokana hefur eytt fyrri merkingum á þeim,“ sagði Rojanasunan í samtali við AFP-fréttastofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert